Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.07.2014 21:58

Í Færeyjum - 5.hl. ferðasögu


Fjórða hluta lauk við Runavík, þar sem stóru Rússatogararnir lágu. Einhverra hluta vegna voru ekki fleiri af þessum þúsund ljósmyndum teknar þar en kannski gildir það sama um Runavík og Saltangará og marga aðra staði í Færeyjum - við renndum þar í gegn og ætluðum svo að koma aftur síðar og skoða betur. Svo gafst ekki tími til að koma aftur í þetta sinn og það kallar á aðra Færeyjaferð.........

Utan við Runavík er nes sem heitir Nes en yst á því heitir Eystnes. Næsta þorp utan við Runavík heitir hins vegar Saltnes og enn utar eru svo Tóftir, allstórt þorp. Að Tóftum er stór og myndarleg kirkja sem vel má sjá handan frá "skjótibreytunum" ofan við Hvítanes. Ég hafði tekið eftir þessari kirkju um morguninn þegar ég var að væta umhverfið á þeim slóðum og langaði að skoða betur. Við héldum því áfram gegnum Saltnes og út að Tóftum:


Á myndinni hér að ofan  er horft inn með Tóftum til norðvesturs og inn Skálafjörð. Það má vel taka eftir móðunni innar í firðinum en planið við kirkjuna er stráþurrt - svona gat þetta verið! Neðan og utan við kirkjuna stendur lítill, látlaus viti ofan fjörunnar:


Skammt frá vitanum stóð svo dæmi um nýlegt íbúðarhús í Færeyjum. Við hittum mann sem útlistaði fyrir okkur hvernig byggingarreglum er háttað í eyjunum og það skýrði eitt og annað. Þetta hús var dæmigert fyrir mörg þeirra nýju húsa sem við áttum eftir að sjá á ólíklegustu útnárum (á íslenskan mælikvarða):


Frá Tóftum ókum við svo yfir nesið til norðurs, slepptum botnlanga sem liggur út að örþorpinu Æðuvík en ókum þess í stað til Rituvíkur.


Enn og aftur varð maður heillaður af náttúrufegurð og friðsæld. Það var föstudagseftirmiðdegi en þarna virtist enginn vera að flýta sér. Samt var fólk heima við í allmörgum húsum því við urðum vör við hreyfingar, þó hvorki margar né hraðar. 


Þeir eiga sína kirkju í Rituvík, byggða í gömlum stíl en afar fallega og snyrtilega eins og svo margar af þeim eldri.


Í afgirtum reit ofan við kirkjuna stóð minnisvarði um burtkallaða:


Neðan undan kirkjunni var uppsátur, bryggja og bryggjuskúrar Rituvíkurbúa. Þarna setur enginn á höndum heldur var spil í litlum skúr ofan rennunnar og blakkir víðsvegar til að breyta togáttinni. Þesskonar búnað áttum við oft eftir að sjá.


Ég mátti til að kíkja inn á milli rimla í bryggjuskúrunum sem stóðu nokkuð hátt ofan bryggjunnar. Það reyndist vera bátur í hverjum einasta nema einum - að vísu virtust ekki allir vera sjófærir en flestir þó. Takið eftir blökkinni við skúrvegginn rétt hægra megin við mig. Þeir voru nefnilega líka með blakkir við skúrana og gátu dregið bátana bæði út og inn með sama spilinu. Vírnum var aðeins slegið á mismunandi blakkir og þannig dregið út, niður rampinn og á flot - og svo sömu leið til baka alveg inn á gólf.


Þessar heyrúllur sáum við líka í Rituvík og varð starsýnt á. Orðin úr bókinni hans Huldars Breiðfjörð komu enn upp í hugann: "Nægjusemi". Þeir pökkuðu heyinu í litlar rúllur því þær voru einfaldlega miklu meðfærilegri. Þetta kom sér vel þegar heyjað var í miklum halla - sem var eiginlega frekar regla en undantekning.


