Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


06.10.2014 10:00

Vatnsneshringur 13-14 sept. 2014


Spáin var svona "jújú", semsagt ekkert sérstök en þó engu mannskaðaveðri spáð. Þessa helgi hefur venjulega verið farið í Fljótstungurétt með tilheyrandi pottlegum í Húsafellslaug og skyldum athöfnum. Nú var allt opið um tilhögun ferðar, undanfarna daga hafði verið hreint og ómengað skítviðri á Arnarvatnsheiði og nágrenni. Það mátti því búast við vind- og vatnsbörðum göngumönnum niður í Hallmundarhraun - að ónefndu rennblautu og þunglamalegu sauðfé. Mig langaði líka að breyta til og fara eitthvert annað í réttir, helst norðureftir ef sæmilegt veður gæfist.

Á Vatnsnesi skyldi réttað í Hamarsrétt vestan og Þverárrétt austan.  Hamarsrétt er á einstaklega fallegum stað og einhvern tíma fyrir löngu hét ég því að mæta þangað á réttardegi og fylgjast með lífinu. Kannski gæfist tækifæri til þess nú....

Það var líka annað atriði sem togaði á þessar slóðir - frá þjóðvegi eitt um Línakradal liggur vegur númer 711 út Vatnsnes skammt norðan við bæina Efra- og Neðra Vatnshorn. Við þessi vegamót er skilti sem á stendur m.a. "Hvítserkur 30". Ég hef nokkuð oft ekið fyrir Vatnsnes og í báðar áttir en alltaf, utan einu sinni ekið hjá Borgarvirki, veg nr. 717. Þessi vegur, nr. 711 liggur hins vegar beint af þjóðveginum til norðurs og er hinn eiginlegi hringvegur um Vatnsnes. Hann liggur út Vesturhópið ( og nú er ég bara að tala um þá átt sem ég ók hann í) og tengist vegi nr. 717 við Þorfinnsstaði þar sem áður var skóli sveitarinnar og reisulegt skólahúsið stendur autt að því er virðist.

Enn eitt dró mig til sín á Vatnsnesið og að því kem ég síðar.

Það var hálfgert ruddaveður þegar lagt var af stað úr Reykjavík um hádegisbil laugardaginn 13. Í Borgarnesi var snöggtum skárra en þó vindbelgingur. Eftir lögáningu í bakaríinu og forðakaup í Bónus var haldið áfram norður, ekið gegnum skúrabelti og skin á milli upp Norðurárdal og inn á Holtavörðuheiði. Á leið yfir heiðina var rifjuð upp okkar fyrsta ferð yfir hana fyrir mörgum, mörgum árum. Þá vorum við á suðurleið og það var þoka á heiðinni. Við ókum uppfrá Brú í Hrútafirði, nokkrar aflíðandi brekkur og beygjur og bjuggum okkur undir þessa margumtöluðu heiði sem í fréttum hafði oft verið lýst sem illviðrasömum farartálma. Ekkert sáum við út vegna þokunnar en einhversstaðar hlaut þessi heiði þó að vera....svo fór að halla undan færi og allt í einu vorum við komin niður í Norðurárdal - til þess bentu eindregið bæjanöfnin á kortinu okkar. Holtavörðuheiði var þá eftir allt saman engin heiði, allavega ekki þeim sem vanir voru vestfirskum heiðum. Eftir þetta hef ég aldrei litið á Holtavörðuheiði sem heiði og hef þó farið hana í misjöfnum veðrum og skyggni á öllum árstímum.

Nóg um það. Á Holtavörðuheiði var nú ágætasta veður en þó lá þykkur bakki yfir fjöllunum í kring. Við höfðum enga viðdvöl í Staðarskála fremur en venjulega - Staðarskáli var aldrei "okkar" skáli heldur Brú enda lágu flestar okkar leiðir áður fyrr vestur/suður og því var Staðarskáli úrleiðis. Niðurrif Brúarskála og nýr Staðarskáli hefur ekki breytt okkar venju að öðru leyti en því að nú er engin áning í stað Brúar áður.

Við ókum beint út á Hvammstanga og fengum okkur kaffi í sjoppunni. Með því fengum við ágætasta spjall við fróðan heimamann og það fór drjúgur tími í samræður um útgerð og vinnslu á staðnum og aðkomu Ísfirðinga að rekstri. Í - 140 númerið á ferðadrekanum kveikir oft á átthagatengdu spjalli þegar menn reka augun í það.

