Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.08.2014 21:00

Í Færeyjum - 10.hl.ferðasögu.


Í tíunda hluta segir frá lokadeginum í Færeyjum og ferðinni heim.


Upp rann miðvikudagur 25. júní. Eins og áður kom fram lögðum við bílnum kvöldið áður í miðjum afleiðingum færeysku kreppunnar, þ.e. á hálfunnu byggingasvæði innan um dót og drasl og féllum svo vel í umhverfið að enginn virtist taka eftir okkur.

Við vorum snemma á fótum enda kom fram í lok 9.hluta að við þurftum að vera nálægt bænum vegna áætlunar lokadagsins. Um leið og hefðbundnum morgunverkum hafði verið sinnt var ekið niður á "átta tíma stæðið" við Vesturvog og ferðadrekanum lagt þar. Bakpokar voru hengdir á herðar og arkað á fullri ferð niður að Strandfaraskipum Landsins þar sem "Ternan" var tilbúin til brottfarar. Nú skyldi nefnilega taka "innanlands" ferju í annað og síðara skiptið. Förinni var heitið til Nólsoy



"Ternan" er fuglsnafn eins og einhverjir eflaust átta sig á. Þessi fugl er stundum nefndur Þerna á íslensku en algengara nafn á honum er kría. Færeyingar þekkja eflaust kríunafnið en hjá þeim heitir fuglinn semsagt terna. Við æddum um borð fulla ferð enda höfðum við enga hugmynd um ferðamannastraum til Nólseyjar, en þangað var förinni heitið þennan síðasta morgun okkar í Færeyjum. Kannski er rétt að skjóta inn kortaklippu svo hægara sé að átta sig á stöðunni:



Okkur hefði svo sem ekki legið lífið á að tryggja okkur pláss því það voru aðeins svona sirka tíu, tólf farþegar á leið til Nólseyjar. Við komum okkur fyrir á bekk uppi á bátadekki og lituðumst um. Á léttabátnum mátti sjá að Ternan væri skráð í Klakksvík og hafi hún áður verið staðsett þar hefur hún væntanlega haft það hlutverk að þjóna byggðum á Kalsoy. Nú var hún þó í Þórshöfn og þjónaði Nólsoy og kannski var það vegna þess að yfir sumartímann eru væntanlega talsvert fleiri ferðamenn sem heimsækja Nólsoy en Kalsoy og því veitir ekki af "almennilegri" ferju. 



Svo var blásið til brottfarar og myndasmiðurinn fór í hlutverk fyrirsætu. Er það rétt hjá mér að hún sé hálfsyfjuleg? 



Við stóðum við borðstokkinn og horfðum á Þinganes renna hjá þegar Ternan stoppaði allt í einu og vildi ekki lengra. 



Þetta reyndist ástæðan: Farþegadreki af stærri gerðinni var að þoka sér inn um þröngt hafnarmynnið og farþegadrekar af stærri gerðinni flytja með sér miklar tekjur til Þórshafnar. Því fá þeir forgang fram yfir ferjukríli sem flytur tíu, tólf hræður yfir til Nólseyjar. Það var svo sem ekkert við það að athuga og bara gaman að fylgjast með risanum á innleið.





Svo var Íslandsvinurinn Celebrity Infinity kominn innfyrir og við máttum leggja af stað í þessa tuttugu mínútna löngu siglingu yfir sundið.



Á stjórnborða blöstu við hinar miklu byggingar Landssjúkrahússins:



Tuttugu mínútur líða hratt og brátt runnum við inn á höfnina í Nólsey:





Meðal farþega voru frönskumælandi hjón. Þeim var búin móttaka á bryggjunni í Nólsey og í móttökunefndinni var maður sem virtist vera leiðsögumaður og  - hundurinn hans.



