Það kom fram í lok síðasta pistils að þegar við EH komum
úr Norðurlandsreisunni (um Stykkishólm) vissum við ekki hversu skammt yrði
stórra högga á milli, og innan viku yrðum við lögð af stað í enn lengra ferðalag. Þannig var að vinafólk okkar búsett austur í Vopnafirði
stóð í bílakaupum syðra. Á þeim bæ var ungur maður að fá bílpróf og eins og
gerist var honum mjög umhugað að eignast eigin bíl. Hann sagðist hins vegar
ekki "vera neinn Toyota-tittur" svo notuð séu hans eigin orð og vildi aðeins
þýskan bíl af þekktri tegund - BMW. Ekki er ég neinn sérstakur BMW aðdáandi en
var heldur ekki ráðandi heldur aðeins ráðgefandi. Feðgarnir eystra fundu
þokkalegt eintak og eftir nokkurn tíma voru kaupin gerð. Ég var svo fenginn til
að sækja bílinn til seljandans og vista hann þar til ferð félli austur. Ekki var nein lausn í sjónmáli og kaupandinn
ungi gerðist æ óþreyjufyllri eftir nýja bílnum sínum. Mæddi þar mjög á
foreldrunum, svo sem títt er enda er það þekkt að vanti ungt fók eitthvað eiga
foreldrar fortakslaust að bjarga öllu.
Þegar það dróst að einhver fyndist á austurleið sem
ferjað gæti bílinn datt mér í hug að slá nokkrar flugur í einu höggi - að ferja
bílinn sjálfur til eigandans, krydda sumarfríið dálítið með öðru ferðalagi á
fallegar slóðir og fá flugferð ofan í kaupið. Ég bauð því fram þjónustu mína
gegn flugferð til baka. Boðinu var tekið og þar sem ég vissi að EH hafði áhuga
á að fljóta með ef mögulegt væri keypti ég fyrir hana flug suður með sömu vél.
Suðurflugið áttum við að morgni sunnudagsins 26. júlí og veðurspá helgarinnar
var góð, þrátt fyrir leiðindaveður norðanlands vikuna á undan - eða allar götur
frá því við yfirgáfum Norðurlandið fyrri laugardag!
Laugardagurinn 25 júlí rann upp, bjartur og sólríkur í
borginni. BMW var ferðbúinn utan við Höfðaborg þegar EH mætti með sinn farangur
og klukkan var nákvæmlega 08:19 þegar lagt var af stað.
Góðviðrið hélst upp í
Borgarnes en í þetta sinn voru lög brotin og áningu í Geirabakaríi sleppt. Við
vorum rétt búin að kyngja morgunmatnum og ákváðum því að aka rakleitt í Staðarskála
og á þar.
Það var þungt í lofti yfir Holtavörðuheiðinni þó ekki
væri þar þoka líkt og tíu dögum áður þegar við ókum yfir hana á sjúkrabílnum.
Þegar að Staðarskála kom vorum við enn ekki orðin nægilega ferðaþreytt til að
stoppa og ákváðum því að halda áfram til Blönduóss. Ég má til að skjóta því inn
að BMW- inn reyndist prýðilegur ferðabíll þó orðinn væri jafngamall nýja
eigandanum, eða sautján ára. Ekki var merkjanlegt í honum slit eða þreyta enda
kominn úr góðum höndum og hafði ekki verið kappaksturbíll, eins og títt er um
eldri BMW hér syðra. Við lögðum af stað úr Rvk með fullan bensíntank og í
Staðarskála var engin eyðsla merkjanleg á mæli. Við héldum áfram til Blönduóss
á fullri ferð......
Á Blönduósi var glaða sólskin og hæg gola. Á N-1 stöðinni
var talsvert af ferðafólki, m.a. par frá Skotlandi á tveimur BMW ferða-mótorhjólum.
Við settumst inn, fengum okkur kaffi og kökubita og lituðumst um eftir
ferðahandbók, sem okkur vanhagaði um. Ekki fundum við rétta bók en þó aðra
sæmilega í staðinn. Elín Huld pósaði við bílinn en ég þóttist ætla að mynda
gamla, bláa Bensann í bakgrunni:
Tuttugu mínútum síðar kvöddum við Blönduós. Enn skein
sólin á okkur og við ókum í afbragðs veðri hefðbundna leið fram Langadal, yfir Vatnsskarð og um Varmahlíð
norðurúr. Það var þungbúið á Öxnadalsheiðinni og niður dalina en á Moldhaugahálsi
vorum við komin aftur í glampandi sól. Inn á Olís - stöðina á Akureyri renndum
við á slaginu eitt eftir fimm tíma úr Rvk mínus Blönduósstoppið. Hjá Olís
fylltum við bílinn af bensíni og fundum út að á 390 eknum kílómetrum hafði hann
eytt 24,5 ltr. Einnig keyptum við okkur þokkalegan hádegisverð og renndum því
næst í rólegheitum gegnum bæinn sem iðaði af lífi enda skemmtiferðaskip í höfn.
