Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.03.2015 10:09

Föstudagurinn þrettándi.....


 Ég er ekki hjátrúarfullur en dag skal samt að kvöldi lofa. Hann "spær" illa fyrir daginn og þann næsta, roki og vatnsgangi. Þess vegna þykir mér við hæfi að birta eina gamla mynd - og aðeins eina. Það má orna sér við hana þegar mest gengur á úti fyrir!



Myndin sýnir logn - dæmigert, ísfirskt logn. Lognið má vel sjá á Pollinum en líka á gufustróknum úr rækjuverksmiðjunni á Sundahafnarsvæðinu. Svo má sjá þarna gamla Chevrolet Scottsdale löggubílinn fylgja "Grænu byltingunni" til hvílu í malargryfjunum inni við fjarðarbotn. Græna byltingin brann á geymslustaðnum af þekktum en óopinberum ástæðum. Það er dráttarbíll Vegagerðarinnar sem dregur ækið eftir ómalbikaðri "Hraðbrautinni"  (sem opinberlega heitir Skutulsfjarðarbraut og er eina hraðbrautin í heiminum með 60 km. hámarkshraða!) 

Svo má líka sjá þarna togarann Júlíus Geirmundsson ÍS sem seinna varð Barði NK, muni ég rétt. Í bátahöfninni liggur Orri ÍS og framan við hann sér í skut Fagranessins. Einn af olíutönkunum er merktur ESSO -  enn eitt dæmið um veröld sem var......

Ef ég á að dæma um árstíðina eftir því sem ég sé á myndinni þá vil ég giska á vor - vor, eins og ég man þau best að heiman. Þegar ég horfi á þessa mynd get ég beinlínis fundið í lungunum fríska og tæra loftið sem alltaf fylgdi í kjölfar regndaganna......

Það var þá......................... 


Flettingar í dag: 297
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135264
Samtals gestir: 27952
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:45:28


Tenglar