Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


22.04.2015 08:29

Flotinn ósigrandi!



.Skipastóllinn var aukinn um helgina. Það hafði raunar staðið til talsverðan tíma og ferlið hófst eiginlega í fyrrahaust. Þannig var að ég þurfti þá að heimsækja verslun hér í bænum í þeim tilgangi að kaupa björgunarbát á nýja trillu sem er í smíðum hjá gömlum vini vestur á Ísafirði. Inni á gólfi verslunarinnar stóð nýr plastkajak með alls konar aukabúnaði fyrir dellukalla. Það þarf ekki mikið til að kveikja vangaveltur og þær sem komu fyrst upp í hugann þegar ég skoðaði bátinn voru gamlar minningar frá þeim tíma þegar ég var púki fyrir vestan og átti lítinn plastbát sem óspart var notaður í ævintýraferðir á Pollinum. Það var á þeim tíma sem Bæjarbryggjan stóð enn og einnig hluti af Edinborgarbryggjunni. Framan í Edinborgarbryggjunni hékk skreiðarknippi, orðið svo hart og þurrt að rota hefði mátt mann með hverjum fiski. Kannski átti þetta einhver, kannski var það gleymt, ég veit það ekki en það var sport hjá okkur púkunum að róa undir bryggjuna, skera okkur einn eða tvo fiska og láta svo reka úti á Polli meðan við murkuðum flísar úr skreiðinni með vasahníf og lögðum mat á lífið og tilveruna. Ef ég er sekur um fiskstuld þá er Halldór Þórólfs jafnsekur því hann var langoftast með í þessum túrum.....

Hvernig tengjast kajak og skreið? "Spurningin - ja, hún er mæt", eins og ofurölvi þingmaður í ræðustól komst eitt sinn að orði. Þannig var að Þráinn bróðir Eiríks Jóhanns átti forláta uppblásinn gúmmíkajak. Þráinn var einstöku sinnum úti að róa á kajaknum en Eríkur mun oftar - eða þannig minnist ég tímanna. Heimatökin voru enda hæg því þeir bjuggu á fjörukambinum. Mér fannst þessi uppblásni kajak algert snilldarverkfæri enda mátti róa honum mun hraðar en plastbalanum mínum. Ég sá enga leið til að eignast svona bát enda mun hann hafa verið keyptur erlendis. Svo leið tíminn og gúmmíkajakinn hvarf af pollinum og sömuleiðis litli plastbalinn minn, sem þó mun enn til vestra. Allar götur sína hef ég gotið auga að þessari bátagerð hvar sem hún hefur sést.

 Það var eiginlega ekki fyrr en með plastinu sem kajakar fóru að verða algengir, fyrsta gerð þeirra sem ég man eftir var úr striga á trégrind og var ekki á færi allra að smíða slíkan grip eða eignast. Þess vegna er þessi gamla mynd frá Pollinum svo skemmtileg:



Svo var semsagt farið að smíða kajaka úr plasti í ótal stærðum og gerðum á viðráðanlegu verði og í framhaldinu varð sú sprenging í sportinu sem menn þekkja. Það hefur verið gaman að fylgjast með kajakræðurum inn um Ísafjarðardjúp og hér syðra uppi á Kollafirði - að ógleymdum Breiðafirðinum sem er sannkölluð paradís kajakræðara. 

Ekki vil ég nú segja að allt þetta hafi farið gegnum kollinn þegar ég stóð og beið eftir björgunarbátnum hans Begga Ara í fyrrahaust. Upphafið er samt þar og allt framhaldið er því afleiðing. Í vor, þegar ég fór svo með björgunarbátinn af Stakkanesinu í yfirhalningu á sama stað var enn nýr kajak inni á gólfi og annar uppi á vegg. Þar var líkt og bensíni væri skvett á eld því ég sá í hendi mér hvar svona kajak kæmi mér best......

.....ef mér tækist að komast vestur í Jökulfirði í sumar með Stakkanesið væri svona kajak miku skemmtilegri léttabátur en litla plastfatið sem ég keypti fyrir nokkrum árum sem landbát. Fatið er svo sem ágætt til síns brúks en það er óhentugt til að róa því langar leiðir meðfram fjörunum í Jökulfjörðunum - auk þess sem það er ólíkt meira gaman að snúa fram þegar róið er í skoðunarferðum! 

Mér reyndist því mjög auðvelt að sannfæra sjálfan mig um algera nauðsyn þess að eignast svona kajak. Ég hafði samband við mann sem rekur kajakleigu á Suðurlandi og er öllum hnútum kunnugur í sambandi við hvaðeina sem að kajökum lýtur. Hjá honum fékk ég nýjan bát með ár, sæti og öðru sem nauðsynlegt má teljast.

Svo nú telur flotinn ósigrandi alls þrjú skip - þau voru tvö og hálft þegar Stakkanesið, litla plastfatið (sem vegna lögunar sinnar og ferjuhlutverks fékk nafnið Fagranes) og hálfur Bjartmar voru talin saman.  Svo var Bjartmar seldur og flotinn minnkaði en nú hefur semsagt bæst við "heilt" skip, sem lögunar sinnar vegna gæti allt eins heitið Langanes :













....og nú er bara beðið eftir hentugu veðri til að skreppa upp að Hafravatni og prófa þessa nýjustu viðbót við flotann ósigrandi!
.........................................................................................

Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135172
Samtals gestir: 27911
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:26:25


Tenglar