Við nánari athugun kom í ljós að þetta var ekki svona Bassahundur eins og vel gat verið, séð ofan af Ternunni. Þetta var hundur af þeirri gerð sem trúgjörnum, japönskum sakleysingjum var seld dýrum dómum hér um árið. Japparnir voru grunlausir þar til "celeb" dama ein kom fram í sjónvarpi með "hundinn" sinn á handleggnum og hafði orð á því að illa gengi að kenna "honum" kúnstir, auk þess sem "hann" gelti mjög furðulega! Atvikið rataði í  heimspressuna sem hló sig máttlausa en Japanir tóku "Íslendinginn" á þetta og neituðu að ræða málið"

Þessu lambi var líkt varið og kettinum í Þórshöfn, það vildi ekkert hafa með útlenskubullandi túrista að gera en hélt sig mest hjá sínum manni.



Það næsta sem áhugavert þótti í Nólsey var frekar einstaklingsbundið en fékk þó mynd sem ætti frekar að teljast til iðnaðarnjósna en heimildar. Þetta er "Becker" stýri á aflagðri trétrillu uppi á kambi. Svona þarf stórskipið Stakkanes auðvitað að fá:




Mér var sagt að fara í úlpu og hafa húfu. Ekki veit ég hvers vegna en gegndi þó. Það var samt alls ekki úlpu - né húfuveður en stundum þarf jú að gegna til að fá "gott veður"

Þeir voru að byggja "dálítil" bátaskýli í Nólsey:



Beint fram af eyjarnafninu í steingarðinum var þessi líka fína sandfjara, hreint eins og baðströnd:



"Hundurinn" leiðsögumannsins hafði dregist aðeins afturúr hópnum á leið frá höfninni:





Svo þegar nær bænum kom stakk þessi afturendanum fyrir skúrhorn. Mér fannst hann kunnuglegur - eðlilega, því flestar breytingar á honum voru eins og á sjúkrabílnum mínum. Hann hafði sama toppinn, sömu ljósin og nákvæmlega sömu innréttinguna. Ég gat ekki séð hvar á Íslandi hann hafði verið sjúkrabíll en sjúkrabíl hafði hann verið......



Jú, hann var frábrugðinn í einu, veigamiklu atriði: Hann var með tíu strokka bensínvél:



Enn ein sönnunin fyrir íslenskum tengslum:



Í miðju þorpinu, rétt við upplýsingamiðstöð ferðamanna er minningarplata á steini. Á henni er minnst róðrarafreks Ove Joensen. Platan skýrir sig sjálf.







Um Ove Joensen má annars lesa HÉR og HÉR, og minnast þess um leið að það er sitthvort, gæfa og gjörvileiki.......

Gamli tíminn sveif yfir vötnum í Nólsey hvert sem litið varð.....Húsið þarna í baksýn (sem verið er að laga þakið á) bar stórt skilti sem á stóð: "Kaffistova". Þetta er gisti - og veitingahús sem minnst var á í bæklingum en virtist vera lokað nú um háannatímann vegna viðgerða. Allavega var allt harðlæst þegar við reyndum inngöngu.



Við töltum út að kirkjunni. Hún var læst og ekki ætluð ferðamönnum til skoðunar. Á göngunni mynduðum við um öxl yfir hafnargarðinn til gömlu verbúðanna ( og þeirra nýrri t.h.)







Í kirkjugarðinum stendur minningarsteinn um þjóðhetjuna Nólsoyjar - Pál, bónda og athafnamann. Frá steininum er útsýnið svona yfir til Þórshafnar - eða öllu heldur Argir, sem eins og fyrr segir er sambyggt Þórshöfn: 



......og stutt frá stóð gömul sjóbúð:



Það er fljótlegt að ganga allar götur í þorpinu á Nólsey og þegar því var að mestu lokið gengum við út með eyju til norðurs sundmegin. 



