Það var áður
komið fram að ég lagðist í flakk norður í land á dögunum, en ferðasagan var enn
óskráð. Því skal úr bætt.
Forsagan er sú að ég átti tveggja vikna frí og hafði fyrir löngu ætlað að verja því á ákveðinn hátt. Allur undirbúningur hafði miðast við að draga Stakkanesið vestur á Ísafjörð og eyða viku til tíu dögum norður í Jökulfjörðum. Mér fannst ég ekki hafa farið nóg um það svæði þegar ég flutti suður og hafði ákveðið að gera nú eina góða ferð þangað - svona að lokum. Ég var búinn að undirbúa þetta og skipuleggja sem best ég mátti og hlakkaði mjög til.
Svo brast á þetta dæmalausa "sumar" sem búið er að vera á vestan- og norðanverðu landinu og það var sýnt að í Jökulfjörðum yrði lítið gaman að ganga um, samanborið við það sem best gerist. Þegar fríið mitt hófst, þann fjórða júlí voru firðirnir enn að koma undan snjó enda vart hægt að tala um neina leysingu sökum kulda. Ég átti svo sem að vita betur en að taka frí svona snemma en á öðru var ekki völ, því miður. Þegar ekki horfði til neinnar breytingar á tíðarfari kringum 20. júní var ekki um annað að velja en slá þessa fyrirhuguðu ferð af þetta árið.
Varaáætlun fól í sér nokkurra daga ferðalag norður á Strandir, allt til Ófeigsfjarðar. Ég ætlaði að grípa einhverja góða daga af þessum fjórtán frídögum og reyna að gera virkilega fína ferð. Þegar fríið hófst átti ég nokkur verkefni hér heima óunnin og gekk í þau. Þannig fuku fjórir fyrstu dagarnir og það stóðst á endum að þegar ég gat lagt af stað var hann genginn í norðaustan kaldaskít á Ströndum. Þar er lítið gaman að vera í slíku tíðarfari og þegar gengið var á seinni frívikuna án þess að veður þar nyrðra lagaðist varð að grípa til annarra úrræða.
Mér fannst tvennt koma til greina: Annarsvegar að ferðast með suðurströndinni nokkra daga allt austur á Hornafjörð og svo sömu leið til baka. Á þeim slóðum var þokkalegt veður. Hinn möguleikinn var að setja undir sig hausinn, klæðast lopapeysunni, túra Norðurlandið til Akureyrar og aka svo stystu leið til baka. Mér fannst einhvern veginn að Hornafjarðarferð gæti ég tekið á langri helgi í vinnunni, Norðurlandsferð yrði tímafrekari svo það var ákveðið að ráðast í hana. Brottfarardagur skyldi vera miðvikudagurinn 15. júlí.
Á sama tíma hafði nýstúdínan Bergrós Halla ákveðið að bjóða kærastanum í óvissuferð á Snæfellsnesið. Hún leitaði fanga hjá föður sínum varðandi ferðaáætlun og áhugaverða staði. Hafði erindi sem erfiði en ferðaplanið var þannig uppsett að ekki var bjóðandi bílkrílinu sem hún hefur til umráða. Því var ákveðið að hún fengi Grand-Vitara lánaðan til farar. Sá bíll telst raunar vinnubíllinn minn og "holningin" á honum var í stíl við það. Þriðjudagskvöld og sólríkur miðvikudagsmorgunn fóru í að gera bílinn boðlegan ungu fólki í ævintýraleit og það var liðið að hádegi þegar þau lögðu af stað. Þá var sjúkrabíllinn næstur og þegar hann var ferðaklár og rennt var út úr bænum sýndi klukkan 13:20. Við vorum þrjú í för, þau Edilon Bassi og Elín Huld áttu hvort sinn stað um borð. Fyrsta stoppið var lögáning í Geirabakaríi í Borgarnesi og Reykjavíkursólin skein þar enn í dansi við andskotans gjóluna sem alltaf virðist blása í Borgarnesi!
Það var sæmilega bjart fram Norðurárdalinn en þoka og regnúði á Holtavörðuheiðinni. Svo neðarlega lá þykknið í Hrútafirðinum að útvarpsloftnetið skar rönd í grámann. Sjálfur fjörðurinn hafði kunnuglegt, hvítt yfirbragð. Það var semsagt skítaveður í Hrútafirðinum. Það hvarflaði ekki að okkur að stoppa.
