Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


02.10.2014 20:00

Sunnudagur í Hólminum - seinni hluti.


Á ákveðinn máta - ekki endilega hávaðasaman en mjög, mjög ákveðinn máta - var ég minntur á að í fyrri hluta láðist mér að birta myndir af háseta á stýrisvakt. Myndin er tekin rétt áður en við renndum inn á sundið milli Bíldseyjar og Skjaldareyjar, hásetinn hafði fengið uppgefið kompásstrikið og fylgist nákvæmlega með eins og sjá má. Ákveðið kompásstrik virðist kannski ekki skipta máli þegar siglt er um - að því er virðist - hreinan sjó með landsýn til allra átta en ég hafði aulast til að benda henni á stjörnu framundan í sjókortinu og það sem enn verra var - ég hafði líka aulast til að segja henni að stjarnan þýddi sker og því skipti dálitlu máli að halda strikinu framhjá því. Stórskipið Stakkanes er ekki með ratt eins og önnur stórskip heldur kennir skyldleika við smærri fleytur og stýrið er sveif. Þegar fólk er ekki vant því að halda um stýrissveif á báti vilja einföldustu hlutir flækjast, stjór verður bak og öfugt......það fór því svo að eftir litla stund yfirgaf háseti á stýrisvakt stöðu sína með óeftirhafanlegum yfirlýsingum og seldi líf sitt í hendur skipstjóra ( því miður réttindalausum en það fer aldrei hátt).

Ég efast raunar um að ég fái þökk fyrir ofanritað enda átti ég að birta myndina með hrósi fyrir einstaka stjórnarhæfileika. Maður á samt alltaf að segja satt - jafnvel þótt maður fái kannski bágt fyrir......




Þegar fyrri hluta lauk vorum við komin inn fyrir taglið NA úr Skoreyjum og Hannes Andrésson SH sigldi sína leið. Stefnan var tekin milli Seleyjar og Fagureyjar, Hvítabjarnarey og Byrgisklettur sigu afturfyrir og eru þar með úr sögunni, eins og stundum er sagt.





Framundan eru svo ný og ókönnuð eylönd - eða þannig. Svona horfði Seley við okkur, dökk eins og himinninn yfir henni. Reyndar er það aðeins birtan sem gerir Seley dökka á myndinni. Hún var miklu bjartari yfirlitum hinumegin.





Í sundinu milli eyjanna tveggja er ákaflega fallegt stuðlaberg. Sundið er frekar þröngt og ég hafði velt fyrir mér áður hvort hægt væri að sigla það. Fyrr á þessum sunnudagsmorgni stóð ég við gluggann hjá Gunnlaugi og Löllu uppi á Skólastíg og velti fyrir mér vænlegri siglingaleið dagsins. Þá kom tvíbytnan Særún siglandi með landinu full af túristum og tók strikið gegnum sundið. Þar með var það ljóst.......







Það hallast ekkert á með Fagurey og Seley - stuðlabergið ar jafnflott beggja megin, enda er þetta í grunninn sama eyjan og aðeins skarð á milli.





Kannski ég setji núna inn kortaklippuna sem ég bjó til, til glöggvunar fyrir þá sem enn nenna að skoða síðuna:





Við skriðum gegnum sundið á 9-11 mtr. dýpi og þegar komið var suður fyrir Seley var enn þokkalega djúpt. Stefnan var tekin austur með eynni í átt að Skákarey. Myndin hér að neðan er tekin yfir bb.borðstokkinn til norðausturs yfir Seley:





Þegar tvíbytnan fer þarna inneftir er tilgangurinn yfirleitt sá að sýna ferðamönnum þennan sérstaka helli sunnan í Seley - og víst er hann skoðunarverður:





Skákarey er framundan, það sér til húsa og hann sést líka vel, straumbeljandinn fram úr Stapastraumnum og Mannabana, milli Öffurseyjar og Akureyjar, ef ég styðst við nöfnin á kortinu hér ofar. Örnefnakortið í Árbók F.Í. ´89 er skýrara....





Komin nær lendingu í Skákarey og inn fyrir sterkasta strauminn. Þarna var kúplað frá og látið reka um stund. Við fylgdumst með þaraflækjum og fleiru sem þeyttist áfram út úr sundum og álum á ótrúlegum hraða. Stakkanesið rak ekki mikið, snerist aðallega í hringi því við vorum í hléi við strengina....





