(Viðbætur settar neðan við kl. 18.40)
Það var
assgoti sleipt á leiðinni uppeftir í gærkvöldi enda var sú litla umferð sem þó
var, mun hægari en vanalega. Ofan við Borgarnes gekk yfir eitt stutt él en eftir það var stjörnubjart og brá fyrir norðurljósum. Veðrið í Hólminum við þangaðkomu um kl. 21 var einstaklega fallegt. Við komum okkar dóti fyrir í leiguhúsinu, sópuðum snjó úr innkeyrslunni og héldum svo beint í sundlaugina - þ.e.a.s. í heita pottinn. Það stóðst á endum að þegar við komum út úr sundlauginni var farið að élja og þunnt, hvítt teppi lagðist að nýju yfir nýsópaða innkeyrsluna við húsið.
Eftir pottinn var litið á stórskipið Stakkanes sem hvílir sig veturlangt í Skipavík. Allt var þar óhreyft og í besta standi. Kvöldinu var svo lokað með einhverri skandinaviskri bíómynd á RUV.
Snemma í morgun fór að blása dálítið og snjórinn frá gærkvöldinu þyrlaðist upp í hvirfla milli húsanna. Fljótlega gekk þó niður og nú þegar þetta er skrifað, um hádegi á laugardegi, er fallegasta veður - hversu lengi sem það nú helst!
Það er þriðji janúar og aðeins rúmar tvær vikur frá því við komum heim frá því að skoða jólaskreytingar í Vestmannaeyjum. Kannski eru einhverjir búnir að slökkva á skreytingunum hér í Hólminum, allavega er talsverður munur á fjölda útiskreytinga hér og þar.
Stykkishólmur og Vestmannaeyjabær eiga það hins vegar sameiginlegt að þurfa ekki jólaskreytingar til að vera fallegir að vetri.................
Myndir
teknar á göngu í dag:
Er eldgos í Kerlingarskarði?
Stauraskreytingar:
P - 51:
Tunglið
stígur upp fyrir Fellsströndina uppúr kl. hálffjögur:
Krossinn á
kaþólsku kapellunni og tunglið í harðri keppni um athygli:
Svo vatt
Máni sér milli trúarbragða og skein næst á útibú þjóðkirkjunnar:
Ég vil að
það komi skýrt fram að ég tók þessa mynd hér að neðan. Þótt myndavélin ráði
ekki við léleg birtuskilyrði - sjá Vestmannaeyjasyrpuna - og EH taki yfirleitt
betri myndir þá náði ég þessari frá heimreiðinni að Hótel Stykkishólmi. Ég þurfti að halda myndavélinni langt uppyfir haus og sá aðeins á skjáinn með hornauganu en það dugði.
Það er komið
kvöld og hangikjötinu hafa verið gerð skil. Ég leggst á meltuna.......
...................................