Loftnetsröndin í þokuþykkninu lá allt til Blönduóss. Þar höfðu máttarvöldin ákveðið að gera hlé og Reykjavíkursólin skein á okkur við ÓB- dæluna. Bassi fékk göngutúr um gamla þorpið og við í staðinn bíltúr um það yngra. Frá Blönduósi var ekið út með Húnafirði áleiðis að Þverárfjallsvegamótum og beygt þar inn á. Á fjallinu var blindþoka og skyggnið nær ekkert á köflum. Einu bílarnir sem þar gátu ekið á fullri ferð voru nýir Range-Roverar. Það er aðdáunarvert hversu miklum hraða slíkir bílar geta ekið á við verstu aðstæður, s.s. nýlagða klæðningu, aurbleytu, hálku eða svona blindþoku.
Svo lækkuðum við flugið niður af Þverárfjalli og komumst undir þokuna. Meðfram bakhlið Tindastóls var þokkalega bjart en þegar við komum til Sauðárkróks var þar glampandi sól! Almættið hafði rofið gat á þekjuna svo sólin, sem fylgt hafði okkur að sunnan, gæti skinið hvar sem við færum út úr bíl. Við gerðum Sauðkrækingum (og öðrum ferðamönnum) þann greiða að setja bílinn niður á tjaldsvæðinu.
Á Sauðárkróki er matsölustaður sem heitir því skrýtna nafni "Hard Wok Café" og á eflaust að vísa til annars sem til var hér syðra á árum áður og hét svipað. Þangað stefndum við til "gala" kvöldverðar. Ég fékk mér dýrindis flatböku að hætti hússins en EH pantaði "hammara" og hafði eftirá á honum ákveðna skoðun sem ég birti ekki, en endurtek aðeins að flatbakan var dýrindis og stend við það. Eftir kvöldmat heimsóttum við fyrrum vinnufélaga og frú, sem búsett eru í mynni Hjaltadals. Þar eyddum við bróðurparti kvöldsins en síðasta hluta þess í að koma okkur fyrir á tjaldsvæðinu og í gönguferð um bæinn. Það var dálítið merkilegt að þótt áliðið væri kvölds var fólk á þónokkrum stöðum að vinna í görðum eða álíka utanhússvinnu. Mögulega lá skýringin í veðrinu, sem þrátt fyrir loftkulda var ákaflega gott - lágskýjað og ýmist hægar golustrokur eða stafalogn. Það vakti líka talsverða athygli að hvar sem við gengum leit fólk upp frá verki og bauð gott kvöld með brosi. Það gerist alls ekki allsstaðar en kannski eru Íslendingar glaðlyndari frá vestri til austurs....hver veit?
Svo lagðist nóttin yfir og lá allt til morguns - eða þannig. Fimmtudagurinn lofaði góðu þó þokan héngi enn í miðjum Skagafjarðarfjöllunum og lofthitinn léti á sér standa. Það virtist bjartara út til sjávar og þangað lá leið okkar þennan morguninn. Þ.e. ekki á sjó heldur út með sjó.
Eftir heimsókn í eitt besta bakarí heims ókum við út úr bænum norðantil, út Reykjaströnd í átt að Grettislaug. Fyrir tíu eða ellefu árum var ég á ferðinni þarna, einn á húsbílnum sem þá var. Sú ferð var farin til að skoða rústir Evanger-verksmiðjunnar í Siglufirði og var skrifuð í smáatriðum á sínum tíma. Frásögnin var ein þeirra sem hurfu af netinu þegar 365Miðlar lokuðu tveimur bloggkerfum fyrir skömmu og er ekki aðgengileg lengur. Grunnurinn mun þó vera til -HÉR- (merktur "Frá 28.08.´06"). Í þeirri ferð reyndi ég að skoða Grettislaug en varð frá að hverfa vegna veghliðs sem lokaði veginum. Síðar frétti ég að ferðafólki hefði verið ætlað að opna hliðið og loka því aftur en um það voru engin skilti og lokað hlið þýðir í mínum augum lokað hlið. Þess vegna sneri ég frá. Nú skyldi reyna aftur og nú voru engin hlið! Svo var ég líka með Elínu Huld, sem aldrei tekur nei fyrir svar og lætur engin hlið stoppa sig.......
