Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


17.11.2014 12:55

Nú er hann dauður, hann Rauður!


Sunnudagurinn 16. nóvember (sem var bara í gær) gæti komist í annála vegna einstakrar veðurblíðu. Við Edilon Bassi Breiðfjörð Eyjólfs- og Elínarson Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp lögðum land undir hjól um tíuleytið í gærmorgun og höfðum kerru með bílvél og þvottavél í eftirdragi. Förinni var heitið austur fyrir fjall og skyldi verða síðasta ferð þess rauða - hann hefur átt misjöfnu atlæti að fagna gegnum árin og þrátt fyrir talsverða viðleitni hefur ekki tekist að bjarga honum eins og til stóð þegar ég eignaðist hann. Hann var þá mjög illa farinn og ógangfær úti í vegarkanti uppi í Grafarholti, þar sem ungir menn höfðu misþyrmt honum illa í torfærum. Það tókst að blása í hann lífi en hann hefur aldrei náð eðlilegum styrk - var hrjáður af þeim leiða kvilla sem skoðunarmenn kalla "styrkleikamissi", svo víðtækum að ekki varð fyrir komist nema með óheyrilegri vinnu. Rauður hefur samt þjónað mér frábærlega vel undanfarna fimmtán mánuði en nú var mál að linnti og hann fengi hvíld. 

Ferðin austur var átakalaus og við áðum á a.m.k. tveimur stöðum til að taka myndir af ótrúlegri veðurblíðunni. Það sama gerðu fjölmargir útlendingar á bílaleigubílum en sá hópur virðist enn allfjölmennur þrátt fyrir árstímann og það sem honum fylgir, kulda og birtuskort. Það var kannski ekki hlýtt í gær en alls ekki kalt heldur, og engin hörgull var á birtunni enda skein sólin á Suðurlandið. Við stoppuðum fyrst í útskoti rétt ofan þjónustumiðstöðvarinnar á Þingvöllum:



Þótt Rauður sé þarna enn ekki dauður er hann hálf-snauður því varahjólið er horfið ásamt festingu og fallegu álfelgurnar hafa fengið nýtt hlutverk. Í stað þeirra komu ryðgaðar stálfelgur með dekkjum sem hefðu fengið bæði Yul Brynner og Kojak til að roðna af öfund. Það sem ekki sést er að í innréttinguna og mælaborðið vantar u.þ.b. helming því svarti Hrossadráparinn þurfti á varahlutum að halda. Þar sem miðstöðin átti að vera var aðeins stórt gat sem kalt loft blés inn um, svo kalt að Bassi hélst ekki við í framsætinu en færði sig afturí og hristi þar í sig yl eftir getu.

Aftur stoppuðum við á brúnunum ofan Laugarvatns til að mynda og virða fyrir okkur fegurð heimsins:



Þegar myndin hér að ofan var tekin var sólin smám saman að stíga upp undir skýjahuluna en meðan hún skein milli lands og skýja var litadýrðin hreint ólýsanleg. Í fjarska sáust gufubólstrar frá hitaveitunni að Syðri-Reykjum stíga lóðrétt til lofts. Ég reyndi að mynda þá en myndirnar urðu óskýrar. Við héldum áfram........

Á hlaðinu að Apavatni stóðu tveir gljáandi Fergusynir þeirra Magnúsanna Grímssonar og Jónssonar og inni í fyrrum fjósi en nú vélageymslu stóð þriðji bróðirinn búinn ámoksturstækjum.





 Sá kom sér vel þegar kom að því að tæma kerruna, á henni var nefnilega bílvél sem illa hæfði aumu baki að bera til geymslu. Það var hins vegar engin miskunn hjá Magnúsi bónda þegar bera skyldi þvottavélina til húss. Traktor með ámoksturstækjum gengur ekki inn í þvottahúsið að Apavatni þótt nettur sé og þá var mannaflið eitt eftir. Allt gekk snurðulaust og næst var að reyta númeraplöturnar af Rauð ásamt ýmsu smálegu sem skyldi til baka. Rauður verður svo geymdur að Apavatni um óákveðinn tíma en ætlunin er að eiga hann helst þann tíma sem svarti Hrossadráparinn er á lífi og í notkun, enda eru þeir nákvæmlega eins og varahlutir í þessa bíla hættir að liggja á lausu.

 Ég hafði loforð fyrir "sækingu" eða þannig, því Elín Huld ætlaði að sækja mig á litlum, bláum bíl. Það er klukkutíma akstur frá Rvk. að Apavatni og mig var eiginlega farið að lengja eftir EH þegar hún hringdi frá Þrastalundi og var ekki alveg viss um leiðina. Hún hafði valið Hellisheiðina og kom því upp Biskupstungnabraut. EH þekkir leiðina að Laugarvatni um Mosfells-  og Lyngdalsheiðar ágætlega en eystri leiðina síður og það útheimti nokkra ferðalýsingu að beina henni á rétta braut. Eftir það gekk allt snurðulaust.

