Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.09.2014 14:00

Heim frá Færeyjum - 12. og síðasti hluti ferðasögu


 Ellefta hluta lauk í rigningarúða undir nótt á Raufarhöfn.  Um nóttina rigndi líkt og hellt væri úr fötu, og svo kröftug var rigningin að undir morgun var ég sannfærður um að toppur ferðadrekans hlyti hreinlega að vera beyglaður eftir barninginn. Mínar áhyggjur hlutu þó að vega létt móti þeirra, sem voru í tjöldum kringum okkur - ég hefði ekki viljað vera í þeirra sporum. 

Þegar morgnaði leyfðum við okkur að liggja dálítið lengur en vant var, vitandi að úti væri allt rennblautt þótt dregið hefði verulega úr sjálfri úrkomunni. Við heyrðum hark kringum okkur og greinilega voru einhverjir að pakka blautum ferðabúnaði. Smám saman birti í lofti (enda hafði spáin gengið á þann veg) og þegar við loks rákum út nef var farið að örla á sólargeislum. Grasið var þó rennblautt og Sulta, sem hafði kvöldið áður fengið að létta á sér í grenndinni með rautt snæri um hálsinn, harðneitaði nú að labba eitt einasta fet, þrátt fyrir að við reyndum að leiða henni fyrir sjónir hversu indælt það væri nú að létta á sér eftir nóttina. Rökræður við kött eru fyrirfram vonlausar eins og þeir vita sem reynt hafa.

Gúmmístígvélin okkar voru aftarlega í farangurslest drekans og erfitt að ná til þeirra innanfrá svo fyrstu gönguferðir dagsins - að og frá  hreinlætisaðstöðunni - fór ég berfættur. Elín Huld bjó að grænu Crockskónum (þessum frá Vopnafirði) og var vel ferðafær í blautu grasi. Það birti annars ótrúlega hratt og sólargeislarnir voru fljótir að þurrka umhverfið. Um svipað leyti og við lukum okkar morgunverkum og ferðaundirbúningi birtust austurrísku grillfræðingarnir frá Þórshöfn með sinn tjaldvagn og slógu honum upp skammt frá okkur. Okkur þótti dagleiðin stutt enda höfðu þeir náttað á Þórshöfn og enn var stund til hádegis. Svo áttuðum við okkur á skýringunni - auðvitað hafði líka hellirignt á Þórshöfn um nóttina og þeir höfðu aðeins ekið út úr rigningunni til að þurrka vagninn á næsta vænlega stað. Trúlega var svo ætlun þeirra að aka kringum Raufarhöfn meðan vagninn þornaði enda nóg hægt að fara.

Okkur var hinsvegar ekkert að vanbúnaði svo við lögðum af stað frá tjaldsvæðinu og fyrsti ætlaði áfangastaður okkar var kaffi- og handverkshús í aflagðri bensínsjoppu. Þar var auglýstur opnunartími sem við höfðum miðað okkur við en þegar til átti að taka var enginn mættur og allt harðlæst. Það þótti okkur miður því auk þess að fá ekkert almennilegt kaffi tapaðist kannski gagnlegt og skemmtilegt spjall um staðinn sjálfan, mannlíf og menningu.

Ég hafði á orði undir lok ellefta hluta að mér hefði alltaf fundist Raufarhöfn einna fallegastur þeirra þriggja staða sem standa á og við Melrakkasléttuna. Þetta álit er einungis myndað af ljósmyndum því ég var jú að koma þarna í fyrsta sinn og það er talsvert öðruvísi að sjá hlutina með eigin augum en út um flugvélargluggann hans Mats Wibe Lund. Við þessa stuttu dvöl okkar og skoðun á bænum breyttist álitið svo sem ekkert. Þorp er ekki bara hús og því má ekki dæma Raufarhöfn af niðurníddum húsum og fölnandi mannlífi. Þeir hlutir eru sveiflukenndir og það eru ekki nema örfáir áratugir síðan Raufarhöfn var nafli alheimsins - eða a.m.k. þess hluta alheimsins sem snerist um síld. Þá gerðust þarna stórir hlutir og gerðust hratt. Þegar svo síldarlestin fór út af sporinu hvarf athafnalífið að stórum hluta og mannlífið með........