Ég nefndi í síðasta pistli að ég hefði gripið í tómt á
Mótorhjólasafni Íslands þegar ég ætlaði að kaupa þar bol. Nú gafst annað
tækifæri og það var auðvitað gripið. Út fór ég með svartan T-bol merktan safninu
í fyrir og með trúarjátningu bifhjólamannsins í bak. ( Ég á enn eftir að
útskýra hvað mér gekk til með kaupunum en sú skýring kemur innan nokkurra daga)
Frá safninu renndum við austuryfir Eyjafjarðarbrúna, réttum klukkutíma eftir
komu.
Áfram sól, áfram blíða, rétt eins og almættið hefði
ákveðið að bæta okkur upp brákaða sumarferðaáætlunina með því að gera aðrar
ferðir eins stórkostlegar og mögulegt væri. BMW- inn sveif áfram
fyrirhafnarlaust, fjörugur eins og kálfur enda sloppinn úr stórborginni eftir
margra ára innanbæjarsnatt eiganda í eldri kantinum. Við Goðafoss var margt um manninn í sólinni
og við vegamótin hjá Laugum í Reykjadal stóð puttalingur og veifaði. Við höfum
oft tekið upp puttaferðalanga og þar sem við vorum með tómt skott gerðum við
það einnig nú. Puttann átti ung, þýsk dama sem hafði haldið til á Akureyri en
ætlaði í skotferð til Mývatns að hitta kunningja. Henni fannst lágur
hámarkshraðinn á íslensum vegum miðað við þýsku hraðbrautirnar en sættist á að
vegirnir væru raunar á engan hátt sambærilegir. Það kom okkur svo gríðarlega á
óvart þegar það kom upp úr dúrnum að hún þekkti ekkert til Færeyja og vissi
ekki að þær væru yfirhöfuð til! Við skrifuðum niður fyrir hana netfang og annað
sem þurfti til upplýsingar og skipulagningar fyrir næstu Íslandsferð!
Þýska daman varð eftir við Reykjahlíð en við héldum áfram
að jarðböðunum og áðum þar stutta stund. Til tals kom að skella okkur ofaní en
eftir umhugsun ákváðum við að geyma það til næsta sumars.
Á bílastæðinu stóð þessi höfðingi og sýndist á sænskum númerum. Þeir eru ekki allir upp á milljónir, ferðabílarnir sem rekast hingað til lands á sumrin og stundum hvarflar að manni sú spurning hvort pissukeppni í ferðagræjubúnaði sé kannski séríslenskt fyrirbrigði:
Klukkan tifaði og
austur í Vopnafirði beið ungur maður eftir bílnum sínum. Við héldum því enn af
stað austur um og ókum um gróðursnauð öræfin undir þykku skýjateppi - sólin hafði
ákveðið að hvíla okkur um stund. Það leið heil eilífð þar til við komum að
vegamótunum niður í Vopnafjörð, svo langur tími að ég fann sjálfan mig eldast!
Við höfðum hins vegar ekki langt ekið til austurs þegar sólin tók að skína aftur og
ég yngdist á ný.
Við höfðum ekki ekið þennan nýja veg fyrr og vorum hissa
þegar við áttuðum okkur á hvernig hann lá. Nú eru sérstök vegamót niður í
Hofsárdal, sem áður var aðalleiðin niður í Vopnafjörð. Nýi vegurinn liggur
beint af Möðrudalsöræfunum niður Þverfellsdal og Vesturárdal og ofan við þorpið
í Vopnafirði eru svo vegamót - til hægri niður í þorpið en beint áfram til
Bakkafjarðar. Við beygðum og ókum gegnum þorpið inn í sveit. Klukkan var
nákvæmlega fimm þegar við renndum í hlaðið að Svínabökkum, þar sem fólk var úti
við í heyskap. Við fengum sumsé að vita að þessi stórkostlegi laugardagur væri
fyrsti sólardagurinn í a.m.k. mánuð!
Nýi eigandinn var að vonum glaður með bílinn sinn en
heyskapurinn gekk þó fyrir öðru og við ákváðum að skola af okkur ferðarykið
(eins og það hét meðan enginn vegur var malbikaður) með heimsókn í
Selárdalslaug. Eftir kaffisopa fengum
við því lánaðan bíl húsfreyjunnar - enda vorum við búin að skila af okkur
BMW-inum - og ókum aftur út í þorp og áfram upp í dal. Í Selárdalslaug var mátulega
fámennt, laugin sjálf er framúrskarandi eftir nýjustu viðbætur og við lágum í
bleyti allt fram undir kl. 20 þegar loka skyldi. Þegar við komum aftur heim að Svínabökkum var
komin steik í ofninn og á tilsettum tíma voru feðgar kallaðir frá heyverkum í
mat. Kvöldið leið og undir háttatíma litum við á safnið sem húbóndinn hefur
smátt og smátt verið að koma sér upp í gamla íbúðarhúsinu á bæjarhlaðinu.