Eftir kaffið og lauslega smíði dagsáætlunar héldum við af stað inn á þjóðveg eitt að nýju og ókum austur Línakradal að fyrrnefndum vegamótum við Vatnshornsbæina. Þar var svo beygt norðureftir, inn á veg 711 og fljótlega stöðvað úti í kanti og kortið gaumgæft. Fyrsti bær á vinstri hönd sem ekið var hjá var Vatnshóll, þá eyðibýlið Núpshlíð, næst Þóreyjarnúpur og litlu norðar Sporður til hægri handar, austan vegar. Allir þessir bæir teljast til Línakradals en sveitamörkin hljóta að liggja skammt norðan Sporðs því næsti bær í byggð er Urðarbak, litlu norðar og einnig austan vegar en telst vera í Vesturhópi. 

Á kortaklippunni (sem því miður getur ekki verið stærri í einu) er þjóðvegur eitt merktur rauðu, Hvammstangavegur bláu og leiðin út Línakradal/Vesturhóp frá hringvegi er merkt gulu. Okkar leið lá frá vegamótum í gula hringnum og norður eftir. Einhverjum kann að finnast þetta ofur-útskýrt en staðreyndin er sú að fjöldinn allur ekur þjóðveg eitt oft á ári án þess að leggja nokkurn tíma leið sína um afleggjara hans og hefur jafnvel aðeins óljósa hugmynd um hvað þar er að sjá.  Ég giska á að langflestir sem ferðast um þetta svæði aki Vatnsneshringinn um Borgarvirki og sjái því síður þessa leið, sem er verulega miður því svæðið er afar fallegt:





Í framhaldinu verð ég að setja inn aðra klippu sem spannar svæði dálítið norðar og austar. Sú neðri á að skarast við hægra upphorn þeirrar efri ef vel tekst til:





Myndin hér að neðan er tekin af heimtröðinni að Urðarbaki og sér heim til bæjar. Í baksýn er klettahryggurinn sem á kortinu heitir einungis Björg. Hryggurinn er afgerandi í landslaginu og skilur í raun milli tveggja sveita. Í honum eru miklar stuðlabergsmyndanir en melhólar á milli:





Horft norður eftir Björgum frá heimtröðinni að Urðarbaki:





Þá er það fyrrum stórbýlið Hörgshóll, á einu glæsilegasta bæjarstæði sveitarinnar og þótt víðar væri leitað. Það er ekki lengur búið að Hörgshóli en jörðin mun þó vera nýtt að einhverju leyti. Fjósið er áfast íbúðarhúsinu norðanmegin. Mér fannst dálítil synd að enginn skyldi hafa not af þessu mikla húsi á jafnfallegum stað. Í ritinu "Eyðibýli á Íslandi" sem ég vitnaði talsvert í í pistlinum um Svartárdal, er einnig fjallað um eyðibýli í Vesturhópi o.þ.m. Hörgshól. Þar er jörðin sögð "ekki stór og þykir frekar hrjóstrug eins og nafnið bendir til" (bls.136). Engu að síður var búið ágætu búi að Hörgshóli áður fyrr og má finna heimildir um það í eftirmælum ábúanda. Búsetu lauk 1983, húsið var þá þegar orðið lúið og eigendur fluttu annað. 





Niður við þjóðveginn standa fjárhúsin frá Hörgshóli:





.......og Björgin beint á móti:






Þau eru fleiri, fallegu bæjarstæðin í Vesturhópi. Þetta eru Böðvarshólar, afar fallegt og snyrtilegt býli spölkorn vestan vegar 711 og í hvarfi við hann. Bærinn stendur í laut undir gróinni hlíð Vatnsnesfjalls og staðurinn er eflaust skjólsæll ef marka má trjálundinn við íbúðarhúsið:





Stæðileg útihús Böðvarshóla standa spölkorn frá íbúðarhúsinu, snyrtileg eins og annað:





Frá Böðvarshólum ókum við út undir suðurenda Vesturhópsvatns. Þar er veggreining ( vegur 716 ) til austurs yfir norðurenda Bjarganna og tengist hringveginum rétt norðan Víðigerðis. Rétt austantil í Björgum liggur svo vegur 717  af 716 til norðurs um Borgarvirki og tengist Vatnsnesvegi ( 711 ) við Þorfinnstaði. Á kortinu hér að neðan sést þetta sæmilega þar sem Vatnsnesvegur er sem fyrr táknaður með gulu, 716 með rauðu, 717 með grænu og hringvegurinn með bláu:





( Manni hefði kannski fundist eðlilegast og skiljanlegast að vegur 717 lægi alla leið af hringvegi norðan Víðigerðis og að Þorfinnsstöðum í stað þess að vera með tvö vegnúmer á þessarri leið - en svona vill Vegagerðin hafa það og enginn er verkfræðingum æðri.....)