Þegar ekki varð lengra komist með góðu móti eftir fjörunni gengum við upp á milli húsa að götu sem liggur þorpið enda á milli. Hana gengum við áfram til norðurs, út fyrir byggð þangað sem helst voru sumarhús og slægjur. Á þeim slóðum hækkaði eyjan nokkuð upp að vindmyllu sem þar stendur og framleiðir rafmagn eyjabúa, af hæðinni var gott útsýni yfir þorpið og suðureyna. Á myndinni má vel sjá hvernig eyjunni er nánast skipt í tvennt með þröngu klettaeiði - og þorpinu þar með:



Horft af hæðinni yfir vesturhluta þorpsins í átt til suðurodda Straumeyjar. Fjær er Sandey:



Af hæðinni gengum við sem leið lá niður í þorpið og við eina efstu götuna rákumst við á þessa fjárhundafjölskyldu. Það er talsvert algengt að rekast á afgirta fjárhunda sem virðast hálf umkomulausir - og eru það sjálfsagt - enda eru fjárhundar Færeyinga ekki gæludýr heldur vinnuþjarkar sem leiðist að hanga aðgerðarlausir. Þessir voru allavega ekki glaðlegir, ekki einu sinni sá litli:



Þessar voru heldur brattari:



Svona mynd gæti komið þeirri hugmynd inn hjá einhverjum að í Nólsey stæði heimurinn kyrr. Það er kannski ekki alveg þannig en hreyfingin er ekki mikil:



Í rauða húsinu er "Kunningastovan" - upplýsingamiðstöð þorpsins. Þar starfaði afar almennileg kona, kannski kringum þrítugt, sem ekki átti í neinum vandræðum með íslenskuna enda hafði hún dvalið á Íslandi u.þ.b. þrjá mánuði fyrir einhverjum árum. Hjá henni fengum við úrvals kaffi og kökubita ásamt hafsjó af upplýsingum um lífið í þorpinu. Við sögðum henni frá ferð okkar til Suðureyjar og það með, að okkur hefði langað til að heimsækja Sandey en ekki haft tíma. Hún setti upp smáskeifu, benti þumli niður og sagði okkur frekar að eyða tíma í að skoða Skúfey.......kannski það náist í næstu ferð?

Í kjallara "Kunningastovunnar" er geymdur róðrarbáturinn sem Ove Joensen fór á til Köben 1986. Hann var til sýnis gegn gjaldi.



Það varð  ekki hjá því komist að heillast af kyrrðinni við voginn og gömlu verbúðunum. Þarna, á þessum stað og þessu augnabliki þurfti maður að ýta frá sér tilhugsuninni um Norrænu sem kæmi til Þórshafnar eftir nokkra klukkutíma til að sækja okkur..........mann langaði einfaldlega  ekki heim!





Eitt af þessum skiltum sem okkur Íslendingum finnst svo skemmtileg:



Enn var talsverður tími þar til Ternan var væntanleg næst og við nýttum hann til að ganga upp á eiðið sem nær aðskilur eyjarhlutana. Nú fengum við ágæta yfirsýn yfir þorpið í hina áttina:



Austanvert í eiðinu voru ekki sömu rólegheitin og við voginn þorpsmegin:





Undiraldan var þung og súgurinn við klettana var miklu meiri en ljósmyndir ná að sýna. Það dundi í hellinum þegar aldan skall á veggjunum:



Á leiðinni til baka niður í þorpið fundum við þessi leiktæki - og í leiktækjum er jú brugðið á leik:



Ég mátti til að prófa eitt saklaust:



...og úr stellingunni leit veröldin svona út:



Ég veit ekki hvort mannkynið er á leið aftur upp í trén, en þessi hluti þess prílaði allavega upp í eitt "klifurdót" og virtist leita að skóginum..........



