...........og ég
er enn einu sinni að leggja af stað í Hólminn. Í þetta sinn á
ferðadrekanum/Færeyjafaranum. Það gæti þýtt að nú sé sumarið loksins komið.....
Uppfært á sunnudagskvöldi: Nei, sumarið er ekki komið - a.m.k. ekki í Hólminum. Laugardagurinn var svo nístingskaldur að ég gafst upp á að horfa á útihátíðahöldin, skreið inn í ferðadrekann og dró uppfyrir haus. Svaf í tvo tíma á miðju hafnarsvæðinu meðan heimamenn skemmtu sér í bland við þéttdúðaða útlendinga. Það blés fullmikið fyrir skemmtisiglingu auk þess sem kuldinn drap allan áhuga. Eyddi síðdeginu og kvöldinu á dóli út með nesi, allt til Hellissands. Kvöldmaturinn var einhver besta pitsa sem ég hef fengið lengi, í Shellskálanum í Ólafsvík. Sunnudagurinn - þ.e. dagurinn í dag - var heldur hlýrri en í staðinn buðust rigningarskúrir og vindbelgingur. Yfir Hvammsfirðinum lá þokusúldarbakki svo Stakkanesið var ekki hreyft í dag heldur. Við yfirgáfum Hólminn uppúr hádegi og renndum í Borgarnes þar sem sundlaugin var heimsótt. Ekki var það nefnt í miðasölunni að tveir pottanna væru úr leik vegna viðhalds. Afleiðingarnar voru pottseta í þeim tveggja "eftirlifandi" potta sem lífvænlegt var í vegna hita og tilfinningin sem fylgir því að sitja fastur í örtröð! Í ofanálag var hluti sturtanna bilaður. Þessi frábæri sundstaður í Borgarnesi má muna sinn fífil fegurri því þótt allir hlutir þurfi viðhald er ómögulegt að koma auga á hvers vegna farið er í slíkt viðhald þegar háannatími fer í hönd.
Næstu helgi, 12.-14.júní verður þrátt fyrir allt eytt í Hólminum að meira eða minna leyti því þá er ætlunin að taka Stakkanesið á land. Svo ráða aðstæðurnar því hvort um leið verður vetrarbúið að nýju, ef ekki horfir til verulegra breytinga er allt útlit fyrir að svo verði. Stakkanesið er nefnilega skemmtibátur en ekki ísbrjótur......