Hvar var ég? Jú, alveg rétt, við vorum við vegamótin við suðurenda Vesturhópsvatns. Okkur datt í hug að kíkja austur yfir Björg, þó ekki væri nema til að sjá yfir til hringvegarins og láta okkur dreyma um malbik. Undir Björgum Vesturhópsmegin, skammt frá veginum stendur þetta glæsilega greifadæmi, Bjarghús:




Við fórum aðeins að vegtengingunni (rauðu/grænu) og svo til baka því við vorum jú á leið út Vesturhóp og við vatnsendann beygðum við til norðurs að nýju. ( sjá kort 2 ). Vegurinn frá Hörgshóli norður að Vesturhópsvatni liggur undir lágum klettarana, áþekkum Björgum að austan en allmiklu minni. Þessi klettarani myndar dálítið dalverpi til norðurs/suðurs milli sín og Vatnsnesfjalls. Sunnarlega í dalverpinu eru Böðvarshólar sem áður voru nefndir en norðan í því er býlið Grund, án ábúðar. Heim að Grund er dálítill spotti en við enda hans er sannkölluð sumarparadís:

Það er Vatnsdalsfjall sem "einokar" bakgrunninn og mynni Vatnsdals sést til vinstri:







Þegar aftur er komið niður á Vatnsnesveginn blasir þetta minnismerki við. Á því er áletrun, sú efri er illskiljanleg við fyrsta lestur:

"Á BREIÐABÓLSTAÐ Í VESTURHÓPI AÐ HAFLIÐA MÁSSONAR VORU FYRST SKRÁÐ LÖG Á ÍSLANDI 1117-1118"

Neðar er áletrun sem segir: "Lögmannafélag Íslands reisti minnisvarða þennan á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974"

......og nú myndi kannski einhver álíta að undarlegt orðalagið í efri klausunni sé skiljanlegt þar sem lögfræðingar áttu í hlut. Ekki er það nú alveg, því þótt klausan sé að sönnu færð til nútímastafsetningar er orðalagið  tekið beint úr Þorgils sögu ok Hafliða og er sem slíkt alveg eðlilegt. Vesturhópsvatn er svo í baksýn:





Litlu norðar og enn á vinstri hönd er Breiðabólstaður, þar sem lögin voru rituð "...at Hafliða Mássonar at umráði Bergþórs....." og má af samhenginu skilja að "..at Hafliða.." þýði beinlínis: " í umsjá Hafliða" eða "undir stjórn Hafliða".

Okkur langaði að skoða kirkjuna að Breiðabólstað, af því við skoðum nefnilega stundum kirkjur. Við ókum örmjóa heimtröð þar sem vart var hægt að mæta bíl - og auðvitað skyldi þá koma bíll frá bæ. Okkur tókst að mæta honum en á hæla hans kom annar og sá stöðvaði hjá okkur. Rúða rann niður og maður bauð góðan dag. Við spurðum hvort kirkjan væri opin til skoðunar. Hann sagði svo vera en sagðist jafnframt koma fljótlega aftur - eða allavega kæmi einhver fljótlega aftur. Við áttuðum okkur á að hann hafði áhyggjur af bænum því augljóslega var enginn heima. Við lofuðum góðri umgengni og heiðarleika og stóðum við það, að ég hygg....










Kirkjan var köld og ókynt að sjá, þó voru í henni ofnar og líklega er haldið frostfríu yfir harðasta veturinn. Þetta er hefðbundin sveitakirkja, í prýðilegu standi að sjá. Þó var farið að sjá eilítið á gluggum.







