Það er margt
skrýtið. Eitt af því sem er skrýtið er internetið og umgengni manna um annarra efni. Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér undanfarnar vikur eða svo. Tilefnið er að fyrir langa löngu stofnaði ég síðu á Facebook. Ég hef ekki verið sérstaklega spenntur fyrir Facebook, aðallega vegna þess að mér hefur fundist nægur tími fara í að halda úti þessarri síðu og óþarfi að bæta þar neinu við.
Nokkrum sinnum hefur það gerst að menn hafa haft samband við mig og beðið um leyfi til að birta einstakar myndir - eða fleiri saman - á einhverjum Facebook hópsíðum eða af öðrum tilefnum. Undantekningalaust hef ég gefið slík leyfi, þó með því skilyrði að tekið væri fram hvaðan myndirnar væru fengnar.
Fyrir stuttu ákvað ég að laga til þessa Facebook síðu mína, lagfæra notandanafnið og setja inn myndir á hana. Ástæðan fyrir ákvörðuninni var margþætt en helst þó að skipa- og bátaáhugamenn hafa í auknum mæli verið að flytja sig á þær slóðir með sína visku. Einnig var sá auglýsingamarkaður sem ég helst fylgdist með að færast meira og meira inn á Facebook. Ég rak mig á þetta þegar ég keypti fyrra mótorhjólið og fór að leita að búnaði tengdum því á þeim auglýsingamarkaði sem mér var tamastur, þ.e. bland.is. Mér var bent á að mun vænlegra væri að finna slíkan búnað í auglýsingum á Facebook, þar sem flæðið væri mun meira og tengingarnar betri. Þegar ég svo fór að skoða miðilinn betur og læra dálítið á hann ákvað ég að bæta þar aðganginn minn og nýta hann meira. Ég tengdi mig fljótlega inn í nokkra báta- og bílahópa og hóf að lauma þar inn einni og einni mynd úr safninu. Fyrirliggjandi upplýsingar um viðk. myndir hef ég jafnan látið fylgja með enda hafa skýringalausar myndir alltaf minna gildi - amk. finnst mér það.
Ég hef verið að renna gegnum þessa hópa og eins aðra sem eru opnir öllum en eru á mínu áhugasviði og komist að dálitlu sem ég ekki átti von á. Í minnst tveimur hópanna hef ég fundið myndir úr mínum söfnum í nokkru magni. Á öðrum staðnum birtir þær maður sem ég vissulega gaf leyfi á sínum tíma - með sama fororði og fyrr. Því er mætt með því að setja einungis " stakkanes.123.is " fyrir ofan myndirnar en ekki stafkrók til frekari skýringar. Þetta finnst mér ekki góðar tvíbökur, eins og maðurinn sagði.
Á hinum staðnum birtast einnig myndir sem ég gaf samskonar leyfi fyrir á sínum tíma en þar er ekki haft fyrir neinum upprunaupplýsingum - ekki er að finna eitt einasta orð um það hvaðan myndirnar eru fengnar.
Í gærkvöldi fann ég þriðja staðinn þar sem mynd frá mér hefur verið notuð. Í það sinn hefur höfuðið verið bitið af skömminni því sú mynd var með vatnsmerkinu STAKKANES í einu horninu, eins og flestar mínar myndir. Myndin hefur verið klippt til svo vatnsmerkið er horfið en miðja hennar síðan stækkuð og endurnýtt.
Ég veit að sú mynd ásamt öðrum tengdum var í höndum þriðja aðila með fullu leyfi en nafn hans kemur hvergi fram heldur.
Þetta finnst mér heldur ekki góðar tvíbökur. Kannski er illt að varast þetta og mér sýnist menn nota myndir hver frá öðrum og eins af opinberum síðum hægri vinstri án þess að geta heimilda. Ég brá á það eina ráð sem mér er fært: Að loka öllum myndaalbúmum á 123.is síðunni minni með lykilorði. Kannski verður það til einhvers, kannski ekki.
Nóg um það. Það er laugardagur, frostlaust og fallegt veður. Hentar vel að fara út og viðra hundinn eða þvo götusaltið af bílnum. Svo á að opna sýningu í dag kl. 16 í Sjóminjasafninu á Granda, um pólska flutningaskipið Wigry og endalok þess við Mýrar. Hver veit nema maður kíki þangað?
Eigið góðan dag......