......nánar
tiltekið þann fimmta fimmta tvöþúsund og fimm, var þetta skrifað:
Loksins,loksins!
Þá er
Ísfirðingurinn kominn í hlaðið. Svei mér þá, ég er ekki frá því að hann hafi
boðið mig velkominn þegar ég kom að sækja hann í gærkvöldi. Allavega fannst mér
það. Það liggja nefnilega alveg sérstakir þræðir milli okkar. Hann er mitt
hugarfóstur, hönnun og handverk, allt í senn. Hann kostaði mig andvökur,
endalausar vangaveltur, áhyggjur af einföldustu úrlausnum og talsvert af aurum.
Og samt er hann aðeins gamlingi sem lifað hefur tímana tvenna og er nú líklega
á sínu síðasta skeiði. Það fylgir því sérstök tilfinning þegar ég loka hann
inni að hausti, vitandi að við sjáumst ekki svo mánuðum skiptir og ég get
aðeins treyst á að veðurguðirnir fari vel með þetta óupphitaða gamla refabú austanfjalls, sem
geymir ævintýri liðinna sumra, innbundin í stál og við.
Það er ennfremur
sérstök tilfinning að sækja hann að vori. Labba hringinn, athuga dekkin,
rafgeymana, klæðninguna. Setja síðan í gang, aka út um dyrnar og finna
öldunginn vakna og lifna. Ég er viss um að sé það rétt að gamlir bílar hafi
sál, þá hlakkar hann jafnmikið og ég til komandi sumars. Veit enda sem er, að
hann fær sína andlitslyftingu, málað í bletti, lagfæringar hér og þar, þvott og
sápu. Fær að sjá nýja staði, hvíla sig á nýjum tjaldsvæðum, aka nýja vegi. Veit
líka upp á hár hvernig verður ekið, hvaða brekka er farin í hvaða gír, á hvaða
hraða er ekið upp eða niður. Veit hvaða dynti hann má leyfa sér, stökkin út til
vinstri á rússibönum í malbikinu, framendalyftingarnar á mishæðum, 30 gráðu
hallann í rokhviðum. Hann veit þetta vegna þess að það ekur honum enginn annar
en ég. Aldrei. Aðrir ökumenn myndu ekki skilja hann og hann tæki aldrei annan
ökumann í sátt. Hann þekkir þetta allt, kann þetta allt. Ég veit hvað hann
getur og getur ekki. Hann tók klukkutíma í Hellisheiði eystri. Hálftíma upp og
hálftíma niður. Þannig er það bara. Hann er ekki eldsnöggur milli staða, en
reynslan hefur sýnt okkur að það skiptir heldur engu máli.
Og nú er
hann semsagt kominn heim aftur og bíður úti í innkeyrslu eftir sínum þvotti og
standsetningu. Skoðunardagurinn er á laugardaginn kemur. Hann verður örugglega
fyrstur að dyrunum. Fær væntanlega fulla skoðun. Annað væri bara sárt. Síðan
aftur heim í innkeyrslu í hvíld og íhugun. Þar mun hann standa næstu viku og
horfa til norðurs, til Esjunnar ,Akrafjalls og Skarðsheiðar. Í norður, þangað
sem fyrstu ferð er heitið um hvítasunnuna. Fyrsta ferðin í fyrra var farin til
Akureyrar. Fyrsta ferð þessa árs verður einnig þangað.
...........og
tveimur dögum síðar, þann sjöunda fimmta, eða nákvæmlega fyrir tíu árum, hef ég skrifað þetta:
Auðvitað!
Við vorum að
koma úr skoðun, við Ísfirðingarnir. Þ.e. sá stærri var skoðaður á árlegum
húsbíladegi hjá Aðalskoðun í Hafnarfirði. Sá minni labbaði milli bíla,
spjallaði og kíkti á hjá hinum. Við mættum rétt fyrir átta. Af gömlum vana var
sá minni hálfkvíðinn, sá stærri var hinsvegar hnarrreistur, vitandi það að hann
hafði vissa yfirburði á svæðinu. Hann hafði sálina fram yfir nýju, fallegu,
verksmiðjuframleiddu bílana. Hann hafði það fram yfir marga af gömlu bílunum
sem líka hafa sál, að hann var vel hirtur,hreinn og þrifalegur og í fullkomnu lagi. Síðan voru
þarna nokkrir jafningjar. Við finnum alltaf sterkstu straumana í þá átt - þar
sem handverkið er metið og virt enda umgengist sem slíkt. Hann rann gegnum
skoðunina. Allur kvíði eigandans var ástæðulaus.Enda meira krónískur frá
fátæktarárunum þegar maður ók um á druslum og eyddi svo og svo löngum tíma á
hverju ári við að berja þær gegnum skoðun. Vagninn fékk meira að segja þann
vitnisburð að vera "í fullkomnu lagi, óvenju góður af svo gömlum bíl"
Við gáfum okkur tíma á eftir til að drekka kaffi með þeim sem áttu eftur að
láta skoða. Nutum ánægjunnar yfir að vera búnir, og klárir í sumarslaginn.
Þegar við dóluðum heim á leið var geislaspilarinn þaninn til hins ýtrasta og
"Dísir vorsins" hljómuðu langt út fyrir bílinn. Þeir sem lentu við
hlið okkar á ljósum, litu við.......
Það var þá.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar og við eigum hvorki þennan gamla ferðabíl né
innkeyrsluna lengur. Bíllinn er enn til og á lögheimili á Egilsstöðum. Hann
hefur lifað mun lengur en ég bjóst við en yfirhalningin var líka gríðarleg og
ástandið gott á eftir. Það hefur því ekki gengið eftir sem ég skrifaði forðum, að
"hann tæki aldrei annan ökumann í sátt". Svona breytast hlutirnir
endalaust.....fátt er lengur eins og það var. Flest er betra, örfátt síðra en
annað er bara einfaldlega öðruvísi. Hversvegna ættu hlutir líka alltaf og
ævinlega að vera eins?
Mikið held
ég að það gæti leitt til leiðinlegs lífs.
Svo má vel bæta því við að sjúkrabíllinn fór Hellisheiði eystri á tuttuguogfimm mínútum - enda til enda. Skyldi það nú hafa verið skemmtilegra? Nei, hreint ekki. Þrjú hundruð hestöfl, ætluð til að koma sjúklingum hratt og örugglega undir læknishendur, en gera ekki rassgat í ferðalagi. Hvað er unnið við afl og hraða þegar maður er að skoða landið og njóta? Hvað ef allur tölvubúnaðurinn sem býr til þessi þrjú hundruð hestöfl hefði nú bilað á Hellisheiði eystri?
Þá ætti ég einfaldlega hvítan, rauðan og gulgrænan sumarbústað á Austfjörðum!
Skiljiði nú hvað ég er að meina með þessum gamla, afllitla Benz húsbíl sem bíður yfirhalningar hér utandyra?
Í Höfðaborg er sól, vindur og kalt. Fyrirtaks gluggaveður og það er gott að sinna inniverkum í svona veðri. Þess vegna ætla ég núna að standa upp frá tölvunni, leggja frá mér kaffibollann, ganga niður stigann og taka mér rafsuðu í hönd.......