Frá Breiðabólstað héldum við áfram út með Vesturhópsvatni vestanverðu og handan vatns blasti Borgarvirki við:





Fyrir u.þ.b. miðju vatni vestantil er býlið Klambrar. Kortið okkar sagði raunar "Klömbur" en mér finnst hyggilegt að treysta vegskiltinu því ég efa að sá eða þeir sem lögðu stórfé í endurbyggingu íbúðarhússins létu sér líka vegskilti með rangri áletrun. Húsið virðist vera hlaðið úr tilhöggnu grjóti og er afar glæsilegt - og þá má geta sér til um hvort ekki hafi verið auður í búi þegar það var byggt, á tímum torf-og timburkofa. Sjá nánar HÉR:







Niður gilið rennur Klambraá (skv. kortinu) en dalurinn heitir Ormsdalur og utarlega í honum á hægri hönd mun hafa staðið landnámsbýlið Ormsstaðir, sjá HÉR:





Þá var loks komið að Þverárbæjum og Þverárrétt. Við lögðum ferðadrekanum við réttina og settum taum á Bassa enda hefur áhugi hans á kindum verði tíundaður fyrr og ekki alltaf að góðu. Bassa lá hér áður fyrr hreinlega við hjartaáfalli ef kindur voru annars vegar en eitthvað breyttist þegar ég fór með hann inn í fjárhús austur í Hrífunesi og leyfði honum að skoða kindur að vild. Það var eins og fjöldinn yrði honum um megn, hann varð gjörsamlega stjarfur og stífur þar sem hann stóð á afturfótunum við grindurnar og teygði trýnið inn á milli. Svo stífur var hann að bæði kindur og lömb sem höfðu hörfað yfir í hinn enda hússins þegar bandóður hundurinn birtist, voru farin að koma til baka hægt og hægt. Það bar jafnvel á því að huguðustu lömbin voru farin að reka snoppuna í trýnið á þesu einkennilega, gráa lambi handan rimlanna. Eftir þetta var eins og Bassi væri slakari gagnvart kindum. Þegar ég missti hann í kindahóp úti á Vatnsnesi í fyrri ferð og bjóst við að nú væri hann - ásamt kindahópnum - að eilífu glataður þá hætti hann fljótlega að elta og lét nægja að gelta! Þannig náði ég honum strax, nokkuð sem fyrir fimm árum hefði verið ómögulegt.

Nú var Bassi kynntur fyrir fleiri húnvetnskum "dömum" og þá brá svo við að hann lét sér fátt um finnast og sneri sér að öðrum áhugamálum:







Líklega hefur nú einhvern tíma verið smalað fleira fé á þessum slóðum. Allt er í heiminum hverfult......








 Að neðan  er horft frá Þverárrétt til austurs, yfir í mynni Vatnsdals. Í forgrunni er eyðibýlið Syðri  - Þverá:






Frá Þverárrétt ókum við út að mótum vegar 717 við Þorfinnsstaði. Þar beygðum við til hægri (austurs) inn á 717 og ókum hjá Vatnsenda og út undir Gottorp. Við ókum niður afleggjara að eyðibýlinu Ásbjarnarnesi en snerum við túnhliðið. Svo var haldið til baka að vegamótum við Þorfinnsstaði. Það er lítil reisn yfir Þorfinnsstöðum núna og ekki að sjá þar neina búsetu. Jörðin var auglýst til sölu nýlega en virðist ekki vera  það ekki lengur. M.a. er frekar stórt skólahús á jörðinni sem undanskilið var sölu en kynnt sem hótel. Skóli er aflagður að Þorfinnsstöðum fyrir nokkru en húsið hefur að sönnu verið notað sem hótel. Ekki var þó neina drift að sjá í þetta sinn og hótelið jafnmannlaust sem önnur hús. 

Að Þorfinnsstöðum var hún Rósa amma mín blessunin, fædd og víðar bjó hún á Vatnsnesinu áður en hún fluttist vestur í Hnífsdal og síðar að Stakkanesi við Skutulsfjörð. Trúlega hefur húskosturinn verið nokkuð öðruvísi um það leyti sem amma fæddist, árið 1886.

Við héldum áfram  för og næsti viðkomustaður var kirkjujörðin Vesturhópshólar.





Það var komið fram um kvöldmat þegar við  renndum heim á hlað við Vesturhópshóla. Heima við var fólk og ég lagði ferðadrekanum og gekk til húss til að fá "kirkjuleyfi". Ég átti skammt farið að dyrunum þegar þær opnuðust og út skældist maður með hönd á hjartastað. Hann bar sig eins illa og hann best gat og stundi: "Ég ætlaði einmitt að fara að hringja á þig. Ég er nefnilega alveg að fá hjartaáfall!"  Svo hló hann sig máttlausan....