Það var svo þessi sama Elín Huld sem galaði upp yfir sig þegar við ókum um utanverða ströndina. Neðan vegar, utan míns sjónmáls lá nefnilega "kind með allar lappir upp" eins og það var orðað í galinu. Hún hefur áður komið auga á afvelta kind í Leirársveit syðra og sent mig út í móa til að snúa við. Þetta er að verða nokkuð algengt á okkar ferðum því fyrir nokkrum árum sneri ég einni tvílembu rétt utan vegar á Steingrímsfjarðarheiði. Þessi skagfirska, sem EH sá í svip var einnig tvílembd og lömbin stóðu hjá. Kindin virtist búin að liggja lengi, ef marka mátti fótaburðinn þegar ég hafði snúið henni. Hún var mjög vönkuð og tók drjúga stund að fá hana til að hreyfa sig. Loks hökti hún meðfram girðingu góðan spöl og var þar með útskrifuð af gjörgæslu og treyst til eigin endurhæfingar.
Það birti heldur í lofti er utar dró og úti við Reyki var sólskin og hægur vindur. Það var slæðingur af ferðafólki við Grettislaug, nokkrar "gistieiningar" voru á afmörkuðu tjaldsvæði ( "gistieining" er nýyrði í ferðamáli og þýðir, skv. gjaldskrá sumra tjaldsvæða "tjald, tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi eða húsbíll") og nokkrir bílar á bílastæði við þjónustuhús. Svæðið var hreinlegt og snyrtilegt og lagt hefur verið í talsverðar framkvæmdir, bæði við aðstöðu ferðamanna og hafnaraðstöðu fyrir Drangeyjarferju sem gengur frá staðnum. Við tókum til sundföt, greiddum gjaldið og lögðumst í bleyti.
Eftir um hálftíma laugarlegu var komið að brottför. Við yfirgáfum Grettis - og Jarlslaugar fullviss um að okkar heimsóknir yrðu fleiri. Á bakaleiðinni stöldruðum við við hjá gimbu sem enn virtist talsvert vönkuð. Við létum hana afskiptalausa og ókum áfram inn strönd til Sauðárkróks. Í K.S. fengum við snarl í síðbúinn hádegismat og nesti en héldum svo af stað áleiðis út með Skagafirði austanverðum, út Fljót og að Sólgörðum.
Þar er heimavistarskóli og sundlaug, ein þeirra lauga sem ekki höfðu fengið sitt merki í kortabókinni gömlu og góðu. Laugin opnaði kl. 16 og við vorum á þröskuldinum tíu mínútur yfir. Þetta er fínasta laug, ágæt búningsaðstaða og góður pottur. Laugin sjálf var svo volg að hún var eiginlega nær því að vera pottur sjálf. Laugargestir voru aðeins fimm til sex í upphafi en var að fjölga nokkuð þegar við hurfum á braut til næsta áfangastaðar - Siglufjarðar.
Í Strákagöngunum lentum við í atviki sem benti til að sumir ferðamenn ættu í alvarlegum vandræðum með að hugsa rökrétt. Eins og þeir vita sem til þekkja eru Strákagöngin einbreið með útskotum sjávarmegin. Um miðju gangnanna sáum við ljósagang framundan og að eitthvað var greinilega ekki eins og það átti að vera. Þegar við nálguðumst sáum við að í göngunum var heil sveit "gistieininga" á leið frá bænum og meðalstór fólksbíll var að reyna að mæta lestinni. Það gekk eðlilega mjög illa þar sem útskotin eru lítil og rúma vart meira en tvo fólksbíla. Við sáum í hendi okkar að útilokað væri fyrir okkur að mæta hersingunni, bökkuðum í myrkrinu heila lengd milli útskota og komum okkur fyrir inni í því næsta - öfugu megin á veginum. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að vera ekki með neitt hangandi aftan í sjúkrabílnum en raunar hjálpuðu ljósin frá "gistieiningunum" nokkuð til , svo og ljós frá bíl sem kom aftan að okkur inn í göngin en sá sitt óvænna og flúði strax í útskot! Þegar lestin loks rann hjá minnir mig að ég hafi talið þrjá bíla með hjólhýsi og einn húsbíl. Allt gekk það slysalaust en eftir situr spurningin: Hvað er fólk að hugsa sem leggur af stað í lest inn í einbreið göng með útskotin sín megin? Utan við gangnamunnana eru skilti sem gefa þetta til kynna með örvum, muni ég rétt. Það hlýtur hver hugsandi ökumaður að sjá í hendi sér að það er útilokað að koma fjórum svona "gistieiningum" í útskot í einu og því eðlilegt að slíta svona lest dálítið í sundur svo hver geti notað eitt útskot ef þarf. Ég geng út frá því að allir fjórir hafi verið í samfloti, eða einhver hluti þeirra því það er útilokað að þeir hafi farið svo strjált inn í göngin að einn hafi ekki séð annan fara inn. Það hefði ekki þurft nema svona þrjár mínútur milli vagna svo allt hefði gengið eins og smurt. En það þurfti auðvitað smá hugsun líka..........
