Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.04.2015 10:09

Laugardagur.....


......og löng helgi framundan. Það þýðir að vinnan kallar ekki fyrr en síðdegis á mánudag. Löng helgi er þannig sléttir þrír sólarhringar og þann tíma má nýta til ýmissa hluta ef vel er haldið á spöðunum. Það má t.d. líta á gamla Benz ferðabílinn sem keyptur var síðvetrar og bíður andlitslyftingar hér utandyra. Svo má renna austur á Stokkseyri og sækja nýja kajakinn sem ég var að kaupa mér.

Öll tilbreyting er vel þegin - bæði í og utan vinnu. Eitt slíkt tækifæri gafst í gær þegar við tveir vinnufélagar fórum í "útrás" og héldum upp á Grundartanga vopnaðir öllum helstu verktólum og öðrum aukreitis. Ég hef ekki haft fyrir sið að flytja sögur úr vinnunni en það má gera undantekningar þegar eitthvað skemmtilegt rekur á fjörurnar. Þannig var það einmitt í gær. Óskabarnið hafði fyrir nokkru lánað stóran gámalyftara upp á Grundartanga í stað annars sem bilaði þar. Lyftaranum var "snarað" um borð í skip í Sundahöfn og skutlað uppeftir. Þar var hann svo hífður í land. Nú var komið að því að skila honum suður og þá kom babb í bátinn. Lyftarinn er u.þ.b. sjötíu tonn og þrátt fyrir að skipið hafi getað lyft honum af lúgu og slakað niður á bryggjuna er bakaleiðin öllu meiri hífing og þá hífingu réð skipskraninn ekki við. Því þurfti að létta lyftarann og til þess var einfaldast að taka af honum "spreddann" (sem þó vegur "aðeins" átta tonn) og flytja hann landleiðina suður. Við fórum í þetta tveir Ísfirðingar saman og fengum hálfgám undir spreddann sendan á eftir okkur með bíl úr Reykjavík. 



Verkið gekk vonum framar og fljótlega upp úr hádegi var spreddinn laus:



Bíllinn sem flutt hafði hálfgáminn uppeftir beið eftir flutningnum suður aftur og klukkan hefur líklega ekki verið mikið yfir tvö þegar hann lagði af stað með farminn:



Þá var aðeins frágangur eftir við lyftarann sjálfan, sem var hálf vesældarlegur þegar búið var að reyta af honum helstu skrautfjöðrina:



Við vorum komnir suður vel fyrir vaktarlok og eftir verkfæraþrif og frágang var komið að helgarfríi hjá okkur, enda höfðum við unnið verkið án matarhlés. Fjörið hélt svo áfram um kvöldið þar sem starfsmannafélagið hélt keilukvöld í Egilshöll. Mikið lifandis ósköp og skelfing var svo gott að halla höfði á kodda í dagslok.

..................................................

Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135240
Samtals gestir: 27944
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:09:53


Tenglar