Ég sagði honum að hann væri heppinn því þessa helgi væri tilboð á sjúkraflutningum, tveir fyrir einn. Enginn vildi fylgja honum á spítalann svo hann afþakkaði gott tilboð og lánaði okkur kirkjulykilinn með breiðu brosi. Það var sannarlega ekkert að hjartanu í þessum manni....





Kirkjugarðshliðið er óvenju veglegt og minnir helst á garðshlið Landakirkju í Eyjum. Efst í innhlið þess er steypt ártalið 1928:





Kirkjan sjálf er látlaus og að sjá í góðu standi. Líkt og að Breiðabólstað var hún köld og ókynt en rafmagnsofnar neðst á útveggjum. Væntanlega er haldið frostfríu harðasta veturinn enda varla þörf á meiru til að forðast rakaskemmdir.

Á vefnum Kirkjukort.net. er að finna ágætar upplýsingar um Vesturhópshólakirkju.











Ég reyndi að rýna eftir áletrun á klukkunum, Eitthvað sá ég en ekki nægilega læsilegt:





Við skiluðum svo kirkjulyklinum, þökkuðum fyrir okkur og héldum áfram áleiðis norður með vatni. Elínu Huld langaði að skoða Hvítserk á þurru og nú var stórstraumsfjara. Á leið úteftir er ekið hjá býlinu Kistu, þar sem aðallega virðist stundaður brotajárnsbúskapur og nafni býlisins myndi hæfa viðeigandi forskeyti (sem aðrir mega setja í samhengi)







Rétt var það, Hvítserkur stóð alveg á þurru og vel var gengt út að honum. EH fannst hins vegar bæði kalt og hvasst þótt hún reyndi að bera sig vel í myndatökunum:







Nú var eiginlegri dagsáætlun lokið og aðeins eftir að koma sér til Hvammstanga þar sem útilegukorts - tjaldsvæðið beið okkar.  Þegar við fórum yfir kortið sáum við að trúlega yrði einfaldast að ljúka Vatnsneshringnum í stað þess að aka til baka inn í Línakradal og eftir þjóðvegi eitt. Við héldum því einfaldlega áfram út hjá Súluvöllum, Valdalæk (en á báðum stöðum hafði skyldfólk Rósu ömmu búið) og fyrir nes að Hindisvík.  Þar var landið opið öllum áður fyrr og fært niður í fjöru enda er við Hindisvík eitt stærsta selalátur á þessum slóðum og erlendir ferðamenn sóttu mjög í að skoða það. Nú hefur öllu hins vegar verið lokað og umferð um svæðið bönnuð í verndarskyni. Það hefði þá einnig verið í lagi að leggja eitthvað til verndar þeim gömlu húsum sem sr. Sigurður Norland lét byggja á sínum tíma, þegar hann hugðist gera Hindisvík að þorpi.





Innan og sunnan við Hindisvík er býlið Saurbær. Ekki er annað að sjá en að þar sé búið myndarbúi. Litlu sunnan við Saurbæ eru rústir torfbæjar undir lágri hlíð.  Þar lá þriðja ástæðan sem togaði á Vatnsnesið og nefnd var í upphafi. Þetta voru Flatnefsstaðir.





Jói frændi, föðurbróðir minn var einstakur maður, barngóður, hjálpsamur og mátti ekkert aumt vita. Myndin er, eins og sjá má, af afmælisgrein sem birtist í dagblaði þann 8. janúar 1988. Jóa frænda varð ekki lengra lífs auðið, hann lést þann 2. júlí sama ár eftir áfall en var heilsuhraustur fram að því. Það voru ekki skrifaðar langar greinar þegar  Jói kvaddi en minningin lifir.

Mig hafði langað til að finna Flatnefsstaði, bjóst raunar ekki við öðru en tóftum en hafði svo sem enga vitneskju. Nú voru þeir fundnir en því miður var myrkur að skella á og því ekki tök á að skoða bæinn, eða það sem eftir var af honum. Það kemur sumar eftir þetta.......


Það var komið myrkur þegar við komum að Hamarsrétt og rétt grillti í hana undir klettunum. Við gerðum margar tilraunir til myndatöku sem allar mistókust nema þessi, þegar búið var að slökkva á flassi og stilla myndavélinni upp á fastan punkt. Þetta tekst stundum og stundum ekki, sbr. myndina af Stakkanesinu í Stykkishólmshöfn sem birtist í síðasta pistli. Í þremur hólfum voru kindur sem biðu morgundagsins, vatnslausar í skítakulda. Ég fór að velta því fyrir mér í framhaldinu hvort fé væri aldrei gefið að drekka í réttum, þegar það kæmi hlaupamótt og örþreytt af fjalli. Ég hef aldrei séð það gert..........Nú áttu þessar kindur nótt í vændum í kulda og rekju og síðan væntanlega flutning að morgni. Allt án þess að komast í vatn?







Það var komið svartamyrkur þegar við renndum inn á tjaldsvæðið í Kirkjuhvammi ofan Hvammstanga. Fyrir á svæðinu voru nokkrar hræður, ýmist í tjöldum eða á svona "Happy-camper" ferðasmábílum. Við lögðum bílnum nærri þjónustuhúsinu, tókum út gasgrillið og grilluðum lærissneiðar við handlukt því engin voru útiljósin. Svo var inniserían hengd upp og allt gert til að hafa kvöldið sem notalegast enda fór í hönd síðasta nótt ársins í ferðadrekanum. Hans tími þetta árið var að líða og þar með eitt stærsta og stórkostlegasta ferðasumar okkar frá upphafi. Að öðrum ólöstuðum telur Færeyjaferðin þar þyngst......


Það rigndi hressilega um nóttina í kröftugum vindrokum. Það var svo sem ekkert sem rak okkur á fætur svo klukkan var líklega um ellefu á sunnudagsmorgni þegar við tókum saman okkar föggur og héldum í sundlaugina. Með morgninum dró talsvert úr veðrinu og það var skaplegasta veður í sundlauginni. Eftir klukkutíma pottlegu skelltum við okkur í kaffi í söluskálann Hörpu, sem eitt sinn var Shellskálinn. Þar lentum við á enn betra spjalli en daginn áður og fórum af bæ miklum mun fróðari um byggðarlagið og allt gengi þess. 

Að síðustu tókum við einn eða tvo hringi um bæinn. Hér er horft yfir smákofana á tjaldsvæðinu, flestir eða allir voru byggðir erlendu starfsfólki sláturhússins, sem auðvitað var á fullu þessa dagana:





Utan við bílskúr í bænum stóð gömul dráttarvél með þessari skemmtilegu útfærslu af húsi - eins konar "high-roof"





Inn við vegamót hringvegarins stóðu myndarleg og broshýr skötuhjú og buðu ferðamenn velkomna til Hvammstanga:





Við vorum ekki alveg tilbúin í heimferð - það fylgir þvi alltaf ákveðin tregða að ljúka ferðalagi og taka strikið heim. Þess vegna reynir maður alltaf að "gera eitthvað" úr heimferðinni, jafnvel þótt ekið sé um margtroðnar slóðir. Þetta á ekki síst við þegar maður er í síðustu ferð sumarsins og vill gera sem mest úr öllu. Þegar við komum að Staðarskála, og þrátt fyrir að veðrið væri að taka sig upp aftur, ákváðum við að renna út á Borðeyri og taka einn hring þar. Á leiðinni var skipt um fararstjóra, EH þurfti að bregða sér afturí á keyrslunni og þá var ekki beðið boðanna að stela sætinu:





Það blés hressilega á Borðeyri, svo mikið að sjórinn rauk yfir eyrina.





Þess vegna er kannski ekki skrýtið að gamli þúfnabaninn sé orðinn brúnn af ryði. Hann er búinn að standa þarna allmörg ár og það er til marks um hversu betra efnið var í "gamla daga" að hann skuli ekki vera horfinn með öllu.





Það blés á móti yfir Holtavörðuheiðina en við höfðum hestöflin með okkur og urðum lítt vör við rokið. Í kaffispjallinu á Hvammstanga kom fram að varað væri við ferðum um Kjalarnes og undir Hafnarfjalli þar sem hviður færu í fjörutíu metra. Okkur varð hugsað til félaga okkar í Húsbílafélaginu, sem höfðu safnast saman að Varmalandi í Borgarfirði og áttu nú heimferð fyrir höndum. Þegar suður í Borgarfjörð kom var það eitt okkar fyrsta verk að renna niður að Varmalandi og kíkja á hópinn. Þar voru þá aðeins þrír bílar eftir af nokkrum tugum og okkur sýndist þeir allir vera að ferðbúast. Okkur fannst ótrúlegt að allur flotinn hefði lagt í Hafnarfjallið í rokinu og því líklegra að einhverjir hefðu farið heim áður en veður skall á. Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur heim eins og fram kom áður, og reyndum að teygja ferðalagið sem mest. Einn var sá staður í nágrenninu sem mig hafði lengi langað að koma á en ekki orðið úr. Það var kirkjustaðurinn Stafholt. Kirkjan og bæjarhúsin blasa við þegar ekið er um þjóðveg eitt í Borgarfirði  og afleggjarinn þangað niðureftir er ekki langur. Samt hafði ég aldrei látið verða af heimsókn. Nú var tíminn og við renndum niður að Stafholti.