Er þá komið að þætti Edilons B. Breiðfjörð o.s.frv. Þann 22. nóvember nk. verður Bassi níu ára - það er nú bara á laugardaginn, hafi ég litið rétt á dagatalið. Mér hefur alltaf verið sagt að hundar sem éti sykur og sætindi tapi heilsunni fyrir aldur fram. Nú er ég að hugsa um að skrifa bók. Það yrði mjög fróðleg bók um það hversu mikið gott hann Bassi minn hefur haft af öllu því kexi og súkkulaði sem hann hefur innbyrt um ævina - að ég tali ekki um pitsurnar! Þegar ég fékk Bassa var hann tæplega tveggja ára og þvílíkur hlaupagarpur hafði ekki sést fyrr! Hann gat hlaupið eins og þindarlaus langtímunum saman, það sýndi sig best þegar ég missti hann í eltingaleik við kindur í Skálafellinu forðum.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið kex og súkkulaði verið innbyrt, og - það er satt að segja orðið nokkuð langt síðan ég hef séð Bassa hlaupa jafn ofboðslega eins og austur við Apavatn á sunnudaginn. Þar eru endalaus tún og sléttlendi, ekkert hraun, ekkert grjót, aðeins grasvellir. Ég er hreint ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma séð hundinn hlaupa jafn ofboðslega hratt og langt svona lengi í einu. Í hálfan annan tíma slakaði hann ekki á heldur hljóp, ýmist á fullu og rúmlega það eða með sínum eðlilega hlaupastíl.  Bassi kann nefnilega ekki vel að ganga - hann vill miklu frekar hlaupa spöl og stoppa svo og bíða en ganga á jöfnum hraða. Eina leiðin til að fá hann til að fylgja sér er að hafa hann í taumi. Á Apavatni voru allir heimsins taumar víðs fjarri og frelsið algert. Hvað var þá annað að gera en njóta þess í botn? Svo þegar þessum níutíu mínútum lauk og bíllinn kom að sækja okkur hélt ég að nú yrði Bassi hvíldinni feginn og myndi liggja sem dauður það sem eftir lifði dags. Ekki var það nú aldeilis. Okkur lá ekkert á heim svo það var stoppað á nokkrum stöðum og alltaf var sami hamagangurinn!

.......og nú má einhver reyna að segja mér einu sinni enn hveru slæmt hann Bassi minn hefur af því að borða súkkulaði og kex. Hundur sem væri farinn að tapa sjón gæti nefnilega ekki hlaupið á hundraðinu milli hjólanna á dráttarvélunum, milli girðingarstaura eða hreinlega milli fótanna á eigandanum, sem er alveg uppáhalds.....

Á myndinni hér að neðan mótar fyrir steingráum hundi á hlaupum. Það var vonlaust að taka kyrrmynd:





Það var komið fram yfir hádegi þegar ég var sóttur að Apavatni og leiðin lá upp á Laugarvatn í hádegismat og sund. Þegar til átti að taka var verslun Samkaupa lokuð vegna vörutalningar "frá klukkan 11 og fram eftir degi" eins og stóð á miða við dyrnar. Nokkrir túristar stóðu forviða við læstar dyrnar og horfðu skilningsvana á starfsfólk á vappi innandyra. Næsta hús við Samkaup er pizzastaður en í gluggum hans voru miðar með áletruninni "We are closed". Niðri við vatnið er veitingastaðurinn Lindin og þangað tókum við stefnuna. Staðurinn er fínn og inni var talsvert af fólki sem allt var útlenskumælandi. Við fengum ágætt að borða á þokkalegu verði og þegar við kvöddum vertinn máttum við til að spyrja um gullfallegan LandRover sem stendur við bílastæði veitingahússins og er skreyttur auglýsingum frá því. Sögu bílsins fengum við á færibandi, allt frá því hann fannst hálfgrafinn í jörð á sveitabæ austur á Jökuldal þar til hann var fulluppgerður með nostri og klappi - það hefur nefnilega ekki verið kastað höndunum til þess verks.








Við svo búið tókum við stefnuna á sundlaugina. Dyrnar voru opnar en inni var kona sem sagði alltaf lokað á sunnudögum. Hins vegar væri opið í nýju lauginni að Borg í Grímsnesi. Þangað komum við um hálfþrjúleytið og sátum í heita pottinum næsta hálftímann eða svo, þegar annir kölluðu okkur aftur til Reykjavíkur.

Um kvöldið var svo farið í IKEA í jólahangikjöt og þaðan í kaffi í heimahús í Garðabæ. Þegar ég fór þaðan tafðist ég örlítið við opinn bíl og Bassi greip tækifærið og fór í könnunarferð um nágrennið. Dökkgrár hundur er fljótur að hverfa í myrkrið og hann svaraði ekki kalli - hann gerir það reyndar ekki alltaf ef eitthvað skemmtilegra er í boði og þarf stundum að hvessa sig við hann ef hann á gegna. Þegar köllin dugðu ekki var brugðið á ráð sem aldrei bregst - ég setti bílinn í gang og lét hann mala augnablik. Á nokkrum sekúndum var Bassi kominn á sinn stað í aftursætinu! Hann sleppir nefnilega ekki bílferð ef hún er í boði.....

Kexið og súkkulaðið hafa nefnilega ekki haft nein áhrif á heyrnina heldur.....


--------------------









Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135172
Samtals gestir: 27911
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:26:25


Tenglar