Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


02.04.2015 09:28

Skírdagur.


.Það tók lengri tíma en venjulega að aka í Hólminn í gær. Veðrið var alveg þokkalegt upp í Melasveit þrátt fyrir stöku hálkukafla. Í Melasveitinni var hins vegar talsverður lágrenningur svo dreif á köflum alveg yfir veginn. Undir Hafnarfjalli var hvasst en ekki til skaða, þó nóg til að hægja talsvert á umferð. Á Mýrunum var skárra veður framanaf en verulegir hálkukaflar. Þegar kom uppfyrir Eldborg fór aftur að drífa yfir veginn og í Miklaholtshreppnum var veðrið svo slæmt að aðeins sá til einnar stiku í einu - hvort eru það 25mtr. eða 50 mtr.? 

Rétt sunnan við Þúfubæi var bílalest á ferð vestureftir og fór hægt. Í útskotum stóðu litlir, fannbarðir bílaleigubílar, trúlega mannaðir forviða og hálfhræddum útlendingum sem gátu horft upp í heiðan himin móti sól en sáu ekki nema nokkrar bíllengdir eftir veginum. 

Þetta einnar-stiku-skyggni hélst langleiðina að Vegamótum en þar í kring var snöggtum skárra veður allt uppundir Dal. Þar tók aftur við snjódrif úr Skuggahlíð. Uppi á Vatnaleið hafði safnast talsverður snjór svo nam u.þ.b. hálfri vegbreidd. Bílalestin hafði grisjast nokkuð við Vegamót og samanstóð líklega af fjórum, fimm bílum á leið norður yfir Nes. Þeir sem komu suðuryfir áttu auðu akreinina og virtust engan veginn gera sér grein fyrir að vegurinn var aðeins hálfur því það horfði stundum til vandræða að mæta bílum sem héldu sinni stöðu og hröktu bílalestina út í snjóinn á eystri hluta vegarins. Allt fór þó vel. Niðri við vegamótin Stykkishólmur /Grundarfjörður stóðu tveir bílaleigubílar í útskoti og japanskir ferðamenn mynduðu sólina í vestri í gríð og erg. Sólina bar rétt yfir fjöllin enda áliðið dags. Hún líktist helst eldrauðum vígahnetti þar sem hún skein gegnum mistrið og kannski var ekkert skrýtið þótt Bakkabræður héldu á sínum tíma að þar færi herskip. 

Afgangurinn af leiðinni var greiðfær þrátt fyrir svellalög á köflum og ég var kominn í Hólminn tveimur tímum og tuttugu mínútum eftir brottför úr Höfðaborg. Brottför seinkaði  raunar nokkuð vegna óvæntra tafa en allt gekk þó upp á endanum.

Sundlaugin hér í Hólminum er opin til 22 á virkum dögum og síðasti klukkutíminn var tekinn í pottinum. Þeir eru annars með opið um páskana frá 10-17 alla daga nema föstudaginn langa. 

Í dag, skírdag er eiginlega svipað veður og í gær - hvasst en sæmilega bjart í lofti. Það hefur ekki bætt í snjóinn sem ekki var mikill fyrir, sem er ágætt því það fylgir engin skófla með húsinu - aðeins strákústur. Ætlunin var að renna út í Grundarfjörð og jafnvel lengra en ég held ég nenni því ekki í dag - heima er bara best..........

Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 217
Flettingar í gær: 1205
Gestir í gær: 620
Samtals flettingar: 139373
Samtals gestir: 29414
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:13:26


Tenglar