....í
Höfðaborg undanfarið. Þrátt fyrir umhleypingana - sem eru eiginlega orðnir svona veðurfarsleg katastrófa - þá er sumardagurinn fyrsti skjalfestur á húsvíska bátadagatalinu mínu. Hann er settur á 23. apríl og ef mig misminnir ekki þá á ónefnd, ísfirskættuð góðvinkona mín í Hólminum áttræðisafmæli þann dag. Vorjafndægur eru svo mörkuð þann 20. þessa mánaðar og þegar dagurinn hefur unnið jafnlengd sína af nóttinni sér alltaf fram á bjartari tíð - það er bara þannig!
Þessvegna er verið að stilla fókusinn á sumarið. Í komandi viku mun björgunarbáturinn af Stakkanesinu fara í yfirhalningu og annað sem útgerðinni viðkemur fær einhverja handayfirlagningu. Því miður er ekki handbær nein áreiðanleg veðurspá fyrir komandi páska - enda enn rúmar þrjár vikur í þá og veðurfræðingum veitist jafnvel erfitt að spá með sólarhringsfyrirvara í óstöðugu veðurumhverfi - en ekki er ráð nema í tíma sé tekið og það á allt að vera klárt fyrir sjósetningu um páskana ef veðurhorfur lofa góðu með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara. Vinnutilhögun hjá Óskabarninu er þannig að vikuna fyrir páska á ég dagvakt sem stendur frá kl. 08 til 16. Eftir páska er svo vinnutíminn frá kl. 16 og til miðnættis svo ég get fullnýtt tímann í Hólminum og þarf ekki að leggja af stað suður fyrr en eftir hádegi á þriðjudegi. Ef allt gengur eftir hvað varðar veður þá mun kerran mín standa hér inni á gólfi þegar vinnu lýkur miðvikudaginn 1. apríl og á henni allt sem til sjósetningar þarf. Það á því ekki að þurfa annað þegar vinnu lýkur kl. 16 en að henda fatatöskunni inn í bílinn, lása kerruna aftaní og þeysa af stað uppeftir. "Sparifötin" verða samanbrotin því ég fer uppeftir í vinnufötunum og fer þá beint í að sjóbúa bát og vagn. Kvöldflóð í Hólminum þann 2. apríl er líklega um hálfsjöleytið sem er raunar fullknappur tími fyrir sjósetningu eftir vetrarstöðu en það er hátt í og ég get auðveldlega sjósett þó hálffallið sé út. Svo er annað sem vel má íhuga - ef veðurútlit er þokkalegt helgina fyrir páska er vel athugandi að renna með hjólabúnaðinn undir bátavagninn uppeftir og gefa sér þá betri tíma til að ganga frá honum. Þannig gæti vagninn verið tilbúinn til sjósetningar og ekki annað eftir en að sveifla björgunarbátnum um borð og koma tækjunum og rafgeymunum fyrir í stýrishúsinu.
Ef einhver greinir tilhlökkun í ofanrituðu fær sá tíu fyrir glöggskyggni!
Gamli Benz bíður á bílastæði eftir því að hans tími komi. Hann hefur beðið svo lengi að einhverjir dagar eða vikur til eða frá breyta engu. Það þarf líka að hugsa hlutina áður en hafist er handa og flest sem ég sá fyrir mér í upphafi hefur tekið einhverjum breytingum. M.a. þarf að skipta um hluta klæðninganna innan í honum og bleiku gluggatjöldin hafa áður fengið sína umfjöllun - þau hanga enn uppi en fá að fjúka fljótlega. Efni í þau nýju hefur verið valið, keypt og sett í vinnslu.
Það er annars sunnudagsmorgunn en sunnudagar eru líka vinnudagar þegar verkefni liggja fyrir og þess vegna lýkur þessum pistli núna.......
.....það má samt bæta því við að í nótt hefur snjóað talsvert og hér inni á baðherbergi er alhvítur Bassahundur sem eftir morgunröltið bíður þess að úr honum bráðni svo hann fái sinn grásvarta lit að nýju. Honum lætur illa að bíða!