Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.03.2016 12:13

Hádegi.


Það er hádegi í Höfðaborg, líkt og annarsstaðar. Kannski aðeins svona meira há-hádegi, því nú fyrir hádegið urðu ákveðin tímamót hér heimavið. Þau fólust m.a. í því að eðalhundurinn Edilon Bassi Eyjólfs-eðaeftiratvikumElínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp fór í klippingu. Hann fer í klippingu sirka fjórum sinnum á ári. Fyrir hverja klippingu er hann ógnarstór hundur en á eftir er hann bara lítil og ræfilsleg písl sem kúrir sig skjálfandi af kulda uppi í sófa og vill ekki sjá að fara út og viðra sig. Svo fólust þessi tímamót líka í því að í fyrsta sinn ( í mínu minni) tókst mér að segja "nei, því miður" við mann sem hringdi og falaðist eftir aðstoð við bílinn sinn. Þeir sem best þekkja til vita hvílíkt risaskref var stigið með neituninni og horfir nú strax vænlegar með að ég geti mögulega lokið einhverju af þeim verkum sem ég þarf að ljúka fyrir sumarið - til þess einfaldlega að geta átt eitthvert sumar!

...og af því að nú er svona há-hádegi þá ákvað ég að gera sérstaklega vel við mig í mat. Það er raunar dálítið erfitt stundum því þrennt það leiðinlegasta sem ég veit í lífinu er að kaupa í matinn, taka bensín og borga reikninga með heimabanka. Þetta er ekki vegna þess að ég eigi ekki aura fyrir hlutunum, heldur er þetta eflaust einhver brotalöm í sálarlífinu. Á endanum verð ég að gera þetta allt en ekki fyrr en skáparnir eru tómir, bíllinn bensínlaus og reikningar komnir undir eindaga. Það vill svo til að núna eru skáparnir í eldahorninu í Höfðaborg nánast tómir. Ég gróf djúpt í einn og fann heila körfu með bollasúpum. Án þess ég þekki upprunann giska ég á að þessar bollasúpur séu þarna vegna þess að ég hafi tæmt einhvern húsbílinn eitthvert haustið og gleymt birgðunum. Þegar ég las á þessa bollasúpupakka stóð á þeim að síðasti söludagur væri svona frá miðju ári 2013 og fram á mitt ár 2014. Ég hef enga trú á að þurrmatur renni svo glatt út og trúr þeirri sannfæringu skellti ég í þessa fínu tómatsúpu. Eins og ég vissi - það var nákvæmlega ekkert að henni og ef eitthvað er er meiri kraftur í henni nú en var. Bollasúpur hafa yfirleitt langan lifitíma og þessi, sem rann út í júní 2013 hefur trúlega verið framleidd tveimur til þremur árum fyrr. Semsagt fínasta bollasúpa og tuttugu mínútum eftir neyslu kenni ég mér einskis meins, nema síður sé...



Ég mun í næsta þætti segja frá því hvernig pottréttur sem rann út 11/2013, bragðaðist..
Flettingar í dag: 668
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 156910
Samtals gestir: 32393
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 16:14:49


Tenglar