Tengdafaðir minn heitinn, Halldór Viðar Pétursson var víðförull maður enda bryti á millilandaskipum um árabil og síðar á olíuskipinu Stapafelli. Hann kom oft til Raufarhafnar á þeim árum sem mest var þar um að vera og það er merkilegt að jafn orðvar maður og HVP skyldi nota lýsingarorð náskyld þeim sem fram koma í vísunni alkunnu:

Þú ert rassgat Raufarhöfn
rotni, fúli drullupollur.
Andskotinn á engin nöfn
yfir mörg þín forarsöfn.

Þú er versta víti jöfn
viðmótið er kuldahrollur.
Farðu í rassgat Raufarhöfn
rotni, fúli drullupollur.


(þessi kveðskapur er fenginn að láni úr Vísnahorninu - visna.net - en vegna þess að kveðskapur þar er allajafna af tvíræðara taginu þori ég ekki að hlekkja beint á síðuna)

Tilurð vísunnar er útskýrð í Vísnahorninu á þessa leið:

"Erlingur Thoroddsen hótelstjóri vitnar til þess í viðtali  að það eina sem margir viti um tilvist Raufarhafnar sé vísa sem Egill Jónasson, hagyrðingur frá Húsavík, orti um staðinn er hann dvaldi þar um tíma "í síldinni". Þegar ekið var um staði eins og Raufarhöfn með síld á vörubílspöllum fór ekki hjá því að eitthvað af farminum fór til spillis, lenti á götunni, og ef ringningu gerði varð aðkoman ekki glæsileg. Á þeim tíma var ennfremur talið að nóg væri af síld í hafinu og því engin þörf á að hirða allt það sem féll. Síldarverksmiðjan bætti svo um betur, þykkan verksmiðjureykinn lagði yfir þorpið með tilheyrandi "ilmi" sem sat kyrfilega í öllum fötum. Á þessum tíma var öllu vinnufæru fólki haldið að vinnu og enginn tími aflögu til að sinna útliti húsa með málingarpensli eða vera í garðvinnu. Þegar saltað var á plönum á Raufarhöfn voru um 3 þúsund manns á staðnum, eða liðlega sexföld íbúatala staðarins. En þessi umsvif öll voru ein helsta gjaldeyrisöflun þjóðarinniar og þegar best lét fóru um 10% af gjaldeyrisstekjum þjóðarinnar gegnum síldarplön og verksmiðjur á Raufarhöfn.


En Egill Jónasson hefur ekki verið sáttur við ástandið eða umhverfið því kveðskapur hans var "( ofanrituð vísa)

Ekki voru þó allir sáttir við kveðskapinn eins og hér kemur fram:

"Sigurði Árnasyni, sem ólst upp á Oddsstöðum á Sléttu og var útibússtjóri Kaufélags Norður Þingeyinga á Raufarhöfn um árabil, líkaði ekki"umsögn" Egils um staðinn þar sem hann hafði m.a. tekjur sínar og svaraði honum á eftirfarandi hátt:


Þótt Raufarhöfn skorti hinn andlega auð
og enginn sé fegurðarstaður.
Að lasta sitt eigið lifibrauð
er ljótt af þér, aðkomumaður."

...og Egill hefur svarað fyrir sig:

"Ég vinn fyrir matnum á mannlegan hátt
og mun reyna að greið´ann að fullu.
En get ekki lofað þann guðlega mátt
sem gerir allt löðrandi í drullu.

Hve grátlega skammt okkar skynsemi nær
á skilningi og nærgætni töluvert munar.
Ég vissi ekki að drullan þér væri svo kær
og verð því að biðja þig afsökunar."

Ég verð eiginlega, hvað sem allri tvíræðni líður, að setja tengingu yfir á þann hluta Vísnahornsins sem ofanskráð birtist. Öll vegferð manna um þennan vef er að öðru leyti á þeirra eigin ábyrgð! Tengingin er HÉR

Það er við hæfi að kveðja Raufarhöfn og kveðskapinn hér að ofan með kirkjumynd:




.....og svo lá leiðin norður úr þorpinu. Við ætluðum að líta á Heimskautsgerðið sem enn er í byggingu en vegurinn var slæmur og við settum það á "Næsta ferð" listann.