Það eru sögur tengdar þessum ASSIS brúsum, sögur sem stundum eru rifjaðar upp í góðu tómi. Kannski man einhver eftir plastbragðinu af þessum appelsínusafa?
Svo voru það kisurnar. Kannski man einhver sem las pistlana um Færeyjaferðina (sjá hér til hægri hliðar) eftir henni Sultu, sem Elín Huld féll fyrir í fyrrasumar? Sultukrílið dafnar prýðilega hjá EH í Reykjavík enda dekruð úr hófi fram. Ég má til að birta myndir sem teknar voru í heimsókn okkar að Svínabökkum í fyrrasumar, þegar Sulta var tekin inn í fjölskylduna:
Stórfjölskylda Sultu er náttúrlega á Svínabökkum og EH átti í harðri baráttu við sjálfa sig þegar hún skoðaði þessa litlu "frænku" sem kúrði í kassa með systrum og bræðrum:
Þessi var líka alger "heartbreaker" en var þegar kominn með heimili og því ekki á lausu:
Við áttum suðurflug frá Egilsstöðum kl. 10:40 á sunnudagsmorgni
og dagurinn hófst líkt og laugardagurinn: Glampandi sól og heiðríkja, stórkostlegur
dagur til heyverka. Það kom í hlut húsfreyjunnar að aka okkur niður í
Egilsstaði og leiðin var sú sama og við höfðum komið daginn áður, á nýjum,
malbikuðum vegi. Það eru u.þb. 135 km milli Vopnafjarðar og Egilsstaða sé þessi
leið farin - leiðin um Hellisheiði eystri er mun styttri en að sama skapi
seinlegri - og mér fannst vegurinn algerlega endalaus. Þegar niður á Jökuldalinn
kom áttaði ég mig á því að þá leið höfum við ekki ekið síðan 1985! Við fórum um
austurslóðir 2004 norðan frá og ókum þá gamla Vopnafjarðarveginn í blindþoku
niður Hofsárdal og Hellisheiði eystri yfir í Hérað. Aftur var ég þarna á
ferðinni 2010, þá sunnan að og ók frá Egilsstöðum niður Jökulsárhlíð og enn
yfir Hellisheiðina til Vopnafjarðar. Þá var verið að gera nýja veginn um
Vopnafjarðarheiði en ég ók fram Hofsárdalinn og inn á nýja veginn ofantil. Loks
vorum við EH á ferðinni þarna í fyrrasumar, á heimleið frá Færeyjum og ókum þá
frá Borgarfirði eystri þvert yfir Hérað á Lagarfossvirkjun og um Hellisheiði í
Vopnafjörð en þaðan um Bakkafjörð og Melrakkasléttu vestur um. Jökuldalurinn,
sem þarna heilsaði sólbaðaður í sumarbúningi var hreinlega fyrir okkur ókannað
land! Það er alveg dagsljóst að á þessum slóðum þurfum við að gefa okkur góðan
tíma á næstu árum.
Við mættum á flugvöllinn vel innan tímamarka og kvöddum
húsfreyjuna á Svínabökkum, sem átti eftir að aka alla þessa óraleið til baka.
Fyrir okkur lá klukkutíma suðurflug og þegar gengið var til vélar vildi EH fá
að taka "sögulegar" myndir. Núorðið fljúgum við afar sjaldan innanlands og þar
sem Flugfélag Íslands hefur ákveðið að skipta Fokker vélunum út fyrir aðra
tegund var eins víst að þetta væri okkar síðasta flugferð með Fokker. Okkur
leið dálítið eins og við værum að kveðja gamlan vin í síðasta sinn, svo oft
flugum við með þessum fjalltraustu vélum milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, meðan
við bjuggum þar.
Flugið var átakalaust en á leiðinni var að mestu skýjað
og sást lítt niður. Þó rofaði dálítið til öðru hverju yfir uppsveitum
sunnanlands og Þingvallavatni. Í
aðfluginu að Rvk- flugvelli sýndust okkur blautar götur borgarinnar. Eftir að
hafa heimt töskur og fengið okkur kaffibolla röltum við til bíls sem við áttum á
stæði við völlinn. Þegar við ókum út í
borgarumferðina skall yfir þvílíkur rigningar - brotsjór að við sáum okkar
óvænna og tókum strax strikið út úr bænum aftur, lengra til vesturs þar sem sýndist
bjartara. Við slógum ekki af fyrr en á sundlaugarbakkanum í Sandgerði þar sem
Vopnafjarðarsólin skein glatt. Eftir sund þáðum við kaffi hjá Ísfirðingi og
Vopnfirðingi sem búa saman í Sandgerði. Það var farið að nálgast kvöldmat þegar
við ákváðum að slá botninn í helgina, kvöddum og ókum heimleiðis.
Það rigndi enn í Reykjavík...........