Svo, allt í einu var tíminn liðinn og Ternan komin á höfnina:



Daman í upplýsingamiðstöðinni, "Kunningastovunni" (hvort orðið er nú skemmtilegra?) hafði bent okkur á gula húsið og sagst leigja það til búsetu  sumarlangt. Ekki amalegur staður að búa á:



RIB - bátar eru nýlegt fyrirbæri í ferðaþjónustu og má sjá þá víða. Færeyjar voru engin undantekning og þessi var að dóla kringum Nólsey góða stund, kom svo inn á voginn um leið og Ternan:





Viðstaða Ternunar í Nólsey er stutt hvert sinn en ferðirnar tíðar. Við vorum rétt komin um borð þegar skipið seig út um hafnarmynnið.........



........og svo var manni kippt hálfnauðugum inn í nútímann og veruleikann á ný. Aðeins tuttugu mínútur skildu á milli!



Við töltum í land og litum inn í "Terminalin", Umferðarmiðstöð Færeyinga á hafnarsvæðinu. Við sáum að í básana hjá Smyril Line var komið fólk og gáfum okkur á tal við það. Þá kom á daginn að þar sem við vorum með alla pappíra í töskunni hennar Elínar gátum við tékkað okkur og bílinn inn á Norrönu. Þar með vorum við laus við það og gátum nýtt það sem eftir lifði dags í að heimsækja SMS, sem eins og fyrr sagði er Kringla/Smáralind Færeyinga. Klukkan var rétt að verða tvö e.h. og von var á Norrönu um hálfsex. Þar sem við vorum komin með brottfararspjöld þurftum við ekki að mæta fyrr en hálftíma fyrir brottför og þá beint á aksturslínu um borð. 



Þá var það SMS. Eins og fram kom í lok 9. hluta tókst okkur ekki að finna húsið í gönguferðinni kvöldið áður. Eftir göngutúrinn renndum við um bæinn á bílnum á leið í náttstað og þá fundum við það fljótlega. Stefnan var því klár og við gengum uppeftir. SMS vöruhús er ekki ný bygging en afar glæsileg. Þarna var frítt internet og nægir staðir til að tylla sér. Það var dálítið "absúrd" að líta í kringum sig því hvar sem setjast mátti niður sátu ferðamenn, líklega af skemmtiferðaskipinu í höfninni og pikkuðu á snjallsíma og spjaldtölvur. Hver og einn grúfði sig niður í sitt og manni gat vel fundist að heimurinn hefði frosið eitt augnablik - ef ekki hefði verið fyrir búðaráparana.  



Við röltum um, litum inn í nokkrar búðir en hittum svo Hornfirðingana sem voru í SMS í sömu erindagerðum og við - þ.e. að drepa tímann fram að mætingu á Norrönu. Við fengum okkur kaffi og tylltum okkur smástund við leik í Heimsmeistarakeppnninni sem stóð sem hæst. Síðan skildu leiðir og við héldum aftur út á röltið - niður í bæ.



Þessi myndarlega bygging er ráðhús bæjarins. Framan á því stendur:" Tórshavnar kommuna" og ártalið 1894 milli orðanna:



Dómkirkjuturninn og næstum því heiður himinn - allavega á færeyskan mælikvarða. Við gengum niður á bílastæðið við Vesturvog, sóttum bílinn og tókum einn lokahring um bæinn.





Loks var ekki annað eftir en að mæta í röðina. Tímaskráningin á þessari mynd segir 16:09 og á henni sést forláta Rolls Royce sem var á leið til Íslands. 



Á sílsinum neðan við farþegahurðina (hann er með stýrið "réttu" megin) stendur: "Around the world in a 80 year old car" og neðan við afturgluggann stendur: "Rolls Royce Antonoff 1". Svo er talsverð lesning á kistulokinu, þar sem fram kemur að tegundin sé RR Phantom 1 frá árinu 1926, vélin sé sex strokka og átta lítrar að rúmtaki og eyðsla pr. 100 km sé 22 lítrar. Nafnið Antonoff mun vera nafn yfirbyggingarsmiðsins, en yfirbyggingin er úr áli:



Hollendingar á bláum Benz, Svisslendingar á gömlum Citroen....



