Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.04.2016 09:38

Sorg.


Bassi minn er allur. Hann varð fyrir bíl í gær, sunnudag. Við vorum rétt komnir í hlað eftir bíltúr upp á Akranes. Hann var á vappi hér framan við húsið og hafði sýnt tilburði til að stinga af. Í stað þess að binda hann lét ég duga að skipa honum að vera kyrr hjá mér. Hann gegndi - en aðeins meðan hann sá að ég var að fylgjast með honum. Um leið og ég beindi athyglinni annað var hann horfinn.

 

Hann mun hafa farið rakleitt upp eftir Ártúnshöfðanum, þar sem hann hefur vitað af tík í hundalátum. Skv. því sem mér var sagt eftirá elti hann tíkina eftir Bíldshöfðanum að Höfðabakka og hljóp rakleitt yfir þá miklu umferðargötu og í veg fyrir bíl.

 

Bílnum ók kona sem engu gat forðað. Bassi fékk mikið högg, hentist eftir götunni og lá grafkyrr þar sem hann kom niður. Ungt par sem varð vitni að óhappinu tók að sér að koma honum undir læknishendur og fór með hann á dýraspítalann í Víðidal. Þar var lokað á sunnudegi en ræstingakona opnaði fyrir þeim og aðstoðaði við að hringja á vakthafandi dýralækni. Sú sem óhappinu olli skildi eftir nafn og símanúmer en kom að öðru leyti ekki að framhaldinu.

 

Bassi var örmerktur með símanúmerinu mínu. Það gekk hins vegar illa að ná í mig í síma en gekk þó að lokum. Ég spurði um meiðsli en fékk loðin svör. Fór beint upp í Víðidal og þegar þangað kom var orðið ljóst að Bassi var illa meiddur. Hann var lærbrotinn vinstra megin, vinstri framfótur svaraði ekki eðlilega og hann hafði fengið höfuðhögg svo tönn losnaði. Þegar ég sagði dýralækninum frá aldri Bassa heyrði ég strax að það dró úr henni. Bassi var orðinn tíu og hálfs árs og hún taldi litlar líkur á að hann næði sér að fullu auk þess sem aðgerðin yrði honum mjög erfið. Ég bað um ráðleggingar og fékk. Á þeim var helst að skilja að best væri að leyfa Bassa að fara....

 

Ég hringdi í Elínu Huld og bað hana að koma til mín. Ég réði bókstaflega ekki við þessar aðstæður einn. Þetta var algert niðurbrot fyrir okkur bæði og erfiðari ákvörðun hef ég aldrei tekið á ævinni. Ég vil trúa því að ákvörðunin hafi verið rétt, og að það hafi verið Bassa fyrir bestu að fá að fara. Ég gat ekki séð hann fyrir mér fatlaðan að meira eða minna leyti, jafn gríðarlega orkumikinn hund með endalausa hreyfiþörf. Eftir nauðsynlegan undirbúning fékk hann viðeigandi sprautur, og síðan hélt ég höfði hans og strauk honum meðan hann sofnaði útaf.

 

 

 

Ég ákvað að láta brenna Bassa. Við óskuðum ekki eftir öskunni, því hvað er aska í krukku á móti jafn einstöku dýri og hann var? Þegar hann var dáinn og farinn var bókstaflega ekkert það eftir sem okkur þótti vænst um. Skrokkurinn var því látinn hverfa en minningarnar lifa með okkur til loka.

 

(Þessi færsla er skrifuð þann 17. september, en tímasett í rétta röð færslna. Í dag eru fimm mánuðir frá því Bassi dó. Hans er enn saknað á hverjum degi)


Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135206
Samtals gestir: 27929
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:47:58


Tenglar