Svo var það Melrakkasléttan sjálf - þessi "langþráði" landshluti sem alltaf hefur á öllum (okkar) þvælingi lent utan leiðar. Þegar sonurinn Arnar Þór ók ísbíl um landið fyrir einhverju síðan fór hann m.a. um Melrakkasléttu. Hann vissi af áhuga mínum á svæðinu og eitt sinn er hann hringdi heim til að láta vita af sér sagði hann: " Þú getur farið glaður í gröfina án þess að aka fyrir Sléttu" - og átti þá við að þar væri bókstaflega ekkert eftirminnilegt nema ónýtir vegir.

.....og nú var ég á leið fyrir Melrakkasléttu. Vissulega var landið flatt og sviplítið, öll býli í eyði þó einhver væru þokkalega útlítandi og nýtt sem sumarhús og vegurinn hundleiðinlegur malarvegur með tilheyrandi ryki og þvottabrettum. Samt var ég ekki sammála Arnari að öllu leyti. Ég er ekki viss um að ég fari fyrir Sléttu í hvert sinn sem ég á leið um norðausturlandið (sem varla verður oft þar sem þetta var í fyrsta skipti og ég nálgast grafarbakkann með hverju árinu sem líður....) en það var nauðsynlegt að vera búinn að fara þetta og geta þá tjáð sig um upplifunina.

Áður en ég sleppi Melrakkasléttu langar mig þó að nefna eitt: Eyðibýlið Skinnalón, sem mun vera eitt mest myndaða eyðibýli landsins ásamt Horni austan Hornafjarðar, virtist vera að taka breytingum því ekki varð betur séð en þar væri bíll heim við bæ og búnaður nokkur. Mér sýndist glampa á nýtt bárujárn á þaki annars hússins svo líklega er verið að taka þar í gegn. Guð láti gott á vita.......

Eftirfarandi texta fann ég svo á netinu eftir dálítið grufl: ( bein slóð er HÉR, etv. dálítið þung en biðarinnar virði)


  • "Hilmar Þór

    Eftirfarandi fróðleik fékk ég frá ágætum lesanda síðunnar:

    ".....En aðalerindið í dag er að upplýsa þig um eyðibýlið á Melrakkasléttu en ég er ættaður úr Norður-Þingeyjarsýslu eins og þú ef til vill veist.

    Mér fróðari menn segja mér að eyðibýlið sem þú birtir mynd af sé Skinnalón. Þaðan eru m.a. ættuð Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, dr. Guðmundur Þorgeirsson fremsti hjartasérfræðingur þjóðarinnar og bróðir hans Gestur Þorgeirsson læknir, Hilmir Jóhannesson leikskáld og trúbadúr á Sauðárkróki en afar og ömmur þessa fólks var fætt í Skinnalóni auk margra annara.

    Margt einstaklega velgefið fólk er ættað frá Skinnalóni. Veit ekki hver teiknaði húsin - því miður.Vona að þetta upplýsi hluta af því sem þú varst að leita eftir."

    Annar sem hafði samband segir að Skinnalón hafi farið í eyði árið 1947 eða fyrir 64 árum."




Áfram hristumst við í rykmekki áleiðis vestur um Melrakkasléttu, framhjá Blikalóni og Sigurðarstöðum. Á hvorugu býlinu virtist föst ábúð lengur enda var búið að segja okkur áður að á Sléttu væri allt í eyði nema Núpskatla á vesturhorninu nærri Rauðanúp. Báðum fyrrnefndum býlum virtist þó haldið við enda hlunnindajarðir og eflaust nýttar semslíkar þótt föst búseta sé af.

