Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.12.2014 21:26

Fjör í Eyjum!


Það er laugardagskvöld í Eyjum - eins og víða annarsstaðar - og þrátt fyrir slæmt útlit er enn hægviðri. Siglingin út með Herjólfi í gær var líkust því sem siglt væri á lygnum polli. Hér er snjólaust að kalla og aðeins þunnur klaki á gangstéttum. Orlofsíbúðin sem ég tók á leigu var óhrein eftir síðustu leigjendur og fyrsti klukkutími frísins fór í að þrífa hana og henda rusli sem skilið hafði verið eftir fyrir næstu leigjendur. Þetta var ekki á planinu en varð þó að vera þannig.

Eftir þrifin fundum við okkur prýðilegan veitingastað, Vöruhúsið, og borðuðum kvöldmat þar. Ákaflega notalegur staður, hlýr, hreinlegur og maturinn góður. Svo tókum við okkur bíltúr í gærkvöldi, renndum flestar götur bæjarins og skoðuðum jólaskreytingar. 

Íbúðin er á efri hæð í tvílyftu steinhúsi nærri höfninni og við höfðum veitt því athygli að á neðri hæðinni er pöbb. Við vorum eiginlega rétt að jafna okkur á aðkomunni í íbúðina og búa okkur undir rólegt kvöld þegar á neðri hæðinni upphófst hreint hrikalegur djöfulgangur. Ég veit ekki hvort það sem þar fór fram átti að heita "lifandi tónlist" en hitt veit ég að ekki var spilað heilt lag allan þann tíma sem húsið nötraði af bassatónum. Það voru aðeins einstaka hljómar sem slegnir voru og þeir voru vandlega skrúfaðir upp á hæsta styrk. Innanum mátti kannski með góðum vilja greina brot úr þekktum lögum en ég giska á að höfundarnir vilji lítið af þeim flutningi vita. Kannski var einhver innandyra sem hafði gaman af spilverkinu en mér er nær að halda að þarna hafi frekar verið stillt upp rafmagnshljóðfærum fyrir húsgesti að glamra á - tón"listin" bar ekki með sér að þar slægju vanir menn strengi.

Þessi djöfulgangur hélst linnulaust til kl. 01 og eftir það tók við sundurlaus tónlist "af nálinni". Húsgestir, sem virtust flestir eða allir hafa smurt sig rækilega með söngolíu, færðust út fyrir dyr ( en höfðu raunar verið þar meira og minna reykjandi í skotinu þar sem gengið er upp í "orlofs"íbúðina) og ef marka mátti ópin og öskrin voru menn ekki á eitt sáttir um eitthvað. Við í íbúðinni fengum að njóta nærveru þessarra öskrandi húsgesta fram yfir hálftvö en þá fór að draga úr og um tvöleytið var loks hægt að skríða til bóls.

Ég skil ekki alveg í mínu annars ágæta stéttarfélagi, að bjóða félagsmönnum sínum upp á aðra eins "orlofs"íbúð. Við hefðum getað verið með börn, við hefðum getað verið með gamalmenni og við hefðum jafnvel getað verið gamalmenni sjálf. Hvernig dettur einhverjum í hug að leigja orlofsíbúð - stað þar sem gera má ráð fyrir að fólk komi á til að hvílast - uppi yfir pöbb þar sem framleiddur er annar eins hávaði og boðið var uppá í gærkvöldi?

Á tímabili í gærkvöldi vorum við alvarlega að hugsa um að taka ekki okkar dót upp úr töskum heldur þrauka nóttina -jafnvel í bílnum -,mæta fyrst allra á Herjólf í morgunsárið og yfirgefa þessa hörmung fyrir fullt og allt. Það varð semsagt ekki úr og hér erum við enn. Klukkan er nú rétt að verða tíu að kvöldi og mun rólegra á neðri hæðinni en í gærkvöldi. Við borðuðum kvöldmat öðru sinni í Vöruhúsinu og umsögnin er samhljóða gærkvöldinu - ein fata af stjörnum.

Dagurinn var annars fínn. Dálítil slydda í morgunsárið sem breyttist í rigningu þegar á leið. Kuldagallinn varð eftir heima í Höfðaborg svo ég fann ágæta fatabúð hér og keypti mér flottar, vatns-og vindheldar hlífðarbuxur. Nú má gera hvaða skítvirði sem er. Ég er klár í allt!

Svo rakst ég inn á lítinn stað þar sem nokkrir áhugamenn ræða áhugamál sín í víðasta skilningi. Sú heimsókn tók drjúga stund og mikið kaffi var innbyrt.

Spáin er semsagt í verra lagi en það má búast við framhaldi á þessum Eyjafréttum annað kvöld ef við verðum þá ekki fokin á haf út.......

Í nýju hlífðarbuxunum ætti ég raunar að geta fokið skammlaust til Færeyja og heim aftur án þess að blotna eða kólna.


..........þrátt fyrir allt er gaman og fínt fólk hérna í Eyjum.......


Flettingar í dag: 821
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 157063
Samtals gestir: 32394
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 17:24:57


Tenglar