Á Sigló var verið að setja upp snjóflóðavarnir hátt í hlíðinni ofan byggðarinnar og þyrla var í stöðugum ferðum milli flugvallarins og hlíðarinnar. Uppi undir klettum glitti í óranslitan mannskap sem tók við grindunum og festi þær. Við lögðum bílnum á stæði og "tókum til fótanna". Okkur fannst nýja hótelið glæsilegt en urðum vör við að ekki voru allir heimamenn sammála. Þá það. Húsið er lágreist og látlaust, málað í látlausum lit og æpir ekki á nokkurn hátt upp yfir sig þrátt fyrir stærð og staðsetningu. Bæjarprýði í þegar mjög fallegum bæ, fannst okkur.
Það var búið að skella Síldarminjasafninu í lás enda klukkan langt gengin í sex og reyndar komið að því að fá sér í gogginn. Við settumst inn á Rauðku og pöntuðum ágætan mat í rólegheita umhverfi. Á eftir var ágætt að setjast niður í góðum félagsskap og melta málin örlítið.....
Eftir matinn var svo ekið dálítið um efri götur bæjarins en stefnan loks tekin fram Skútudal og inn í Héðinsfjarðargöngin. Þar var ekkert draghýsahavarí enda tvöföld göng, og í Ólafsfirði vorum við nokkrum mínútum síðar. Þar var ætlunin að heimsækja Lóló frænku á Hornbrekkuveginum en enginn svaraði. Við athuguðum tjaldsvæðið - sem skv. merkingum var í lagfæringu og því aðeins opið að hluta - en flugnasveimir og afar vond lykt í loftinu beindu okkur frekar til Dalvíkur. Lyktin var svona sambland af hausaþurrkunarlykt, rauðmagareykingu og brennandi sorphaugum (en þá lykt þekki ég flestum betur sem fyrrverandi sorphaugabrennuvargur frá Ísafirði!) Þess vegna var sjúkrabílnum ekið í skyndi frá Ólafsfirði, svo hratt sem í útkalli væri (nújæja.....) og ekki skrúfað fyrir gasið fyrr en við Hól við Dalvík. Þar var mun betri lykt, og eftir að hafa gengið frá bílnum á þunnt setnu tjaldsvæðinu var peysuvæðst og gengið í bæinn. Það er alltaf gaman að koma til Dalvíkur, bærinn er snyrtilegur og húsum vel við haldið. Svo kom á óvart að hitta á götu gamlan kunningja (sem að vísu er nær landsþekktur að endemum) og spjalla við hann stutta stund. Spjallið var raunar nær eintal - okkar hlutverk var að hlusta á frægðarsögur af viðskiptum ýmisskonar - við konur og með lausafé. Nóg um það, eins og maðurinn sagði. Við bryggju vaggaði þetta systurskip Stakkanessins og tvö önnur lágu nærri, annað rautt og hitt gult.
Hann stóð inni í garði, þessi en virtist vel haldinn að öllu leyti og tilbúinn í allt:
Þokan var á hægri leið niður hlíðarnar og kvöldið leið hratt. Það hillti undir háttatíma og þar sem áætlun morgundagsins - föstudags - var stíf, gengum við til náða.
Það var svalt um nóttina í sjúkrabílnum enda lítið kynt og hitamælirinn gaf til kynna 3,4 gráður um nóttina. Það voru þó allavega plúsgráður! Edilon Bassi hafði fundið fyrir gólfkulda þrátt fyrir góða mottu og vildi hvergi annarsstaðar vera en til fóta!