Eftir þessa viðdvöl í Rituvík héldum við til baka yfir nesið, en nú aðra leið og komum beint ofan í Runavík. Á þeirri leið er ekið fram hjá allstóru vatni - Tóftavatni - sem minnti talsvert mikið á Hvaleyrarvatnið hér heima. Svo lá leiðin aftur um samföstu þorpin að Saltangará, Glyvrum, Lamba, Söldarfirði og öll hin sem ég gleymdi að telja upp. Innst í Skálafirði mætast leiðir út með firði norðan og sunnan - syðri leiðin liggur m.a. út að Skála, en þangað ætluðum við ekki að sinni eins og kom fram í lok fjórða hluta. Okkar leið lá úr fjarðarbotninum yfir nokkuð háan háls og yfir í Götuvík. Við Götuvík standa eiginlega þrjú þorp. Syðst er Syðrugöta, þá Götugjógv og nyrst og stærst er Norðragöta. Þegar niður af hálsinum kom beygðum við af leið við skiltið að Syðrugötu. Þessi mynd er tekin úr þorpinu og yfir að Norðragötu handan víkurinnar.


Við lögðum bílnum og gengum um þorpið. Á nokkuð stórri lóð milli tveggja íbúðarhúsa var þessi sjálfvirka sláttuvél og vann sína vinnu. Hún var í taumi og hinn endi taumsins var festur í hennar eigin "hundakofa". Hún hafði engan sérstakan áhuga á okkur og sinnti okkur í engu. Rétt hjá voru nokkrir krakkar að leik (hvar voru nú leikjatölvurnar??) og gimba virtist þekkja þau öllsömul. Viðmót hennar gagnvart krökkunum var allavega allt annað en áhugaleysið sem hún sýndi okkur:



Bryggja var auðvitað í Syðrugötu en virtist að mestu aflögð enda aðalútgerðin norðanmegin. Við hana vögguðu þó nokkrir smábátar en efst stóðu þrír heitir pottar. Á nálægum skúrvegg var þessi auglýsing:


Í skúrnum var sumsé búningsaðstaða fyrir pottþyrsta. Við sjálfa pottana stóð ungur maður og mokaði spýtum á eld við þann fyrsta. Þeir voru nefnilega spýtukyntir og þar sem eftirspurnin virtist í lágmarki þegar okkur bar að garði var aðeins einn af þremur hitaður upp. Ég veit að ég á eftir að sakna þess ævilangt að hafa ekki skellt mér......


Við ókum svo sem leið lá ofan við Götugjógv og fram hjá Norðragötu. Þar var áberandi mest um að vera enda langstærst þessara þriggja byggðarlaga, sem áður sagði. Þarna höfðu verið gerðir miklir hafnargarðar og svæðið yst í þorpinu, þar sem grjótið í garðana hafði verið tekið, nýttist sem iðnaðarsvæði:



Við höfðum ekki viðdvöl í Norðragötu - hún verður að bíða næstu ferðar. Okkar leið lá til Fuglafjarðar og þar skyldi næstu nótt eytt. Leiðin er afar falleg og við komum ofan lengst til vinstri á myndinni hér að neðan, þar sem heitir Kambsdalur. Í Kambsdal er bæði íbúðabyggð og talsvert iðnaðarsvæði. Dalurinn er í hvarfi handan leitisins v.megin. Um leið og við renndum hjá sáum við að menn voru að hífa nýja fiskeldistvíbytnu ( lítill þjónustubátur eins og þekktir eru hérlendis) upp á flutningavagn.


Við lögðum bílnum á malbikuðu plani niðri við smábátabryggjuna, settum upp íslenska fánann og bjuggumst til kvöldmatar. Ég vissi að í Fuglafirði er búsettur ísfirsk / hnífsdælskur Færeyingur - eða öfugt, og vonaði að hann rynni á fánann. Ekki varð mér að þeirri ósk en kannski hitti ég Pál Jakob Breiðaskarð næst þegar ég kem til Fuglafjarðar....


Í okkar bókum var merkt tjaldsvæði í Fuglafirði en hvernig sem við leituðum fundum við engin merki þess. Sömuleiðis átti að vera þar sundlaug en þótt við leituðum um allan bæ fundum við engin merki um hana. Hins vegar var mikið fjör á krá rétt ofan við bryggjuna. Þess vegna þótti okkur ekki fýsilegt að gista í bílnum þarna á bryggjunni. Á göngu okkar um bæinn sáum við lítið malarplan ofan við fótboltavöllinn og á þessu plani var skúr með opinni hreinlætisaðstöðu. Þarna leist okkur ákjósanlegur staður og komum bílnum þar fyrir. 