Loks hillti undir Norrönu og innan skamms renndi hún inn á höfnina. Þar var spólað í hálfhring og ferlíkinu rennt að bryggju eins og barnaleikfangi.



Svo stór var biðröðin orðin að maður hafði nokkrar áhyggjur af því að komast ekki með! Hitt var svo vitað mál að meðal farþeganna voru Færeyingar á heimleið, ferðamenn sem ætluðu að dvelja viku eða lengur í eyjunum, einnig ferðamenn sem ætluðu að dvelja þá  daga sem tæki Norrönu að sigla til Íslands og aftur til baka til Færeyja og áfram til Hirtshals. Loks var sá hópur sem mögulega gat ætlað að dvelja í Færeyjum meðan Norröna sigldi til Íslands/Færeyja/ Hirtshals/aftur til Færeyja og aftur til Hirtshals á sunnudagskvöldi. Flókið? Kannski. Ég reiknaði allavega með því að tölvurnar hefðu unnið sitt verk......Það hlaut að myndst pláss fyrir okkur. Þegar þarna var komið sögu var EH komin upp í landaganginn og myndaði þaðan:



Svo smáseig röðin áfram en mér fannst ég alltaf færast aftar og aftar.....



...og að endingu vorum við þrír sem héngum á húninum. Það var einhver stífla inni og loks fannst pláss fyrir Renóinn fyrir framan mig .....



Svo var hægt að búa til eitt pláss enn út við stb. síðuna og þegar ég þokaði mér í það mátti smeygja háþekjuhúsbílnum t.h. svona á ská fyrir aftan mig. Þar með var skellt í lás og sjóbúið.



Nú kunni ég þetta enda þrautreyndur eftir fyrri ferðina með Norrönu og líka þá með Smyrli til Suðureyjar. Nú tók maður bakpokann með dótinu sínu, læsti bílnum og rölti í rólegheitum að lyftunum - engir stigar núna! Uppi á áttunda dekki var EH með myndavélina. Ternan skreið framhjá í einni af mörgum ferðum dagsins til Nólseyjar. Ég hefði heldur viljað vera þar um borð:



Brottför var tímasett kl. 18 og klukkan mín var 18:09 þegar sleppt var og spólað af stað:





Austurvogur, Þinganes, Vesturvogur. Það var eiginlega dagsljóst að þessi ferð til Færeyja yrði ekki toppuð nema með annarri..... 



Þarna var Smyrill, eflaust á leið til Þvereyrar á Suðurey innan skamms. Þarna var líka Celebrity Infinity, eflaust á leið til Íslands eins og við...



Um leið og Norröna skreið fyrir hafnarmúlann hallaði hún í stjór og losaði dálítið af vatninu úr heitu pottunum á skutþiljurnar



Eflaust hafa straumar og sjávarföll áhrif á leiðir Norrönu. Ég veit ekki hvort það var þess vegna sem þeir sigldu aðra leið heim en út. Þegar við komum til Færeyja var siglt milli Kalsoy og Austureyjar. Nú var siglt milli Kalsoy og Kunoy. Kannski gerðu þeir þetta gagngert fyrir okkur, vissu kannski sem var að við höfðum ekki gefið okkur tíma til að skoða þessar tvær eyjar ásamt mörgum öðrum, s.s. Fugley, Svíney, Skúfey, Sandey (þrátt fyrir þumalinn niður), Mykines og svo öll smáþorpin sem við settum til hliðar með orðunum: "Skoðum í næstu ferð" Þannig var það bara og við gátum vel við unað, eitthvað höfðum við þó náð að skoða og mynda ef marka má efnið í þessum Færeyjapistlum öllum!



Eins og fram kom var lagt af stað undir kvöld og því nætursigling framundan. Við bókun ferðar hér heima kom á daginn að allir klefar voru upppantaðir á heimleiðinni og aðeins um að ræða svefnpokapláss í "fjölmenningsklefum" niðri á öðru þilfari. Við settum það ekki fyrir okkur enda ánægð með allt, alltaf......

