Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


05.04.2016 09:11

Bílalyftan í Neskaupstað.


Að fá eitthvað í hausinn getur haft margvíslega þýðingu - bæði orðatiltækið og svo atburðurinn sjálfur. Ég hef fengið eitt og annað í hausinn gegnum árin, t.d. flugur og fleira. Þetta atvik hér á myndunum var ég þó nærri því að fá í hausinn í beinni og eiginlegri merkingu. Hefði það gerst væri ég ekki hér að skrifa, heldur ætti látlausan kross í einhverjum garði.

Mig minnir að hann hafi heitið Jón, sá sem átti þennan vagn. Hann hafði treyst okkur á verkstæði SVN fyrir honum því hann hafði orðið var við skrölt í undirvagni og vildi láta athuga. Skildi þess vegna bílinn eftir hjá okkur og fór.

Þetta var snemma vors og enn var snjór á götum. Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupstað átti ljósdrapplitan Peugeot 504 pickup sem hafði verið í viðgerð daginn áður á lyftunni - og af því að Peugeot var afturdrifinn var hann með þunga sandpoka á pallinum til að ná betra gripi í hálkunni. Eitthvað hafði misþungi bílsins farið illa í lyftuna sem, þegar átti að slaka niður, neitaði og sat föst uppi. Ég bauð mig fram til að klifra upp á bílpallinn og henda sandpokunum niður. Þetta var ekki erfitt nema hvað töluverð sveifla var á bílnum meðan pokarnir flugu. Aðgerðin heppnaðist, bílnum var slakað niður og er hann þar með úr sögunni. Þetta var undir dagslok og við fórum heim.

Fyrsti bíl á lyftu daginn eftir var N-550. Hann kom í minn hlut og var hífður upp undir topp á lyftunni. Ég stóð svo undir og skók allt sem skekja mátti, til að finna skröltið hans Jóns (hafi hann heitið það). Það var tekið vel á því og bíllinn og lyftan hristust saman í dansinum. Skröltið fannst ekki almennilega og því skyldi farið út að aka og prófa. Rofinn fyrir lyftuna var á vinstri stólpanum - bílstjóramegin - og ég gekk út að stólpanum, tók mér stöðu hinu megin við hann, teygði handlegginn yfir fyrir og ýtti á niður-rofann.

Það kom eitthvert óskilgreint hljóð þegar vinstri lyftubúkkinn hrapaði niður með andlitinu á mér. Svo fylgdi stór, rauð flygsa sem skall í gólfið, kom svo fljúgandi í átt að andlitinu, skall á stólpanum, hætti við atlöguna og staðnæmdist á miðju gólfi. Það tók mig sekúndubrot að átta mig á því hvað hafði gerst og að rauða flygsan var toppurinn og húddið á N-550.










Á annarri lyftu mér til vinstri var LandRover jeppi og foringinn sjálfur, Þórarinn Oddsson, var að vinna inni í honum bílstjóramegin. Ég man að ég opnaði farþegahurðina á LandRovernum og tilkynnti Tóta um óhappið - svona eins og það hefði mögulega farið fram hjá honum! Tóti var hálflamaður því hans fyrsta hugsun hafði verið sú að ég hefði verið undir bílnum. Við vorum því áreiðanlega álíka glaðir að sjá hvorn annan.....

Vinnueftirlitið var kallað til. Þeir komu tveir ofan af Héraði með möppur í hendi og skoðuðu lyftuna, sem auðvitað var með fulla skoðun eins og annað hjá SVN - þeir þekktu sitt heimafólk. Það kom á daginn að heimasmíðað stykki í lyftunni hafði gefið sig, trúlega fyrir einhverju síðan. Öryggisstykki átti að taka við ef burðarstykkið gæfi sig en því var þannig fyrirkomið að ómögulegt var að sjá bilunina utanfrá.

Bíllinn var talinn ónýtur og ég veit ekki hvað varð um hann. Líklega hefur hann verið rifinn. Lyftan fékk hins vegar viðgerð og fór aftur í gang. Nokkrum árum síðar var hún seld úr bænum. Hvert skyldi hún hafa farið? Jú, helvítið elti mig vestur á Ísafjörð, þar sem Bílaverkstæðið Ernir (afsprengi flugfélagsins) keypti hana og setti upp. Ég var þá að vinna hjá Steiniðjunni, steypustöðinni á Ísafirði en greip í hjá Örnum í hjáverkum vetrartíma þegar rólegt var í steypunni. Eðlilega hafði ég þó lítinn áhuga á að rifja upp gömul kynni við gulu Stenhöj-lyftuna.

Á einni myndinni sést Benz kálfur. Eða ekki, þetta var ekki Benz heldur Hanomag sem Tóti Odds hugðist gera að húsbíl. Það fór óhemju vinna í þennan bíl, m.a. fjórhjóladrif, muni ég rétt, en mig minnir að hann hafi ekki orðið húsbíll hjá Tóta. Aðrir þekkja þá sögu eflaust betur.......

Á fyrstu myndinni stendur eigandi bílsins til hliðar og lyfturofinn er beint framan við Tóta. Á annarri myndinni sést eigandinn ásamt Kidda á Hofi - Karli Kristjáni Hermannssyni, einum þeirra öndvegisdrengja sem ég var svo heppinn að fá sem vinnufélaga þennan tíma hjá SVN.

Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135172
Samtals gestir: 27911
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:26:25


Tenglar