Við fórum ekki niður að Núpskötlu og Rauðanúpi. Báðir staðir voru settir á "Næsta ferð" listann enda leið óðum á laugardaginn og okkur bar nauðsyn til að vera í Reykjavík á mánudagsmorgni. Við höfðum sett Ásbyrgi á oddinn ásamt öðrum stað sem enn er ónefndur. Þess vegna ókum við viðstöðulítið að Kópaskeri og áðum þar. Á leiðinni ókum við framhjá stórbýlinu Leirhöfn:




Einhverra hluta vegna voru engar myndir teknar á Kópaskeri en þar verður vonandi bætt úr í "Næstu ferð". Í þorpinu var nýbúið að opna verslun (okkur skildist að þar væri um enduropnun nýrra aðila að ræða) og þar var hægt að fá kaffi og meððí. Búðarhaldari var ákaflega hress maður sem upplýsti okkur fúslega um flest sem við spurðum um. Af því sól skein í heiði settumst við út á stétt þar sem stóðu borð og bekkir, og þar úti fengum við svo svör við enn fleiri spurningum frá manni sem var kallaður Gummi og virtist sjá um frystivélar fyrirtækis á staðnum. Hann var þaulkunnugur mönnum og málefnum og þá einnig harðduglegum Ísfirðingum sem fyrir allmörgum árum fluttust til Kópaskers vegna vinnu. Ekki voru þeir Ísfirðingar þó lengur á staðnum. 

Kópasker kom verulega á óvart. Ég hef skoðað myndir þaðan og lesið einhverja stafkróka um staðinn og í mínum huga var þetta landslagslaus hundsrass þar sem ekkert var við að vera nema vinna og svefn - svona nokkurs konar minni útgáfa af Þórshöfn. Sjaldan hef ég haft jafn rangt fyrir mér!  Við vorum á Kópaskeri í glaðasólskini og hægum vindi, svoleiðis veður er reyndar fallið til að fegra alla hluti en það þurfti ekki veður til að fegra Kópasker - það höfðu íbúarnir sjálfi séð um. Götur voru snyrtilegar, hús vel máluð og almennt í góðri hirðu, fólkið glaðlegt og umhverfið allt annað en mér hafði fundist af myndum. Við EH vorum sammála um að staðurinn byði af sér ágætan þokka (eins og stundum er sagt) og svaraði í fáu ef nokkru til þeirra hugmynda sem við áður höfðum haft.

Áfram héldum við frá Kópaskeri til suðurs og þetta glaðlega "fólk" veifaði til okkar frá nærliggjandi bæjum:






Örlitlu sunnar er kirkjustaðurinn Snartarstaðir, reisulegt býli með fallegri kirkju:



Á sömu slóðum er býlið Garður:



Svo vorum við allt í einu komin að brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum þar sem hún rennur um Ferjuhraun rétt austan Ásbyrgis:



Við höfðum stutta viðdvöl í ferðamannaversluninni við Ásbyrgi. Ferðadrekinn okkar er enn ekki kominn með neinn kælibúnað, hvorki ísskáp né kælibox og þess vegna þurftum við að kaupa alla kælivöru eins stuttu fyrir notkun og mögulegt var. Ekki verður nú sagt að verslunin við Ásbyrgi sé nein Bónusbúð en þar var ágætt úrval og starfsfólkið var allt af vilja gert þegar okkur vantaði snærisbút í tjóður fyrir Sultu. Hún var sultuslök í körfunni sinni að vanda:



Það þarf ekki að skrifa margt um Ásbyrgi. Flestir hafa komið þangað og nú hef ég það líka! Ég kom raunar í Ásbyrgi á árunum uppúr 1970 og mundi eitthvað eftir því en ekki mikið þó. Mér fannst þessvegna ákaflega gaman að koma þangað núna og að veðrið skyldi vera jafngott og það var. Við lögðum bílnum á litlu bílastæði innarlega og gengum frá honum flesta stíga sem hægt var að ganga:





Það var talsvert af fólki á svæðinu og þótt flestir væru útlendingar bar nokkuð á Íslendingum líka. Við komum upp á lítinn útsýnispall þar sem þetta par var fyrir og það þurti ekki mörg tillit til að þekkjast. Að vísu þekktum við ekki dömuna en drenginn því betur. Þarna var kominn Sveinn Gumi Guðmundsson, sonur þeirra Guðmundar og Kolbrúnar sem voru síðustu vitaverðir á Galtarvita vestra og eftir það búsett á Ísafirði um árabil - sannkallað öndvegisfólk. 