Kirkjan var læst og við vildum ekki trufla fólk heima á bæ enda komið fram um matmálstíma. Ég notaði því gamla og góða aðferð við að sjá það helsta inanndyra og lagði linsuna á gluggarúður.







Kirkjan í Stafholti leynir á sér því hún er mun stærri en virðist vera, vegna breiddarinnar. Hún er einnig dálítið sérkennileg innan vegna sköpulagsins, því bekkirnir ná rétt inn í miðja kirkju. Altarið er á upphækkun og þessi upphækkun er rétt tæpur helmingur af flatarmálinu, sýndist okkur. Vegna breiddar kirkjunnar voru bekkirnir hins vegar óvenjulega langir og sætafjölda náð þannig. Þá er afar sérstök hringhvelfing yfir kórnum. Sjá allar nánari upplýsingar um kirkjuna á kirkjukort.net. 





Kirkjugarðurinn er allstór að flatarmáli og hluti hans mjög gamall, enda á kirkjustaðurinn sér aldagamla sögu. Nokkuð er um liggjandi stuðlabergssúlur sem legsteina, líkt og við tókum eftir og mynduðum að Hvammi í Norðurárdal, og minnst var á í fyrsta hluta "Dalir og heiðar"





Bæjarstæðið er með þeim glæsilegustu enda blasir það við úr öllum áttum:





Sá hluti Stafholtstungna sem sjálfur kirkjustaðurinn stendur á heitir Miðtunga og er landmikill rani sem gengur niður milli Norðurár og Hvítár. Neðst í þessum rana er býlið Flóðatangi og nafnið gefur ákveðna hugmynd um glímu við vötn í vexti. Neðan við Flóðatanga sameinast árnar og er þá örstutt niður að gömlu bogabrúnni yfir Hvítá en á þeim stutta kafla sameinast Grímsá hinum tveimur úr austri. Við ókum niður að Flóðatanga og snerum þar, síðan til baka um Deildartungu, Kleppjárnsreyki og Fossatún en beygðum af leið rétt þar neðar og ókum meðfram Grímsá að Hvítárvöllum. Vegnúmerið til Hvanneyrar vakti athygli, svona vegnúmer hef ég ekki séð fyrr og þarna hefur eitthvað breyst sem þarf að kanna betur.....





Síðasta myndin í pistlinum er svo tekin af Hvítárbrúnni út um framrúðuna, eins og sést. Hægt er að aka tvær leiðir út á þjóðveg eitt, við völdum þá nyrðri og komum inn á þjóðveginn skammt frá Gufuá.





Þegar í Borgarnes kom var stór hluti húsbílaflotans frá Varmalandi þar saman kominn og beið af sér veður. Eitthvað var það þó farið að ganga niður því meðan við snæddum langþráðan kvöldmat í Grilli-66, sem er jafn fastur viðkomustaður og Geirabakarí, sáum við svona pappakassa-húsbíl af stærri gerðinni koma siglandi sunnan að, undir Hafnarfjalli og í Borgarnes. Hann sameinaðist svo hópnum sem fyrir var.

Við lögðum á Hafnarfjallið eftir kvöldmat, víst var hann hvass en ekki til trafala og við komum heim í Höfðaborg á miðju kvöldi sunnudagsins 14. september. Tveimur dögum síðar voru númer ferðdrekans lögð inn til vetrargeymslu og tekið til við að undirbúa Stykkishólmsferð þann 24. sl. - ferðina sem tíunduð er hér neðar.

........og þó að númer ferðadrekans séu komin í vetrargeymslu og Stakkanesið lagst í vetrarhíði, segir þá einhver að öllum ferðum sé lokið?

.......ekki aldeilis!


.............................................................................

Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar