Er í Hólminum og það rignir. Hreinlega rignir og rignir.....og blæs!
S.s. Stakkanes er komið á flot, var reyndar sjósett í gærmorgun, miðvikudag, á morgunflóði klukkan sjö - þ.e. morgunflóðið var kl. sjö en ég fór frá Reykjavík rétt fyrir hálfsjö og það var því talsvert farið að falla út þegar ég kom uppeftir. Ég hafði ekki látið vita af mér né boðað komu og það var enginn tími til slíks. Það eitt gilti að vera handfljótur og láta veðrið ekki trufla sig. Það var raunar hvorki sérlega blautt né sérlega hvasst þennan klukkutíma sem tók mig að gera allt klárt og sjósetja og þar sem frekar hátt stóð á sjó var Landeyjarsundið enn fært litlum báti. Ég þurfti því ekki að sigla út fyrir Landey eins og ég hafði hálft í hvoru búist við, þar var leiðinda sjógangur og gott að sleppa við það. Báturinn var svo bundinn við bryggju úti í höfn og ég plampaði á gúmmístígvélunum alla leið inní Skipavík til að ganga frá bátavagninum og sækja bílinn.
Það var dálítið athyglisvert að menn ýmist óku eða gengu hreinlega í kringum mann til að fylgjast sem nákvæmast með öllum aðgerðum en enginn þeirra yrti á mig. Sami maðurinn fylgdist nákvæmlega með í Skipavík, undirbúningnum, sjósetningunni, færði sig svo út á Reitaveginn til að fylgjast með siglingunni um sundið, á höfnina til að fylgjast með bindingum og frágangi og lagði bílnum þvert fyrir ofan landganginn til að fylgjast sem nákvæmast með göngulaginu mínu þegar ég gekk upp af bryggjunni. Hann fylgdi mér síðan í humátt inn að Skipavík og var fyrsti maður sem ég sá þegar ég kom þangað eftir tuttugu mínútna göngu á gúmmístígvélum. Ég á greinilega leynivin - sem er þó ekkert um að bjóða mönnum í stígvélum bílfar í rigningu..........
Eftir þessa dagskrá tóku við hefðbundin atriði - kaffi hjá Gulla og Löllu, heiti potturinn í rúma tvo tíma, innflutningur á Borgabrautina, matarinnkaup í Bónus, ofl.
Eitt má ég þó nefna. Meðan ég þambaði kaffi hjá Gulla hringdi fjölskyldumeðlimur og bað um aðstoð. Hann var (og er) skipverji á báti sem staddur er hér í Hólminum í sérverkefnum og átti erindi inn fyrir Suðureyjar (Hvammsfjarðareyjar) Leiðin er ákaflega vandrötuð en Gunnlaugur er þrautkunnugur og var kallaður niður í bát til að sýna mönnum það sem helst bæri að varast innan um hólma, sker og harða strauma. Það var hátt niður í bátinn því talsvert var fallið út og mér leist ekki á blikuna þegar Gulli, á áttugasta og áttunda aldursári hóf að klifra niður lóðréttan bryggjustigann. Hann leysti það þó sá gamli, tók sér stöðu við tölvuskjáina í brúnni og benti með fingri á þær leiðir sem hann taldi vænlegastar. Klifraði svo stigann upp á bryggjuna eins og tvítugur. Það var ekki fyrr en heim var komið sem ég sá á honum þreytu............viljinn var langt umfram líkamsburðina og þegar eitthvað kemur upp sem snertir veiðar eða siglingar þá logar áhuginn svo að allt annað gleymist.
Eitt vil ég benda á: Í tenglaröndina hér til hægri hef ég sett nýjan tengil á Færeyjaferðina í sumar. Pistlarnir voru skrifaðir í bland við annað efni og því dálítið ruglingslegt að finna þá aftur í réttri röð ef einhver vill lesa betur. Þessvegna raðaði ég pistlunum upp í rétta röð undir nafninu "Færeyjar 2014" Þetta hyggst ég gera framvegis þegar langir ferðapistlar birtast í tveimur eða fleiri hlutum........
Ég er semsagt hér í Stykkishólmi, einn - allavega ennþá - en umvafinn góðu fólki. Það er kominn fimmtudagur, blautt og hvasst og ekki sjóveður fyrir Stakkanesið - þótt það sé stórskip! Það liggur því beinast við að ljúka skrifum á þriðja hluta "Dala og heiða" og það ætla ég að gera í dag.........