Á efri myndinni hér að neðan, sem tekin er að Galtarvita líklega 1993 eða´4 eru f.v. Guðmundur, Kolbrún, Jói á Hanhóli í Bolungarvík, Sveinn Gumi, Siggi bróðir hans og Guðrún Stella Gissurardóttir húsfreyja á Hanhóli. Á neðri myndinni, einnig frá Galtavita en ári síðar eru þau Guðmundur og Kolbrún ásamt Gesti Benediktssyni og Halldóri Antonssyni, báðum frá (og á) Ísafirði. 





 Nú er fjölskyldan búsett á Reyðarfirði og feðgarnir starfa báðir í tengslum við álverið þar. Gumi og vinkonan - sem einnig starfar við álverið - voru í löngu helgarfríi og þá var tækifærið og veðurblíðan notuð til að skreppa bæjarleið:






Myndasmiðurinn Elín Huld reyndi að fanga slútandi björgin á ljósmynd en bæði er að viðmiðunina vantar og svo er erfitt að mynda þegar maður er við það að detta aftur fyrir sig!



Þegar við höfðum skoðað það af Ásbyrgi sem skoða mátti á skömmum tíma var haldið til bíls og reiddur fram kvöldverður. Veðurblíðan hélst og ekki var annað gerandi en að færa borðið út og hafa "pikknikk" Eftir frágang var enn haldið af stað því áfangastaður okkar var frammi í Aðaldal og við vorum þá þegar búin að setja Húsavík á "Næsta ferð" listann - enda nýlega búin að renna þar um, EH sumarið áður og ég í hvítasunnureisunni 2010. Sú ferð var á sínum tíma tíunduð í þremur pistlum sem allir urðu eyðileggingu að bráð þegar 365-Miðlar af höfðingsskap lokuðu tveimur eldri bloggkerfum.

Næsti viðkomustaður okkar var kirkjan að Garði í Kelduhverfi. Hún er dálítið sérstök að gerð og gaman að skoða hana (kíkið á hlekkinn). 








Svo má ég auðvitað til að lauma einni af Sultu:



Býlið að Víkingavatni bar af öðrum í grenndinni fyrir snyrtimennsku, hvert sem litið var:



Áfram héldum við fyrir Tjörnesið og hér að neðan er horft út í Tjörnestá til norðvesturs:



....og þá var komið að hinum staðnum sem "settur var á oddinn" ásamt Ásbyrgi eins og ég nefndi hér ofarlega. Þetta var Hallbjarnarstaðakrókur, undir Hallbjarnarstaðakambi. (eftir að hafa paufast í gegnum þessi tvö nöfn á ég skilið kaffi)

Ég fann athyglisverðan tengil um staðinn HÉR en það gæti þurft dálitla þolinmæði meðan tengillinn hleðst, enda þarf að sækja hann allt aftur til ársins 1926. Ath. að síðan sem birtist er nr. 218 og neðst á henni byrjar umfjöllunin um Hallbjarnarstaðakamb. Síðan þarf að sækja síðu 219 og á að vera nokkuð augljóst.

Aðrir ágætir tenglar eru HÉR og HÉR.  Þá er einnig fjallað nokkuð um staðinn í bókinni " 101 áfangastaður í alfaraleið"

Þetta er afar sérstakur staður. Þarna má lesa drjúgan hluta jarðsögunnar í lögum, þarna var bryggja, útgerð, fiskverkun og fleira. Um árabil hafa mannvirki staðið lítið- eða ónotuð en nú er að verða breyting á. Hallbjarnarstaðakrókur er náttúruparadís, þarna er óendanlega fallegt og ég hika ekki við að fullyrða að þessi blettur sé eitt af best varðveittu leyndarmálum landsins. Þarna koma ekki margir - enn sem komið er - og þeir sem þangað rekast eru líklega flestir áhugamenn um jarðsögu. Sú saga er þó ekki öll geymd í jarðlögum staðarins heldur má í fjörunni innarlega í króknum finna Grænlandsstein, stórt bjarg sem talið er hafa flotið hingað til lands með hafísjaka frá Grænlandi. Einhverra hluta vegna er mun hljóðara um þennan stein en þann Grænlandsstein sem þekktur er norður við Litlu-Ávík á Ströndum en Tjörnessteinninn hlýtur þó að vera fullt eins merkilegur. Þá er ónefnd brúnkolanáma sem minnst er á í áðurnefndri ferðabók, "101 áfangastaður....) og sögð af henni skemmtileg saga.





Ekki gat ég betur séð en þetta væri Grænlandssteinninn umtalaði:



Það er ekki lengur gert út frá Hallbjarnarstaðakambi (já, eða -króki). Bryggjan er þó í ágætu ásigkomulagi og kannski er þetta framtíðarsvæði fyrir kajakræðara því bryggjan ásamt samsíða grjótgarði myndar ágæta lendingu sem að auki er steinsteypt:



Eitt hús stendur við bryggjuna og hefur líklega verið fisk- eða hrognaverkun auk veiðarfærageymslu. Þessum hlutverkum er lokið en nýtt er í uppsiglingu ef marka má alla þá vinnu sem verið er að leggja í húsið. Búið er að saga ný glugga - og hurðagöt, gólf er búið að saga upp og þakið hefur verið fjarlægt alveg. Það er greinilega verið að endurnýja allt tréverk og breyta húsinu fyrir annað hlutverk og helst datt okkur í hug að það hlutverk yrði einhverskonar þjónusta við ferðamenn. Sé það raunin verða það ekki bara jarðlögin sem draga fólk þessa stuttu leið frá þjóðveginum og niður í Krókinn heldur líka það að geta notið óborganlegs útsýnis - að ógleymdu sólarlaginu - á þessum ótrúlega stað. (ofnotkun á -Ó?)







Það er ekki amalegt hjá smiðunum að setjast niður að loknu dagsverki í "betri stól á efri hæðinni" og njóta kyrrðar og veðurblíðu......



Í þessu litla dalverpi eða gili upp af bryggjunni má m.a. sjá hluta jarðlaganna:



Það var ætlunin að  Sulta fengi að hlaupa laus dálitla stund en eitthvað hafði tamningameistaranum mistekist því hún notaði tækifærið, skreið undir bílinn og kom sér fyrir ofan á millikassanum við litla hrifningu eigandans. Það tók drjúga stund að ná henni þaðan og eftir það fór Sulta ekki fet nema með snærið frá Ásbyrgi um hálsinn!

Það var annars farið að kvölda talsvert þegar við yfirgáfum Hallbjarnarstaðakrók (-kamb?) og héldum áfram inn til Húsavíkur. Við höfðum eiginlega enga viðstöðu í bænum, hann var sem fyrr segir þegar kominn á "Næsta ferð" listann og eftir stuttan hring héldum við áfram inn í Aðaldal allt að félagsheimilinu Heiðarbæ í Reykjahverfi þar sem Útilegukortið gilti á ágætu tjaldsvæði. Þar stóð reyndar yfir ættarmót sem af skiltum að dæma bar nafnið "Tumsumót", en á því nafni kann ég engin skil. Ekki truflaði ættarmótið aðra gesti neitt enda höfðu Tumsurnar sitt eigið svæði afmarkað. Við komum ferðadrekanum fyrir á grasbletti í grennd við sama Norrönu-hópinn og verið hafði samtímis okkur á tjaldsvæðinu á Vopnafirði. Tókum upp kælivöruna frá Ásbyrgi og elduðum dýrindis kvöldmat. Klukkan var  tuttuguogþrjú!

"Nóttin var sú ágæt ein" en að morgni fór að súlda lítið eitt og Norrönu-hópurinn tók tjöld sín saman í hasti. Við vorum snemma á fótum enda var kominn sunnudagur og í Reykjavík yrðum við að vera að kvöldi, hvað sem öðru liði. Við lögðum af stað um miðjan morgun og fyrsti áfangastaður var Laxárvirkjun. Framan við verkstæðishús stóð þessi fíni Farmall Cub. Eina stílbrotið í annars flottri uppgerðarvinnu var tólf volta rafgeymir - ég get ekki ímyndað mér annað en að Cub frá þessum tíma hafi verið sex volt. Ef hann hins vegar var réttilega tólf volt saknaði ég svarta rafgeymisins - skrautlegur rafgeymirinn var algert stílbrot. Viljandi nefni ég ekki framljósin......






Það standa ekki margar virkjanir í fallegra landslagi. Það er spurning hversu mikið hefði orðið eftir af því ef upphafleg áform um umfang virkjunarframkvæmda hefðu náð fram að ganga.





Það er skammur vegur frá Laxárstöð að Grenjaðarstað. EH hafði ekki komið á þessar slóðir áður, en ég þó einu sinni. Þá var bærinn ekki opinn til skoðunar heldur aðeins kirkjan. Nú var bærinn opinn og bæjarstjóri var hann Búi Stefánsson úr Reykjavík, nýútskrifaður þjóðfræðingur og ákaflega skemmtilegur piltur. Við vorum einu gestir bæjarins þetta augnablikið og Búi gaf sér tíma til að ganga með okkur um húsin og segja söguna. Maður fann vel þenna gríðarlega mun á því að ganga um svona húsakynni án leiðsagnar og því að njóta sögunnar af munni einhvers sem vel þekkir til og leggur hana fram á einfaldan og öfgalausan máta. Við hefðum ekki fengið það sama út úr skoðuninni án leiðsagnar Búa. Það er rétt að nota tækifærið og benda á BA. ritgerð Búa Stefánssonar um þróun tónlistar í jarðarförum. Ritgerðin ber nafnið "Dauðatónar" og er aðgengileg HÉR.



Híbýli að Grenjaðarstað eru alls um sjö hundruð fermetrar að stærð og hefði einhvern tíma þótt þokkalegt! Líklega hefur þó töluverður fjöldi dvalið þar ef allt er talið, úti- og innivinnufólk ásamt presti og fjölskyldu. Eitt af því sem Búi upplýsti okkur um og við höfðum ekki gert okkur grein fyrir, var að Grenjaðarstaður á ítök í fjölmörgum jörðum við sjávarsíðuna út með og fyrir Tjörnes. Þar með fylgdu mikil rekahlunnindi og trjáviður í bæjarhúsum er að mestu rekaviður. Þá var grjót notað að miklu leyti í hleðslur með torfi eða í stað þess og þetta tvennt hefur gert að verkum að bærinn að Grenjaðarstað hefur staðið traustar og betur en aðrir torfbæir á landinu - hann þurfti aukinheldur að vera sterkari en flestir því jörð hefur ekki alltaf verið kyrr í Reykjahverfi!









Að lokinni skoðun bauð Búi Stefánsson uppá kaffi í sérstakri gesta- og upplýsingastofu staðarins. Því lauk þegar þýsk hjón birtust og vildu skoða staðinn og Búi varð að rjúka. Við kvöddum hann og þökkuðum góða leiðsögn og skemmtun. 

Leiðin lá áfram fram í Reykjadal og yfir hálsinn að Goðafossi þar sem við áðum stutta stund að Fosshóli og skipulögðum framhaldið. Að Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði er Edduhótel og við það sundlaug. Ekki hafði hún fengið sitt merki á sundlaugalistanum margnefnda og því var tilvalið að heimsækja hana. Við gáfum okkur sirka tuttugu mínútur í bleyti í heita pottinum áður en haldið var áfram til næsta áfangastaðar - Laufáss í Eyjafirði. Þar var margt öðruvísi en að Grenjaðarstað. Að Laufási tók á móti gestum herskari af ungum, þjóðbúningsklæddum dömum sem vísuðu gestum til húsa. Ekki var um fróðleik af þeirra hálfu að ræða því að bárust rútufarmar af túristum þar sem hver farmur hafði sinn leiðsegjara. Þetta olli því að okkur rak hálf stjórnlaust um staðinn og var vart þverfótað fyrir þýsku- og kínverskumælandi liði með myndavélar. 



Við 



Það þurfti eiginlega að hleypa inn í kirkjuna í "hollum"  svo hægt væri að ná mynd sem ekki liti út eins og hópmynd af ættarmóti!