Morguninn heilsaði með sól gegnum skýjarof, fallegur morgunn í upphafi frábærs dags. Við áttum tjaldsvæðið ógreitt, gengum því upp í sundlaug og gerðum upp. Á kvöldgöngunni höfðum við tekið eftir nýju kaffihúsi í gamla bíóinu, kenndu við Bakkabræður. Þangað stefndum við í morgunkaffi.
Kaffihús Bakkabræðra reyndist einstakur staður, allur skreyttur myndum og dóti í anda þeirra bræðra.
Í bakherbergi stóð svo forseti vor og sveitungi minn, og studdi hendi á stól. Hann var raunar hálftrénaður karlinn en flottur samt eins og flestir Ísfirðingar!
( Ég bið afsökunar á myndunum, þær eru teknar á lélegan síma og þetta einstaka kaffihús verðskuldar miklu betri myndir)
Frá Kaffihúsi Bakkabræðra var stefnan sett á Friðland fuglanna að Húsabakka í Svarfaðardal. Þar hefur verið sett upp skemmtilegt fyrirbæri sem í senn er sýning, safn og fræðslusetur. Að Húsabakka vorum við komin rétt um hádegisbil og höfum líklega verið langt á annan tíma að skoða okkur um þar, enda margt að skoða fyrir fuglaáhugafólk.
(Framan á þessum litla kassa stóð "Furðufugl". Þegar hann var opnaður horfði maður beint í lítinn spegil!)
Síðan var strikið sett á Akureyri. Einhvers staðar á leiðinni rúllaði kílómetrateljari sjúkrabílsins í skemmtilega tölu, og af því ég er sérstakur áhugamaður um skemmtilegar tölur á teljurum var stöðvað og tekin mynd:
Inn Eyjafjörðinn var sólskin en þykkir bakkar héngu í hlíðunum beggja vegna. Fyrsti áfangastaður okkar var menningarhúsið Hof, þar sem yfir stóð myndlistarsýning Þorra Hringssonar. Þorri tengist okkur EH fjölskylduböndum, góður drengur og snillingur með pensilinn. Við skoðuðum sýninguna og fengum okkur kaffi í teríunni.
Eftir sýningu og kaffi skildu leiðir - EH tók hund og taum og gekk í bæinn en ég ók inn bæinn að Flugsafninu. Þar var fámennt innandyra og gott næði til að skoða.
Að skoðun lokinni var aftur ekið til bæjar og hringt í Elínu Huld. Hún var á gangi með Bassa nærri miðbænum og þar hittumst við aftur. Á Akureyri stóðu yfir Hjóladagar, viðburður mótorhjólamanna og EH hafði þá þegar hitt vestmanneyska vélstjórann, skipa - og skipsflakaáhugamanninn og mótorhjólamanninn sem sigldi með mér á dögunum við Stykkishólm (og skrifað hefur verið um hér neðar). Ekki hitti ég hann þó sjálfur enda mikið um að vera og hver upptekinn við sitt.
Við áttum heimboð í kvöldmat hjá frænda EH, Ólafi Sveinssyni myndlistar- og mótorhjólamanni. Það leið óðum að kvöldmat og við bönkuðum uppá hjá Óla. Hann var á kafi í matargerð en betri helmingurinn, Aðalbjörg Jónsdóttir dýralæknir var á þeysingi úti í sveit. Hún birtist þó síðar og hjá þeim áttum við góða stund. Síðla kvölds, þegar komið var að því að setja sig niður fyrir nóttina, fluttum við sjúkrabílinn inn á tjaldsvæðið við Þórunnarstræti. Þaðan gengum við enn í bæinn með Bassa og fengum okkur ís undir nóttina! Enn hélst þurrt en himinninn var kolgrár og virtist allra veðra von..
Hann fór niður í rúmar fimm um nóttina og það var eiginlega engin leið að skreiðast á fætur fyrr en búið var að kynda sjúkrabílinn hressilega upp með gasinu. Morgunsólin hjálpaði svo til við að ná hitanum upp hið ytra. Í stað hefbundins morgunmatar var svo haldið í morgunkaffi í bakaríinu við lækinn - þessu sem stendur rétt ofan við Rúmfó verslanakjarnann. Þaðan lá leiðin að Mótorhjólasafni Íslands. Þar var furðulega fámennt miðað við helgarviðburðinn en skýringin reyndist vera sú að allir mótorhjólamenn voru staddir við keppnisbrautina uppi í hlíð þar sem fram fór dagskrá Hjóladaga. Við EH áttum því safnið útaf fyrir okkur. Það var bæði gott og slæmt, við höfðum allt heimsins næði til að skoða en vantaði sárlega leiðsögn fróðari manna eins og Tryggva Sig. og Óla, sem báðir voru eðlilega uppteknir. Safnið sjálft er bæði stórskemmtilegt og ákaflega fróðlegt. Forsaga safnsins - tilurð þess og bygging - tengist raunar sorglegum atburði og er sérstök deild safnsins lagður undir hlut þess manns sem kalla má "kveikjarann" að því. Sjá HÉR og HÉR
Þetta fagurgræna Kawasaki hjól er ísfirskt - þ.e. eigandinn er ísfirskur, búsettur á Ísafirði en geymir hjólið á safninu:
Næstu tvær myndir eru úr "Kvennadeildinni" sem er raunar sérsýning um konur og mótorhjól. Þetta konunglega vinstra megin er þó ekki með sjáanlegan mótor en þó allavega hjól:
Svo var þarna líka Harley Davidson fyrir smærri ( yngri) konur
Þetta Henderson hjól er eiginlega frekar nýsmíði en uppgert, svo marga hluti þurfti smiðurinn að endurgera. Hjólinu fylgir ýtarleg saga sem er aðeins að litlu leyti sögð HÉR
Þetta Harley Davidson hjól er Ólafur Sveinsson myndlistarmaður (og frændi hennar EH) að gera upp í rólegheitum enda gerast góðir hlutir hægt:
Tvær þær næstu ylja eflaust einhverjum fyrrum skellinöðrueiganda um hjartarætur:
Þetta er hins vegar fyrir lengra komna:
Svo var það sérstök deild Heiðars heitins Jóhannssonar:
Ég veit um a.m.k. einn mann, togaraskipstjóra, sem þekkir sandorpna hjólið hér að neðan. Ekki þó þetta sérstaka hjól heldur tegundina, frá því hann bjó á Kirkjubóli í Skutulsfirði og þurfti hjól til að komast í bæinn. Þetta er RIGA, rússneskt undratæki, aðallega undravert fyrir það hversu stuttur líftíminn var. Ég vil leyfa mér að segja að þetta hafi verið einhver lélegustu hjól allra tíma! Þessi lifði það þó að komast til Kollsvíkur vestra, dó þar og var grafin í sand en vindurinn afhjúpaði hana svo aftur mörgum árum síðar. Ólafur Sveinsson á tengingar vestur og kom hjólinu í þetta form á Mótorhjólasafninu ásamt nemendum sínum í myndlist. Sandurinn er úr Kollsvík, svo og litlu myndirnar.........
Frá Mótorhjólasafni Íslands héldum við að Hrafnagili og lögðumst í bleyti í fínni sundlaug. Á nærliggjandi tjaldsvæði var talsverður fjöldi "gistieininga" en í sundlauginni mátti telja gesti á annarri hendi. Alveg stórskrýtið! Fínasta veður og frídagur að auki og varla hræða í sundi! Kannski voru bara allir úti í bæjarlauginni?
Dagurinn nálgaðist miðju og frá Hrafnagili héldum við inn Eyjafjarðarsveit allt til Smámunasafns Sverris Hermannssonar. Þangað var gaman að koma og skoða hreint ótrúlegt safn allskonar gripa. Þótt öllu ægi saman að því er virðist er samt "system i galskabet" og það tók eina tvo tíma að skoða safnið enda til enda. Raunar er hægt að vera miklu lengur en þetta var fjórða safnið á rúmum sólarhring og við vorum aðeins að þreytast.......
Klukkan var rétt að verða fimm þegar við renndum til baka út sveit. Okkur langaði að skoða kirkjuna að Grund en þar var að hefjast einhvers konar athöfn svo við létum nægja í þetta sinn að mynda hana að utan:
Þegar ég skoðaði mótorhjólasafnið fyrr um daginn tók ég eftir svörtum T- bolum sem seldir voru til styrktar safninu og merktir því. Mig langaði í svona bol af ástæðum sem fljótlega verða raktar en kom mér einhvernveginn ekki að því að kaupa hann. Nú, á leiðinni innan úr sveit var ég harðákveðinn og renndi við á safninu - en greip í tómt. Klukkan var nákvæmlega fimm og búið að loka þann daginn! Bollaus héldum við því áfram út bæ og í þetta sinn út að smábátahöfninni, þar sem EH tók sitt daglega labb með Bassann meðan ég leit á trillurnar og tankaði sjúkrabílinn á Olís. Við hittumst svo að nýju skömmu síðar og ókum upp að Bónus þar sem ferðanesti var keypt. Klukkan var nákvæmlega átján núll ein á laugardagssíðdegi þegar við kvöddum Akureyri, stilltum krúsið á áttatíuog átta og hölluðum okkur aftur í sætunum - heimflugið var hafið. Við fundum til þess í Bakkaselsbrekkunni að það dró ekki niður í sjúkrabílnum - hann hélt sínum áttatíuogátta án þess að skipta niður og stóra dísiláttan virtist engan veginn gera sér grein fyrir þvi að hún var á leið upp langa og bratta brekku. Hann hefði reyndar allt eins getað verið á hundraðáttatíuogátta - en þá hefði ekki verið sagt frá því hér!
Skýjarofið, sem hafði fylgt okkur allt ferðalagið og skammtað sól yfir fólk, hund og bíl hélst að mestu á leiðinni vestur eftir Norðurlandinu. Ferðaáætlun okkar var einföld - við ætluðum að aka eins langt vestur eftir og við nenntum og nátta á hentugum stað. Aka síðan í Hólminn á sunnudeginum og taka Stakkanesið á land. Eftir því sem vestar dró virtist bjartara í lofti og við sóttum í blíðviðrið. Við vorum á Blöndósi á hentugum kvöldmatartíma en jafnframt södd af ferðanestinu úr Bónus og slepptum stoppi. Staðarskáli var næsta val en við slepptum honum líka og ókum beint út með Hrútafirði, yfir Laxárdalsheiði og beygðum upp í Búðardal. Þangað komum við um hálftíu og þá var búið að loka grillinu! Kvöldmaturinn varð því pylsur og appelsín. Stoppið var stutt, kannski korter og von bráðar vorum við aftur á ferð suður úr og frá Haukadalsmynninu út Skógarströnd. Þegar malbikinu sleppti tók við grófur og leiðinlegur malarvegur sem talsvert dró úr ferðahraðanum. Við vorum á sirka sjötíu úteftir og ferðin var tíðindalaus utan hvað okkur varð starsýnt á gífurlegan fjölda álfta sem samankominn var á litlu svæði innarlega í Álftafirði - nema hvað?
Til Stykkishólms komum við rétt um kl. 23, eftir slétta fimm tíma frá Akureyri og þrjúhundruðhesta dísiláttan hafði rétt nartað í olíubirgðirnar frá Olís á Akureyri. Ég giskaði á rúma fjórtán á hundraðið.....
Sunnudagsmorguninn heilsaði upp á "stykkishólmskan" máta með hefðbundnum norðaustanstrekkingi. Ég fór um borð í Stakkanesið og lagðist í dálitla rannsóknarvinnu aftur í skut. Frá ástæðum og niðurstöðu verður greint síðar. Leysti svo landfestar og sigldi um hálfútfallið Landeyjarsund inn að Skipavík þar sem EH beið með sjúkrabílinn. Framhaldið var hefðbundið, vagninum rennt út, Stakkanesinu rennt í vagninn og svo dró EH allt saman upp á land. Við gengum frá bát og vagni í stæði og litum svo inn hjá vinafólkinu sem alltaf er heimsótt í Hólminum. Það var komið vel fram yfir hádegi þegar við lögðum af stað suður og tveimur tímum síðar var stöðvað framan við Höfðaborg.
Við höfðum lokið ferðalagi sem hefði viðburðanna vegna getað verið tíu dagar en stóð þó aðeins fjóra sólarhringa. Það bjargaði þó því sem bjargað varð af tveggja vikna sumarfríi þegar allar fyrri áætlanir höfðu hrunið í rúst vegna veðurfarsins.
Okkur grunaði eiginlega ekki hversu skammt yrði stórra högga á milli. Meira um það eftir nokkra daga.
...........................................................................