Ég má til að setja hér inn hlekk sem ég fann á Youtube og er afar skemmtilegur auk þess að skarta frábærum myndum.  Sjáið HÉR


Svo var aftur tekið til við bæjarrölt. Þessi steypta kví stendur ofan við enda fótboltavallarins og vakti athygli fyrir vandaðar og afar sérstakar steyptar myndir í botni og á veggjum. Það var ekki fyrr en við komum heim sem Google gat bent okkur á hvað þetta var. Sjá HÉR og HÉR:


Semsagt: Gamla sundlaugin. Ekki hefur nú farið mikið fyrir upphituninni - vatnið beint úr berginu fyrir ofan!  

Eins og fyrr sagði fundum við ekki þá sem nú er, þrátt fyrir talsverða leit. Við fundum hins vegar aðra sjálfvirka sláttuvél inni í garði. Sú var óbundin en greinilega trú þeirri kindarlegu sannfæringu að grasið sé alltaf grænna hinumegin, því hún gerði ítrekaðar en áranguslausar tilraunir til að ná upp í tré nágrannans.


Það úðaði dálítið um kvöldið í Fuglafirði, þó ekki svo mikið að kallaði á yfirhafnir. Við héldum áfram göngu um ofanverðan bæinn og þaðan sáum við mannskapinn úr Kambsdal koma með fiskeldistvíbytnuna í bæinn, stilla sér upp niðri á bryggju og hífa hana í sjóinn við hlið annarrar sem þar var fyrir.


Elín Huld var með myndavélina og prófaði að taka myndir bæði með flassi og án. Þær dökku eru (að sjálfsögðu) þær flasslausu. Okkur fannst ekki svona dimmt eins og myndirnar sýna:



Svo sáum við enn eina sláttuvélina og þá var flassið sett á. Þessi var ósátt við tilveruna og stökk í sífellu upp í loftið. Við héldum fyrst að bandið væri vafið um annan framfót hennar og bjuggumst til björgunar. Svo sáum við að það var ekki heldur var einhver blettur innan á löppinni. 


Gimba gaf sér augnablik til að góna á okkur milli þess sem hún gormaðist í bandinu. Svo kom eigandinn og fór eitthvað að sýsla við hana - sennilega að færa á nýjan stað í lóðinni....


Það varð nótt og það varð dagur - laugardagur. Við vorum á fótum uppúr níu um morguninn, vöknuðum frekar snemma því fótboltalið bæjarins mætti á völlinn til æfinga. Eins og margir bæir í Færeyjum stendur Fuglafjörður í allt að 45 gráðu halla og fótboltavöllurinn var sprengdur inn í hlíðina. Við vorum aðeins örstutt frá honum - það var aðeins ein gata á milli - en samt vorum við a.m.k. tíu metrum ofar!

Við færðum bílinn aftur niður á bryggjusvæðið, á sama stað og kvöldið áður. Enn einn göngutúrinn og ég tók eftir að í jaðri þessa malbikaða bryggjuplans voru staurastúfar með rafmagnstenglum, tíu tenglar á hverjum stúf og líklega einir sex eða sjö stúfar. Ég giskaði á að þetta væri vetrargeymsluplan smábátanna og fannst vel gert við eigendur þeirra í tenglum. Það var ekki fyrr en á leiðinni til Íslands aftur að kunnugir bentu okkur á að þetta myndi hafa verið "camping" svæði þeirra Fuglfirðinga!! Hjólhýsa og húsbílastæði með sextíu, sjötíu rafmagnstenglum en ekki einu einasta skilti um eitt eða neitt! Ekki svo miklu sem frímerki! Við gengum upp að "Tourist Info" en þar var lokað og þar með hvarf okkar síðasti séns til að spyrja um sundlaugina því það var enginn á ferðinni um morguninn utan fótboltakapparnir.

Við vorum á leið til Klakksvíkur og ákváðum því að dvelja ekki lengur í Fuglafirði heldur reyna að komast í sundlaug í Klakksvík. Við vissum af laug þar gegnum auglýsingar. Á leið út úr bænum myndaði Elín þennan fallega, litla foss í gili........


....en handan götunnar var aðal myndefnið, nefnilega þessi magnaða yfirlýsing um að nú væri Torkild á leið í hnapphelduna:


Frá Fuglafirði ókum við svo til baka um Kambsdal og inn undir Norðragötu. Þar kvísluðust leiðir og við völdum þá sem liggur um neðansjávargöng til Klakksvíkur. Í Færeyjum eru tvenn neðansjávargöng, þau sem liggja milli Austureyjar og Borðeyjar (Klakksvíkur) og hin sem liggja frá Straumey suður á Vogey.  Í þessi göng þarf að borga og það er gert á einfaldan hátt, með viðkomu á næstu bensínstöð handan gangna. Hins vegar er miðinn sk. "return ticket" sem þýðir í raun að maður borgar aðeins aðra hverja ferð. Mér þótti samt vissara að greiða gangnatollinn strax og komið var til Klakksvíkur og gaf þá aðspurður upp að við myndum aka til baka samdægurs. Allt var þetta samviskusamlega skráð með penna í litla blokk í tvíriti.

En það var sundlaugin.......við vildum komast í bað og helst sem fyrst. Maður leitar helst að sundlaug við skóla og skólinn var auðfundinn. Þar var líka sundlaugin - en því miður var verið að byggja við húsið og laugin lokuð um ófyrirsjáanlegan tíma. Þeir hefðu allavega þurft að taka hressilega til hendinni ef við hefðum átt að geta komist í bað þarna. Þá var næst tjaldsvæðið. Við leituðum þar sem líklegast var enda gaf kortið okkar góða vísbendingu. Svæðið fundum við, ekki stórt en þó með því allra nauðsynlegasta. Fyrir hittum við þýskt par sem var að taka sig saman en benti okkur á að við þyrftum að finna "Tourist Info" í bænum og fá þar lykil að hreinlætisaðstöðunni, því hver gistikaupandi fengi sinn lykil. Þetta gerðum við allt saman, hittum fyrir indælis konu á upplýsingastofunni, greiddum henni 20 dkr. hvort fyrir sturtuna og fengum lykla. Ég lýsi því ekki þvílík himnasæla það var að komast loks í sturtu!

Við skiluðum svo lyklunum á tilsettum tíma og  héldum úr bænum. Klakksvík var ekki á planinu fyrr en síðar um daginn. Við vorum á leið út í Viðey, til smáþorps sem heitir Viðareiði og þar skyldi endastöð okkar í norðri vera. Annað er enda ómögulegt því að Viðareiði endar vegurinn einfaldlega!  Við ókum út úr Klakksvík að norðan þar sem heitir út með Haraldssundi. Haraldssund var áður opið til beggja enda en síðar var gerður garður um það þvert og um hann lagður vegur út í Kunoy -Konuey. Í Kunoy eru tvö smáþorp, annað ber nafn eyjarinnar en hitt nafn sundsins. Ekki ókum við þó alla leið út að þessum garði heldur liggur leiðin upp í hlíð og inn í ein elstu göng eyjanna, einbreið með útskotum og gerð 1965. Þau koma út innst í Árnafirði, rétt ofan samnefnds örþorps og vegurinn liggur svo að segja strax inn í önnur göng, ámóta að allri gerð enda álíka gömul, frá 1967. Frá nyrðri munna þeirra gangna var ekið meðfram norðvesturströnd Borðeyjar til smáþorpsins Norðdepils. Þar er stutt brú yfir eyjasund og þar með vorum við stödd í þorpinu Hvannasundi á Viðey. Við tók frekar stuttur akstur meðfram suðvesturströnd Viðeyjar, svo opnaðist lítil vík og við okkur blasti lokaáfangastaður okkar: Viðareiði:


Hér, á miðjum laugardeginum 21. lýkur 5. hluta. 

........................................................................................................................


Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 156540
Samtals gestir: 32391
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 12:23:00


Tenglar