Þeir voru að
hringja til mín frá Símanum. Þeir hringdu raunar ekki sjálfir heldur fengu til þess unga dömu sem líklega hefur verið í svona kvöld - úthringivinnu. Ég giska á það vegna þess að þó hún væri öll af vilja gerð gat hún ekki svarað einföldum spurningum heldur aðeins þulið upp það sem greinilega stóð á blaði fyrir framan hana.
Megininntakið í því sem hún hafði að segja var að nú ætlar Síminn að breyta sjónvarpsáskriftarpökkum sínum - eina ferðina enn. Hún var, blessunin að láta mig vita af þessu og í leiðinni að bjóða mér áskrift að glænýjum - takið eftir, glænýjum.... - áskriftarpakka sem innfæli nær allar stöðvar sem Síminn hefði uppá að bjóða. Ég spurði hvað þessi nýi pakki kostaði á mánuði.
Jú, aðeins tæpar sjö þúsund krónur!
Ég spurði hvað ég væri að borga fyrir þann pakka sem ég er nú með og líkar prýðilega við (ég veit svo sem alveg hvað ég er að borga en vildi gjarnan að það kæmi fram þarna svo samanburðurinn væri skýr)
Jú, tæpar þrjú þúsund krónur á mánuði!
Ég spurði hvort Síminn hefði nokkurn tíma breytt áskriftarpökkum á þann veg að viðskiptavinurinn nyti lægra verðs en betri þjónustu. Því gat hún ekki svarað enda líklega ekki ráðin til annars en að lesa texta af blaði. Þessvegna sagðist ég heldur engu geta svarað fyrr en ég hefði skoðað áskriftarpakkana á heimasíðu Símans. Með það kvöddumst við í vinsemd.
Svo fór ég að skoða pakkasamsetningarnar. Ég sá þrjá pakka. Einn kostaði 490 krónur og var fátt nema umbúðirnar. Annar kostaði 4900 krónur ( verðið er reyndar á reiki eftir því hvar á síðu Símans er skoðað, því þar sem stöðvarnar eru taldar upp er verð pakkans sagt 4.390 kr.) og fól í sér Norðurlandastöðvar og þónokkrar fleiri, alls 27 stöðvar hafi ég talið rétt. Þar eru td. tvær franskar fréttastöðvar (sem er útilokað að ég geti haft nokkurt gagn af) og VH1, sem sjónvarpar myndrænni músík allan sólarhringinn. Sú stöð er í núverandi pakkanum mínum og er hötuð til dauðans því í hvert sinn sem ég hleyp yfir hana á stöðvarápi þarf ég að lækka í hljóðinu - hún er nefnilega miklu hærri en aðrar rásir. Svo er þarna í boði aðgangur að BBCBrit. sem sjónvarpar breskum skemmtiþáttum.
Ókei. Hafið þið horft á BBC skemmtiþætti? Ég hef reynt það og Jesús Kristur á krossinum hvað þeir eru leiðinlegir!! Ég myndin næstum borga fyrir að losna við þessa grátlegu stöð úr pakkanum!
Svo er þarna Boomerang, sem sjónvarpar eingöngu barnaefni. Hvað skyldu nú vera mörg börn í heimili hér í Höfðaborg?
Því er fljótsvarað. Hér búa tvö stór börn sem horfa stundum á Tomma og Jenna þegar þau eru að bugast á breskum og sænskum skemmtiþáttum....gefum Boomerang smá séns.
Svo er raunar í þessum pakka aðgangur að National Geographic, svona sem gulrót fyrir þá sem ekki horfa á neina af hinum í pakkanum. Vissulega frábær stöð en maður borgar bara ekki 4.900 kr. á mánuði fyrir áhorf á hana eina. Ekki frekar en hálfan handlegg fyrir aðgang að Stöð tvö sem ég hef ekki keypt í áraraðir.
Um ítalskar og spænskar sjónvarpsstöðvar ætla ég ekkert að segja, annað en að ég hef jafnlítið gagn af þeim og pólska ríkissjónvarpinu sem einnig er í pakkanum sem kostar 4.390 eða 4.900 eftir því hvar maður er staddur á síðu Símans.
Eitt má ég samt til með að nefna: Danska sjónvarpsstöðin DR1 hefur verið að senda út frábæra 50 mín. þætti um Poirot, eftir sögum Agöthu Christie. Ég reyni eins og ég get að fylgjast með þeim. Svo bregður fyrir á DR1 þáttum um Taggart og fleira í þeim dúr ásamt ágætis bíómyndum. DR1 er þessvegna trúlega sú stöð sem ég horfi mest á fyrir utan íþróttastöðvar eins og Eurosport og Extreme. Vilji ég hins vegar halda þeim tveimur síðasttöldu verð ég að kaupa stöðvapakkann uppá tæpar sjö þúsund eftir breytinguna hjá Símanum!
Innheimtufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu auglýsir mikið undir slagorðinu: "Ekki gera ekki neitt" og allir skilja meininguna. Nú er ég að hugsa um að gera þveröfugt við þetta slagorð og gera hreint ekki neitt í þessum pakkamálum Símans. Það hallar nefnilega til sumars og á sumrin er lítið horft á sjónvarp í Höfðaborg. Þess vegna er ég að hugsa um að gera nákvæmlega ekki neitt. Ég held aðeins áfram að borga þennan pakka sem ég borga í dag svo lengi sem ég verð rukkaður um hann en þegar breytingar Símans taka gildi og núverandi pakkanum mínum verður lokað er það Síminn sem tapar peningum en ekki ég.
Mjög einfalt.