Horft inn í Stapastraum þar sem sjórinn beljaði fram eins og fljót. Á kortinu hér ofar er Stapastraumur teiknaður innan við Stapana og snýr SV/NA en á örnefnakorti í áðurnefndri árbók F.Í. snýr hann NV/SA, rétt eins og rauða siglingaleiðin okkar og eins og myndin horfir. Ég bar þetta undir mér kunnugri menn sem sögðu örnefnakortið réttara. Þess vegna má endurtaka: "Horft inn í Stapastraum...."





Hér að neðan er horft í suður, í átt til Helgafells og þegar myndin er stækkuð má greina kirkjuturninn við jaðar fjallsins vinstra megin. Húsið sem sést á myndinni er að öllum líkindum í Örfirisey -  sem á kortinu ofar er kölluð Öffursey:





Þegar við höfðum fengið nóg af hringsnúningi lögðum við af stað til baka og fórum hægt. Á milli Skákareyjar og Seleyjar eru hólmar sem bera sérkennileg nöfn, eins og Írland og Hundshausar. Á myndinni að neðan ber Írland í Seley lengst til hægri en til vinstri rennur Fagurey saman við Seley:





Þarna í sundinu sigldum við yfir flúð og dýptarmælirinn teiknaði lóðrétt strik úr sjö metra dýpi í tæpa þrjá. Það var í góðu lagi því klukkan var að detta í þrjú og liggjandinn átti að vera kl. 15:10. Það var nokkuð klárt að ekki myndi grynnka mikið meira og að flúðin væri slétt - á innan við þriggja metra dýpi hefði steinn á henni gert straumrák....Það er því eðlilegt að ekki sé beinlínis áhyggjusvipur á kafteininum þegar allt leggst á eitt: Veðurblíða, einstaklega fallegt umhverfi og tilhugsunin um steik að kvöldi...( ja, maður segir svona....)





Stapastraumur að baki:





Við sigldum áleiðis út í Hólm, meðfram Seley og Fagurey, sunnan við hólmaklasa sem heitir Klofningar, sunnan við hólmann Eyjargafl við suðurenda Skoreyja og loks í skánorður upp með Skoreyjum sjálfum. Við Eyjargafl var stífur straumbeljandi út sundin þótt klukkan væri nákvæmlega 15:10 og því kominn reiknaður liggjandi. Straumarnir kunna hins vegar ekki á klukku og halda því áfram að belja meðan enn er til efni í þá. Það er ekki fyrr en talsvert löngu síðar sem aðfallið utan úr Breiðafirði mætir þeim, segir "Hingað og ekki lengra" og snýr þeim svo við inneftir aftur.Þannig hefur það ætíð verið og þannig verður það meðan jörðin snýst. Eilíf hringrás lífsins......

Skoreyjar eru tvær en þó samt ein eyja. Á milli er aðeins þröngt sund sem þornar um fjöru og flýtur aðeins um háflóð. Við sundið vestanvert er vogur og við voginn er sumarhús. Mig langði að vita hversu langt flyti inn á voginn. Stapinn til hægri markar syðra hornið:








Það var fjara og þó flaut alla leið inn í vogsbotn:





Horft í skarðið sem skilur eyjarnar að. Það má mikið vera ef ég á ekki eftir að reyna þetta á flóði:





Í vestrinu lá Hesthöfði, í loftinu vindaský og á milli var Baldur að fara sína fyrstu Brjánslækjarferð eftir Vestmannaeyjaveruna. Ef allar áætlanir hefðu gengið upp hefði Baldur ekki farið þessa ferð því nýja ferjan hefði þá verið komin. Býrókratíið lætur hins vegar ekki að sér hæða og blýantsnagarar aka sér í skrifborðsstólunum þegar hægt er að tefja einhver mál svo að þeir finni örlítið til eigin mikilvægis. Stundum þarf kerfið svo mikið að "fjalla" um mál og svo mikinn tíma til að "fjalla" um þau að spurning vaknar um hvort ekki sé rétt að reka allt heila helvítis blýantsnagarasafnið á fjöll og leyfa því að fjalla þar dálitla stund um allt mögulegt og ómögulegt.....

Ef einhver leggur kollhúfur yfir þessum reiðilestri þá vil ég að fram komi að ferjan sem á að leysa Baldur af og kerfið hefur dregið lappirnar útaf er smíðuð í Noregi. Stakkanesið er líka smíðað í Noregi. Eigum við að ræða það frekar?





Þegar við Gunnlaugur Valdimarsson Rúfeyingur með meiru vorum á kvöldsiglingu við Skoreyjar um daginn benti hann mér á Hildarboða skammt norðan við Bauluhólma og sagði mér að ef ég vildi sigla á milli skyldi ég vera sem næst Bauluhólmanum. Við fórum á milli og af bendingum hans mátti ráða að ég væri alltaf of nálægt Hildarboða. Það var reyndar af ásettu ráði því ég vildi skoða hvernig grynningin kringum hann liti út. Gulli er ekkert vanur að nota dýptarmæli þarna - hann veit bara af gamalli reynslu, eigin og annarra að sundið er öruggt næst Bauluhólma og óþarfi að freista gæfunnar með því að fara aðra leið. Mér er hins vegar forvitnin eðlislæg auk þess sem ég treysti átta millimetra ryðfría kjöldraginu undir Stakkanesinu. Það reyndi ekki á það en munaði þó litlu því botninn reis nær lóðrétt úr sautján metrum í þrjá! Siðan í sama falli aftur niður á sautján.

Ég fór sömu leið í þetta sinn en minnugur þess hvernig var að horfa á lóðréttan vegg birtast á skjá mælisins og ónotanna sem fylgdu því að vita ekki hversu hár sá veggur væri, þá fór ég nú ívið nær Bauluhólma. Nú var raunar meiri fjara en síðast og þegar ég sá botninn byrja að rísa beygði ég ennþá nær. Samt reis sami veggur og ég var við það að skipta í bakk þegar hann endaði í tveggja metra dýpi. Svo lóðrétt fall aftur. Við vorum komin  hálfa leið út að Súgandisey þegar ég áttaði mig á að gaman hefði verið að snúa við,sigla aftur yfir grynninguna og taka vídeó með myndavélinni af dýptarmælinum. U.þ.b. jafnskjótt áttaði ég mig á að líklega þætti engum þetta merkilegt nema mér....

Síðustu metrana sigldum við á hálfri ferð og nutum útiverunnar því veðurspáin hafði fullvissað okkur um að þetta væri síðasta sigling Stakkanessins í sumar.






Illviðrið sem spáð hafði verið síðla sunnudags lét þó bíða eftir sér. Um kvöldið gerði stafalogn og þá var tækifærið notað til að kveikja á seríunni og mynda. Því miður er myndavélinni minni ekki gefið að taka skýrar myndir í lítilli birtu. Þetta er ekki kunnáttuleysi því eins og ég hef margsagt tekur EH miklu betri myndir en ég og hún hefur stúderað þennan vélarræfil eftir bestu getu. Hún gerði sitt besta og tók um 20 myndir. Ég valdi þessa úr þeim skástu:





Mánudagsmorguninn 29. sept sl. rann upp og þá sveik stormspáin ekki. Svo furðulega vildi hins vegar til að meðan ég var að sýsla við að taka Stakkanesið upp og ganga frá því fyrir veturinn, dúraði og datt í þetta fína veður. Svo hvasst var úti í höfn þegar ég lagði frá að báturinn lagðist undan vindinum og Landeyjarsundið var vandfarið vegna stöðugs hliðarreks. Svo, eins og ýtt væri á rofa, datt niður vindur og um leið hætti rigningin að mestu. Það örlaði á sólarglampa meðan ég tók tækin og rafgeymana úr stýrishúsinu, björgunarbátinn úr hólfinu sínu, björgunarhringinn af þakinu og stóra akkerið af hvalbaknum. Annað smálegt var tínt úr og að lokum var landbáturinn Fagranes strappaður fastur þversum ofan á borðstokkana. Þar með var allt klárt fyrir einn loka - kaffibolla hjá Gulla og Löllu. Svo var kvatt og lagt af stað suður. Ég var kominn sirka fjóra kílómetra þegar stormurinn kom úr hádegismat, tvíefldur.

Það varð ekki langt, þetta sumarið hjá Stakkanesinu - aðeins þrjár, stuttar viðverur í Hólminum, sú fyrsta á verslunarmannahelgi og sú síðasta nú, þegar aðeins gaf á sjó einn dag. Fram að verslunarmannahelgi var báturinn á landi í Reykjavík og beið eftir að drengurinn hjá Skipaþjónustu Íslands hefði samband vegna bryggjuplássins í Grafarvogi. Hann var á fundi í apríllok þegar ég hringdi í hann og lofaði að hafa samband að honum loknum. Það gerðist ekki og því fór sem fór. Allt var þetta raunar komið fram áður en stendur engu að síður óbreytt.




Það er annar október og það rignir í Reykjavík. Ekki óvanalegt og satt að segja bara hálf heimilislegt. Það hefur verið lítið um sól úti og því er heldur ekki sól inni. Börnin á leikskólunum syngja "Sól í hjarta, sól í sinni..."

..................og ég tek undir.


------------------------------





Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar