Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


11.01.2015 10:03

Bara svona dagur......


Dagatalið hér í Höfðaborg segir að það sé sunnudagur. Þetta er fínasta dagatal, skreytt skipamyndum enda ættað úr smiðju landsþekkts skipaljósmyndara á Húsavík. Ég sé því enga ástæðu til að rengja það sem á því stendur.

Sunnudagar eru í eðli sínu frídagar. Ég er ekki svo svakalega gamall en man þó þá tíð að venjulegri vinnuviku lauk ekki fyrr en á hádegi laugardags. Vinnudagurinn hófst klukkan átta að morgni, kaffi var hálftíu til tíu, matur tólf til eitt og seinna kaffi hálffjögur til fjögur. Klukkan fimm hófst eftirvinna og vinnudegi lauk kl. sjö. Þannig var það. Fjórir tímar fyrir hádegi, fjórir tímar eftir hádegi auk tveggja eftirvinnutíma gerði tíu tíma vinnudag. Vinnuvikan fimm heilir dagar og einn hálfur. Vinna utan þessa tíma hét nætur- og helgidagavinna og var greidd með 80 prósenta álagi á dagvinnutímakaup - eftirvinnutímarnir tveir voru greiddir með 40 prósenta álagi á tímalaunin en gátu, eðli málsins samkvæmt aldrei orðið fleiri en átta um vikuna. Svo, á einhverjum tímapunkti var eftirvinnutaxtinn lagður niður og öll vinna umfram átta tímana nefnd yfirvinna og greidd með 80% álagi. 

Kannski var þetta í eina skiptið í samtímasögunni sem tókst að einfalda eitthvað kerfi í stað þess að flækja það!

Svo hafa auðvitað alla tíð verið til störf sem spyrja hvorki að því hvað klukkan er né hvaða dagur er. Ég nefni aðeins umönnunarstörf á spítölum og löggæslu af því þau störf eru samfélaginu líklega mikilvægust af öllum. 

Eftirspurn myndar venjulega framboð. Trúlega er sú regla algild. Hitt er líka vel þekkt að framboð getur myndað eftirspurn - ef einhver snjall sölumaður lætur sér detta í hug eitthvað sem almenningur "verður" að eignast og auglýsir það rækilega þá eru meiri líkur en minni á því að almenningur bíti á agnið og úr verði metsala út á einhverja tilbúna gerfiþörf. Má nokkuð nefna fótanuddtæki og röndótta blómavasa?

Svo er allt hitt sem hægt er að klóra sér í kollinum yfir: Er t.d. hægt að segja að það hafi verið eftirspurn eftir sjónvörpum áður en þau voru fundin upp? Við getum einfaldað dæmið og sett það upp þannig að einhver hafi smíðað sjónvarp, sett það á markað og allir hafi samstundis þurft að eignast eitt slíkt. Daginn áður vissi engin að það væri til. Auðvitað þurfti útsendingu sjónvarpsefnis til að tækið virkaði, svo heildarmyndin er auðvitað stærri en dæmið er samt rétt og hægt að sanna það með því að minna á manninn vestur á Ísafirði sem keypti sér sjónvarp og stillti því upp sem stofudjásni löngu áður en slík tækni náði til Ísafjarðar. Hann hlaut fyrir vikið nafnbót sem mörgum eldri Ísfirðingum er enn í fersku minni.

----------------------------------

Allt ofannefnt eru fabúleringar sem urðu til út úr því sem ég ætlaði raunverulega að segja. Það sem ég ætlaði að koma á framfæri er einfaldlega það að þótt það sé sunnudagur hér í Höfðaborg þá er ekki frídagur. Þegar maður lagar eitthvað fyrir frænda eða frænku (framboð) spretta fram frændur og frænkur úr öllum hornum og þurfa líka að fá lagað (eftirspurn). Þegar eftirspurnin er farin að keyra úr hófi og ekki er hægt að auka framleiðnina/framboðið þarf að grípa til einhverra ráða. Eitt þeirra gæti t.d. verið að skrúfa smám saman niður eftirspurnina með því að miðla þörfinni í aðrar áttir. Þar með minnkar framleiðnin smátt og smátt og bein afleiðing er að vinnutími "framleiðandans" styttist. Á einhverju þurfa menn þó að lifa og því var gott að skríða undir væng "Óskabarns þjóðarinnar" þar sem í boði voru bæði reglulegur vinnutími, úrvals aðstaða og öndvegis vinnufélagar - að ógleymdum þokkalegum launum. Það tekur hins vegar dálítinn tíma að skrúfa niður í öllum frændunum og frænkunum og þess vegna er sunnudagur hér í Höfðaborg aðeins til á fallega skipadagatalinu mínu.

......og það var nú allt og sumt sem ég ætlaði í upphafi að segja...........

Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135240
Samtals gestir: 27944
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:09:53


Tenglar