Um borð í Norrönu kom hins vegar babb í bátinn þegar í ljós kom að okkur EH var ætluð ein og sama kojan í klefa fullum af illa lyktandi bakpokalýð (þetta eru EKKI fordómar, táfýlan af liðinu var hrikaleg!). Við ræddum málið við móttökuna (því Norröna hefur "lobbý" eins og fínasta hótel) og þar á bæ voru (kven)menn allir af vilja gerðir til að leysa vandann. Okkur voru fengnar tvær kojur í sex manna klefa þar sem aðeins voru fyrir ein þýsk hjón, snyrtilegt rólegheitafólk sem við höfðum lítið af að segja.

Sömu reglur giltu um svefnpokakáeturnar og klefana uppi á efri þilförum - við þurftum að koma okkar dóti út tveimur tímum fyrir heimkomu. Áætlunin sagði heimkomu um kl. níu að morgni fimmtudags og nú voru klukkurnar okkar réttar. Það þýddi að "Ship time" (sem alltaf er færeyskur tími) var þá tíu. Klukkan sjö að okkar tíma vorum við því mætt upp í kaffiteríu með bolla í hönd. Þá kom í ljós að þónokkrir höfðu kosið að leggja sig í sófum teríunnar í stað þess að skríða í svefnpokaplássin. Mannskapurinn var því mis-upplitsdjarfur í morgunsárið. Veðrið bætti þó allt upp, sólskin og einmunablíða og innan skamms voru allir komnir upp á áttunda að fylgjast með siglingunni inn Seyðisfjörð.

Þegar lagt var að höfðum við annan hátt á en úti í Þórshöfn, enda sjóuð og sigld! Nú kom Elín Huld með mér niður á bíladekkið og um leið og opnað var þeystum við út enda næstöftust. Samtímis rann skarinn af hinum brautunum af stað og út á bryggjusvæðið. Þar tók við tollskoðun og við vorum líka með þeim fyrstu til að vera kölluð inn í tollinn!

Aftur!
Hvað var það við sjúkrabílinn sem vakti svona sérstaka athygli tollvarða? Nú var ég ekki einn eins og í Þórshöfn. Íslensku tollararnir þekkja íslensk einkanúmer þó færeyskir geri það ekki - hvað var það þá?

Allt var þetta annars á glaðlegu nótunum og eftir að tveir félagar höfðu litið á bílinn og innbúið kom fram í spjalli að við værum aðeins að koma úr vikudvöl í Færeyjum en ekki frá Evrópu. Við þá staðreynd var frekari skoðun flautuð af og tveimur mínútum seinna vorum við komin upp í bæ. Meðal þeirra fjölmörgu sem biðu fars með Norrönu út voru þrír húsbílar mannaðir Ísfirðingum. Við tókum hús á einum og heilsuðum upp á hina. Svo var strikið tekið á Fjarðarheiðina og Egilsstaði. Aðallega var það tvennt sem togaði: Annarsvegar íslenskt bakarí og hins vegar íslensk sundlaug!

Um leið og við skriðum ofan í sundlaugina á Egilsstöðum í 22 stiga hita og sólskini varð okkur dagsljóst hvað við Íslendingar erum ríkir, þrátt fyrir allt........

....og þá loks vorum við komin heim!
.................................................................................................................


Líklega verða pistlarnir alls tólf. Mig langar að koma þessu frá mér uppá seinni tímann og eiga það skráð. Þegar þarna var komið sögu var fimmtudagshádegi og við ætluðum ekki beint suður. Gróf áætlun fól aðeins í sér eitt orð: Melrakkaslétta. Útfærslan var eftir og við unnum hana saman þarna í heita pottinum. Hún lukkaðist frábærlega og birtist líklega í tveimur síðustu pistlunum.

Gott í bili

Flettingar í dag: 44
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135011
Samtals gestir: 27832
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:16:53


Tenglar