Þegar við fórum frá Laufási var aðeins Akureyri eftir á dagskránni og viðdvöl þar skyldi vera stutt. Okkur langaði í gott kaffi og höfðum því samband við gott fólk, þau Ólaf Sveinsson myndlistamann og kennara og Aðalbjörgu Jónsdóttur dýralækni. Óli er ættaður frá Rauðasandi eins og Elín og náfrændi hennar og þau Aðalbjörg bjuggu um tíma á Ísafirði og störfuðu þar. Til þeirra lá okkar leið og annað erindi, auk kaffikomuboðunar var að fá Aðalbjörgu til að gera stutta "úttekt" á Sultu því EH var ekki fyllilega ánægð með heilsufarið á henni. 





Ekki sveik kaffið og það var gaman að hitta þau hjónin og drengina þeirra sem heima voru - prinsessan Karólína var í útlöndum. Síðan þurfti aðeins að líta í skúrinn og skoða gripina hans Óla. Mótorhjólamenn þekkja Ólaf Sveinsson ekki síður - og kannski betur - sem gegnheilan og eldheitan áhugamann um hjól af öllum gerðum. Hér eru tvö úr stóru safni, vínrauð Honda árgerð 1981 og eldrautt Triumph, sérinnflutt af Óla, árgerð 1991. Hvort um sig er sérstakur gullmoli eins og við mátti búast.



Þetta var síðasta myndin sem tekin var í tólf daga ferð til Færeyja og heim aftur. Frá þeim Óla og Aðalbjörgu lögðum við af stað suður um hálfsexleytið á sunnudeginum og komum til Höfðaborgar um ellefuleytið að kvöldinu. Vinnan beið Elínar, mín beið að taka til í bílnum, tæma, þrífa og ganga frá eftir langa útiveru.......

.....og gera klárt fyrir næstu!

Hér lýkur þessum tólf kafla ferðapistli. Auk Færeyjahlutans, sem var einstök upplifun, var margt sem kom á óvart. Ég vil nefna staðina þrjá, Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker. Eins og áður kom fram hafði ég talið Raufarhöfn þann eina sem ekki væri alls varnað hvað landslag og náttúrufegurð snerti og hinir tveir væru aðeins andlausar flatneskjur þar sem ekkert þrifist nema eymdin. (nú er ég kannski að taka fulldjúpt í árinni, en samt.....)

Ég hafði hrikalega rangt fyrir mér. Þórshöfn er miklu fallegri staður en ég hafði hugsað mér, bæjarstæðið leynir á sér, þorpið er snyrtilegt og þeir alltof fáu sem við töluðum við voru indælisfólk. Yfir öllu var rólegheitabragur og ég á ekkert erfitt með að skilja þá sem þarna hafa fæðst, alist upp, lifað sínu lífi og kjósa ekkert fremur en að gera það áfram. Það sama má segja um Kópasker - snyrtilegt þorp með prýðisfólki og miklu fallegra umhverfi en hægt er að átta sig á af ljósmyndum. Það er auðvelt að gera sér ranga mynd af hlutunum ef viljinn er fyrir hendi.....Það er hinsvegar ekkert erfitt að viðurkenna að maður hafi haft hróplega rangt fyrir sér. Þannig var það bara. Raufarhöfn leit út eins og ég hafði ímyndað mér, sérstakt landslagið var til staðar og er ekki á leið neitt. Um mannlífið get ég hins vegar ekkert sagt því Raufarhöfn var eini staðurinn af þessum þremur sem við fundum engan til að spjalla við. Eins og fyrr sagði stóðst auglýstur opnunartími handverks- og kaffihússins ekki og þar fór okkar síðasta tækifæri til að spjalla við bæjarbúa áður en við héldum "út á Sléttuna"

Af sundlaugalistanum margnefnda lágu fjórar, auk sundlaugarinnar í Þórshöfn í Færeyjum, sem eðlilega er ekki á íslenska listanum. Þessar laugar voru á Eskifirði, Egilsstöðum, Þórshöfn og að Stóru-Tjörnum. Þeim fjölgaði svo enn í næstu ferð.........

Til glöggvunar er hér birt gömul mynd af sundlaugalistanum. Á hana vantar fjölda seinni tíma merkinga og listinn er öllu skrautlegri núorðið....





...............................................

Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar