Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


28.03.2015 08:47

Granni.


Hann granni kom til mín fyrir stuttu og var þungur á brún. Granni er nefnilega, þrátt fyrir að virðast venjulega kátur og léttur, frekar svartsýnn. Við ræddum tíðarfarið og almennt útlit fyrir sumarið. Þegar ég sagði granna að ég hefði farið með björgunarbátinn af Stakkanesinu í eftirlit og yfirferð ef ske kynni að sjósett yrði um páskana taldi hann slíkt algeran óþarfa - það myndi gera stórviðri um páskana svo engum bát yrði á sjó fært. Hann endurtók "stórviðri" með þvílíkri áherslu að ég gat ekki annað en trúað því að eitthvað hefði hann fyrir sér. Heimildin var raunar ekki traust að mínu mati - granni hafði farið til spákonu og frá henni hafði hann upplýsingarnar. Til að bæta gráu ofan á svart hafði sú spáð Heklugosi í kjölfarið. Eftir að því lyki mætti loks fara að ræða eitthvert sumar.

Svo svartsýnn var granni að mér var skapi næst að taka kaðalspotta sem hékk hjá mér og rétta honum - mér sýndist það rökrétt næsta skref. Af því ég er kurteis og vel upp alinn (eins og ég hef margoft bent á) þá gerði ég það ekki heldur þakkaði fyrir upplýsingarnar og lét sem ég myndi haga mínum áætlunum m.t.t. þeirra. Svo liðu dagar........

Ég veit ekki hversu nákvæmar svona spákkur eru á tímasetningar. Vissulega gerði stórviðri eftir að við granni áttum talið - eitt mesta veður sem menn á miðjum aldri muna. Það þýðir nefnilega ekki að spyrja elstu menn. Þeir muna ekki neitt og ef þeir muna eitthvað snúa þeir öllu á hvolf. Ég get nefnt nærtækt dæmi. Þegar karl faðir minn var kominn fast að níræðu stóðum við einn góðviðrisdag framan við aðsetur hans á Ísafirði. Í bílastæði stóð nýlegur, svartur Ford jepplingur sem pabbi átti. Hann keypti svartan bíl því fyrsti vörubíllinn hans hafði verið svartur og sá næsti, mikill uppáhaldsbíll af gerðinni Ford F-600 af árgerð 1953 hafði verið dökkblár. Gamli maðurinn horfði hnugginn á jepplinginn sem bar greinileg merki göturyks enda fáir litir ópraktískari þegar ryk er annars vegar. "Hann er alltaf rykugur" sagði sá gamli og þagði svo góða stund, djúpt hugsi. Svo kom gullkornið: "Ég skil þetta ekki. Fordinn var aldrei svona"

Í minningunni voru fyrstu vörubílarnir hans alltaf gljáandi fínir. Það var ekkert pláss fyrir þá praktísku og rökréttu hugsun að á árunum kringum 1950, þegar hann átti þessa bíla hafi malbikaðar götur aðeins verið til í draumum Ísfirðinga og yfirborð þeirra á stöðugri ferð í hvert sinn er hreyfði vind. Mín kynslóð man vel eftir gömlu Douglas DC3 að hefja sig til flugs frá Ísafjarðarflugvelli - og Fokker F27 síðar. Þess vegna munum við eftir rykmekkinum sem huldi Engidalinn eftir flugtak  "útávið" og hálfa Kirkjubólshlíðina eftir sambærilegt "innávið". Þessi rykmökkur af flugvellinum áður en hann var malbikaður, var ýkt útgáfa af götum Ísafjarðarkaupstaðar í vindi.

Ég átti ekkert svar fyrir pabba. Ég kunni engan veginn við að benda honum á þessa augljósu staðreynd. Hvað átti ég með að gára lygnt yfirborð draumahafsins?

Granni fékk semsagt engan kaðalspotta heldur aðeins góðlátlega hughreystingu og kveðjur við brottför. Svo kom rokið og ég fór að velta mér fyrir því, eins og Geiri heitinn danski orðaði það, hvort spákkan hefði einfaldlega tímasett það ónákvæmt.  Næst á eftir stórviðrinu átti að koma Heklugos en eftir það mátti loks fara að ræða sumar, eins og áður sagði.

Ég vaknaði snemma í morgun og opnaði tölvuna að venju. Fyrsta fréttin sem blasti við mér var um óróa í Heklu og  hugsanlegan undanfara goss. Nú er spurningin hvort ekki er rétt að ræða við granna og fá hjá honum símanúmer spákkunnar. Það getur varla spillt að fá að vita eitthvað um komandi tíð?

Örstutt í lokin: IKEA er ein af mínum uppáhaldsbúðum. Mér skilst að það sé fátítt að kallar hafi gaman af IKEAferðum en ég er þá bara undantekning. Eitt af því sem ég kaupi reglulega í IKEA eru kerti - a.m.k. yfir dimmasta tíma ársins. Ég er nefnilega mikill kertakall. Ef ég næ að setjast niður á kvöldin og slaka á yfir sjónvarpi eða bók - nú, eða við tölvuna -  þá kveiki ég gjarnan á sprittkertum. Yfirleitt brenna þau svo bara út. Einn morgun fyrir stuttu þegar ég var að henda tómum kertabollum tók ég eftir að einn var öðruvísi en hinir. Það þurfti svo sem engan vísindamann til að greina innihaldið. Það var fluga sem lá á bakinu í bollanum við hlið kveiksins. Nú veit ég ekki hvaðan IKEA kaupir þessi kerti en er nokkuð viss um að þau eru ekki framleidd í Svíþjóð. Ég veit heldur ekki hversu langt út í heim skrifin mín berast en mér þætti vænt um ef einhverjir lesendur þar sæju sér fært að láta aðstandendur vita......



Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135206
Samtals gestir: 27929
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:47:58


Tenglar