......var
Stakkanesið kuldalegt þar sem það hímdi undir snjóteppi úti við Skipavík. Það snjóaði gríðarlega í Hólminum sl. fimmtudag (4.feb) og í áframhaldandi kulda hafði sá snjór ekki sigið merkjanlega þegar við EH renndum í hlað á Borgarbrautinni seint á föstudagskvöldi. Við lögðum af stað úr Reykjavík rétt um hálfsex og áðum að vanda í Borgarnesi - ekki þó í Geirabakaríi því þar var búið að loka, heldur í Bónusbúðinni og versluðum nauðsynjar til næsta dags. Veðrið var þokkalegt, dálítill blástur og kalt en hálkulaus vegur að mestu. Sama færið hélst uppundir Kolbeinsstaði en þar skipti um og við tók stífur vindstrekkingur af austri. Loft var tiltölulega bjart en vindurinn reif upp hjarn svo úr varð stífur lágrenningur yfir veginn. Skyggni til aksturs fór allt niður í eina stiku á köflum (eru það ekki um 50 mtr?) og er ofar dró bætti í vindinn. Hálku var ekki að merkja að neinu ráði nema við Dalsmynni, frá afleggjaranum að Laugagerðisskóla og upp undir Rauðkollsstaði. Þaðan var auður vegur að Vegamótum en yfir Vatnaleiðina var fljúgandi hálka auk þess sem þar hvesti verulega. Það mátti heita blindbylur - án ofankomu - alla leið yfir og að vegamótum norðanvert. Þar var færið skaplegra en þegar við renndum inn í Stykkishólm mátti sjá á klukkunni að aksturinn frá Borgarnesi hafði tekið okkur um tuttugu mínútum lengri tíma en vanalega.
Þegar heim á Borgarbrautina kom gat að líta stóran snjóskafl sem teppti alveg aðgengi að húsinu. Yfir innkeyrsluna lá mittisdjúpur skafl en næst húsinu var þó snjólítil ræma. Sem betur fer hafði nágranninn í næsta húsi mokað mjóan gangstíg upp að sínu húsi og þann stíg laumuðumst við með okkar farangur og síðan meðfram húsveggnum. Það tók smástund að brjóta klaka frá útidyrunum og finna lykilinn en hafðist þó að lokum. Innandyra ar enga skóflu að finna, aðeins strákúst á sólpallinum, en hann var vonlaust verkfæri í baráttu við skaflinn.
Við tókum laugardaginn rólega framan af en eftir hádegi var lagt í leiðangur til Gulla Rúfeyings og frú Löllu til að fala skóflu. Það var auðsótt og eftir vel útilátið kaffi var ráðist í að moka innkeyrsluna. Þar voru höfð helmingaskipti þó ekki sé grunlaust um að skrifarinn hafi sloppið betur en til stóð. Það var nefnilega talsverð vinna að moka skaflinn og gera sæmilega gangfært heim að húsinu.
Eftir moksturinn var blásið til kaffihlés en síðan lá leiðin í heita pottinn í sundlauginni, þar sem legið var fram að lokun. Ekki spillti veðrið, því þrátt fyrir dálítinn kuldagjóstur var bjart í lofti og sól meðan hennar tími leyfði. Laugardagskvöldið var nýtt í dvd- og sjónvarpsgláp, tölvulegu og þvílíkt.
Sunnudagurinn, 55. afmælisdagur EH, heilsaði líkt og laugardagurinn en þó var öllu lygnara. Við ákváðum að ganga út á flatirnar austan og neðan við húsið, sömu slóðina og við röltum á fimmtugsafmæli EH, þegar við dvöldum einnig helgarlangt á Borgarbrautinni með skottinu Bergrós Höllu. Nú var hún ekki með til að sjá um myndavélina eins og þá svo við máttum sjálf sjá um þá hlið. Árangurinn varð m.a. svona:
Eftir gönguna lá leiðin líkt og oft áður, í heita pottinn. Þar var aftur legið fram að lokun og eftir pottinn var haldið í bollukaffi til Löllu og Gulla. Við áttum raunar að mæta þangað mun fyrr en misskildum tímasetninguna. Það var dálítið miður því þau gömlu voru búin að bíða með bollurnar eftir okkur síðan um miðjan dag. Ekki varð að gert og við sátum stórveislu fram undir kvöldmat. Ætlunin hafði verið að borða gala-afmæliskvöldverð á Narfeyrarstofu og við áttum pantað borð en höfðum það eins seint og hægt var. Þannig gengu hlutirnir upp og steikin á stofunni var virkilega fín þrátt fyrir bolluátið!
Kvöldið var svo tekið rólega að vanda, veðrið hélst bjart og stillt en kuldinn hélt okkur innan dyra. Líklega er þetta fyrsta helgardvölin í Hólminum sem ekki felur í sér bíltúr út í Grundarfjörð eða lengra. Jólabækurnar höfðu raunar verið settar í töskuna syðra sem möguleg afþreying en þrátt fyrir góðan vilja sátu þær á hakanum fyrir 160 mín. langri þáttaröð um Inndjúpið á dvd.
Mánudagurinn rann upp með hvössum austanvindi og enn meiri kulda en þokkalega bjartur þó. EH hafði tekið frí þann dag en ég átti að hefja kvöldvakt hjá Óskabarninu kl. 16. Hússkil voru að vanda kl. 12 á hádegi svo eftir morgunkaffi var gengið í að taka saman og þrífa. Allt gekk það að óskum og við kvöddum Stykkishólm að sinni eftir stutta heimsókn til Löllu og Gulla.
Við norðurenda Vatnaleiðar drógum við uppi tvo bíla sem voru síðan á undan okkur suður yfir. Sá fremri var jeppi með litla kerru, sá aftari var lítill sendibíll. Þeir voru greinilega í samfloti og áttu í erfiðleikum vegna hálku og hvassviðris. Kerran vildi fjúka þvert útaf jeppanum og sendibíllinn fauk ítrekað til að aftan. Hraðinn var því lítill, enda við á ónegldum dekkjum sem gripu lítið í klakann þótt glæný væru. Þannig gekk suður að Vegamótum en þar tók við marauður vegur fyrir utan kaflann við Dalsmynni sem áður var lýst. Við tókum okkar áningu í Geirabakaríi í Borgarnesi og komum til Reykjavíkur rétt uppúr kl. 15. Farangurinn var borinn í hús og fataskipti höfð, síðan var haldið beint til vinnu og klukkuna vantaði tíu mínútur í fjögur þegar ég stimplaði mig inn.
Það eru u.þ.b. sex vikur fram að næstu ferð í Hólminn, því ég á húsið pantað um páskana, líkt og í fyrra. Þeir eru semsagt snemma í ár og því litlar líkur á að vorað hafi nægilega til að Stakkanesið verði sjósett þá.
....en þá má í staðinn gera aðra atrennu að jólabókunum!