Fyrsta hluta
lauk við smábátabryggjuna á Stöðvarfirði, þar sem Sólfaxi ruggaði við bryggju - eða ruggaði ekki. Það má líka bæta dálitlu við fyrsta hluta, því Elín Huld skrifaði nokkrar línur í ferðadagbókina um æðarblikagerið, og þar stendur m.a.: "Áðum eftir að Þvottárskriðum sleppti. Stórir hópar æðarblika í fjörunni. Borðuðum kvöldmat í bílnum. Aftur af stað kl. 22.10 - stefnum á nótt á Djúpavogi"
Annað var komið fram. Við vorum semsagt á öðrum degi ferðar í blíðskaparveðri og nýbúin að innbyrða góðgerðir hjá Þóru Björk og Björgvin (þessi tilvísun er vegna tvennskonar beygingarmyndar í þágufalli. Björgvin fær svo sinn hlekk HÉR) að Vinaminni. Ferðinni var heitið fyrir Hafnarnes, þar sem nú stendur aðeins grunnur gamla, franska spítalans sem stundum hefur verið nefndur "Fyrsta blokk á Íslandi" og er þá að sjálfsögðu átt við þann tíma sem hann stóð úti á Hafnarnesi - fram að því var húsið jú spítali í þorpinu Búðum við Fáskrúðsfjörð en var síðar flutt út á Hafnarnes og notað þar sem íbúðarhús. Svo hnignaði byggðinni í nesinu eins og gengur og eftir áratuga niðurníðslu var húsið tekið niður og viðirnir fluttir inn í þorp að nýju. Þar var húsinu svo fundinn staður andspænis gamla læknishúsinu, örskammt frá upprunalegum grunni og þeir viðir sem heillegir töldust, notaðir í endurgerð franska spítalans. Okkur fannst vel hafa tekist til, svona eftir því sem við höfðum vit á og það var afar gaman að skoða safnið sem komið hefur verið upp í húsunum tveimur.

Það er bráðnauðsynlegt að skoða þennan hlekk HÉR áður en lengra er lesið!
Þrjár næstu myndir eru teknar á neðstu hæð læknishússins þar sem safnið sýnir biðstofu, sjúkrastofu og skrifstofu læknisins. Vaxmyndirnar voru svo eðlilegar að eflaust hefur einhverjum orðið á að yrða á þær. Ég kann ekki frönsku svo ég reyndi ekki....
Á bringu þessa vesalings sjómanns lá kross og svipur nunnunar sem sat við rúmið bar með sér að hér yrði engu bjargað framar - en umboðsfólk almættisins tók að sér að leiðbeina sálunum á rétta leið.
Hér fyrir neðan má svo sjá endurgerða skrifstofu Georgs Georgssonar læknis við spítalann.
Læknishúsið ofan götu og spítalinn neðan hennar eru tengd með undirgöngum. Í undirgöngunum er endurgerður lúkar úr franskri fiskiskútu, svo eðlilega að varla sér hnökra. Það hefur ekki verið þægindunum fyrir að fara:
Í spítalahúsinu er nú rekið hótel og í kjallaranum er háklassa veitingasala. Það vað eiginlega ekki hjá því komist að smakka dýrindis kaffi með súkkulaðimola áður en safnið var kvatt og haldið úr bænum. Um leið og við snerum bílnum mynduðum við þessa gömlu veggmynd af skipum þeirra Fáskrúðsfirðinga.
Við ókum gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin (eða Reyðarfjarðargöngin, eftir því hvoru megin maður er staddur) og höfðum dálitla viðdvöl á tjaldsvæði Reyðfirðinga. Elín Huld komst þar í kynni við ungviði sem höfðaði sterkt til leikskólakennarans í henni:
Svo var það Neskaupstaður. Þessi mynd, sem tekin er af veginum ofan Eskifjarðar yfir Mjóeyrina og Hólmanesið segir meira en mörg orð um veðrið þennan dýrðardag, 18. júní:
Á því augnabliki sem við dvöldum í Neskaupstað tókst okkur að hitta tvo vini og fyrrum vinnufélaga frá því á árunum 1985/6 þegar við bjuggum og störfuðum á staðnum. Það voru fagnaðarfundir enda kynntumst við ekki öðru en besta fólki á þessum stað. Við brottför var skotið einni mynd yfir minn gamla vinnustað að Nesi í Norðfirði, þar sem nú stendur aðeins lítill hluti fjölmargra bygginga sem þarna voru tæpum 30 árum fyrr:
Við héldum til baka yfir Oddsskarð til Eskifjarðar þar sem ætlunin var að fara í sund. Þetta er hins vegar ekki sundlaugin heldur kirkjan, bara svo það sé á hreinu:
Fyrr um daginn höfðum við hringt í sundlaugina á Eskifirði og spurt um opnunartíma. Laugin var opin til kl. 21 um kvöldið og síðasta klukkutímann lágum við þar í bleyti og slökuðum á eftir stífan ferðadag. Við yfirgáfum laugina nákvæmlega kl. 21 og héldum af stað inn til Reyðarfjarðar og þaðan á Fagradalinn. Enn var nokkru ólokið.......
Við ætluðum nefnilega að eyða síðari nótt þessa tveggja daga ferðalags á Seyðisfirði, þar sem útilegukortið okkar gilti. Við vorum vel birg af fóðri úr Bónus á Selfossi og höfðum því enga viðdvöl á Egilsstöðum nú. Þessi mynd var tekin úr brekkum Fjarðarheiðar þar sem á okkar korti heitir Norðurbrún:
....og frá sama stað með örlitlum aðdrætti:
Klukkan var nákvæmlega 21.55 þegar við mættum á tjaldsvæðið á Seyðisfirði og vörðurinn var að gera upp. Við réttum fram kortið okkar, þvóðum því næst bílinn á nálægu þvottaplani og fundum okkur náttstað. Svæðið var þéttsetið en þó ekki alveg fullt, sem aftur gaf fyrirheit um fjölda farþega með Norrönu morguninn eftir.
Kvöldið var rólegt, nóttin færðist yfir og annar dagur ferðalagsins vék fyrir þeim þriðja: Brottfarardeginum!
.................................................