Þegar maður
getur ekki gert rassgat með framlöppunum verður maður að finna sér einhverja aðra afþreyingu en vinnu. Ég hafði spurnir af því á dögunum að stórskipið Stakkanes hefði hreyfst til í vetrarhíði sínu í Stykkishólmi en þó sloppið óskemmt. Stór rolluflutningabátur sem stóð á vagni aftan við Stakkanesið hafði tekist á loft, fokið uppúr vagni sínum og brotlent við hlið hans. Það hafði ekki verið nema um fet milli bátanna svo mér þótti vissara að kíkja í Hólminn og skoða aðstæður. Fyrst ég gat engu komið í verk hér heima var tilvalið að nota þennan ágæta sunnudag til fararinnar. Við sonurinn lögðum af stað uppeftir um hálfellefuleytið í morgun og vorum þessa venjubundnu tvo tíma á leiðinni að viðbættu kaffistoppi í Geirabakaríi í Borgarnesi. Ég hafði vit á að láta hann aka því mér lætur illa að aka beinskiptum bíl einhendis.
Stakkanesið stóð á sínum stað en snarhallaði í vagninum - þ.e. vagninn hallaði vegna þess að kubbar sem hann stóð á höfðu hreyfst. Þegar ég skoðaði ástæðuna kom í ljós að bæði bátur og vagn hafa hreyfst til hliðar um líklega ein tvö fet. Við hlið Stakkanesins er smátrillan Farsæll sem Gulli vinur minn á og hliðarskorða vagnsins hafði lagst á borðstokk Farsæls, án þess þó að valda skemmdum. Rolluflutningabáturinn virðist hafa fokið beint upp í loftið og svo til hliðar án þess að snerta skriðbrettið á Stakkanesinu - sem aðeins var 30 sentimetra frá!!
Eitt var augljóst: Bláu plasttunnurnar sem ég flutti upp í Hólm í haust, fyllti af vatni og batt sitthvoru megin við Stakkanesið hafa hreinlega bjargað því að ekki fór verr. Það er kristalklárt að Stakkanesið hefur lyfst upp með vagni og öllu saman og kastast yfir til hliðar. Hefðu tunnurnar ekki haldið í hefði báturinn að öllum líkindum fokið yfir Farsæl og á næsta bát við hliðina - með vagninn hangandi neðan í sér því allt var súrrað saman.
Að neðan má sjá hversu nálægt skriðbretti Stakkanessins rolluflutningabáturinn er:
Hér sést vel hvernig Stakkanesið hefur lagst á Farsæl. Utan á skorðunum er þykkur svamphólkur sem kannski hefur bjargað einhverju:
Það var svo sem engin ástæða til að gera neitt í málinu. Öll bönd halda enn og strangt til tekið er allt nokkurn veginn í lagi ef ekki kemur frekari hreyfing á hlutina. Ég fer aftur í Hólminn til páskadvalar síðdegis þann 1. apríl og þá með verkfæri og annað sem þarf til að rétta bátinn við og koma honum á sinn stað.
Og kannski verður þá farið að viðra til að setja á flot. Hver veit?
.....................