Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.07.2014 22:09

Á leið til Færeyja.


Það er vandi vel boðnu að neita þegar manni er boðið til Færeyja - og það gerist svo sannarlega ekki á hverjum degi. Þannig var það nú samt og þá náttúrlega þiggur maður gott boð. Sú kvöð fylgdi þó boðinu að ég skyldi koma föruneytinu austur á Seyðisfjörð, um borð í skip og af því aftur suður og heim. Þessutan skyldi falla á mig að sjá um gistingu og ferðalög innan Færeyja. Til að gera langa sögu stutta var boðið sniðið utan um Hótel Sjúkrabíl og það gagn sem af honum mætti hafa í slíkri ferð.

Það kostar klof að ríða röftum: Sjúkrabíllinn var jú þokkalega búinn til ferðalaga innanlands þar sem allt er til alls, allsstaðar. Ég vissi hins vegar ekkert hvernig háttaði til þar ytra (þ.e.a.s. ef Færeyjar eru yfir höfuð í útlöndum) og því var vissara að ráðast í stórframkvæmdir á innviðum bílsins og bæta í hann ýmsu því sem nauðsynlegt er á langferðalögum. Brottför frá Seyðisfirði var ákveðin þann 19. júní og heim skyldum við koma réttri viku síðar. Allt bar þetta brátt að og strax var ljóst að setja yrði aðrar fyrirfram ákveðnar framkvæmdir í bið meðan nauðsynlegum ferðaundirbúningi væri sinnt. Síðan var ráðist í endurbætur á ferðadrekanum og að þeim loknum hafði svefnaðstaða batnað nokkuð, komið var fyrir ágætis fatahengi og smíðaður var klefi fyrir dömuhægindi (ég kalla það dömuhægindi því mér finnst það betur hæfa. Auðvitað mega karlmenn nota slíkt hægindi til minni athafna sem kannski mætti sinna utandyra. Dömum er slíkt óhægt og því kýs ég að kalla athvarfið dömuhægindi).  
Utan alls þessa var útlit bílsins lagfært nokkuð, m.a. var húddið málað og eins var málað yfir rauðar/gulgrænar rendur á hliðum toppsins allan hringinn.









Róm var ekki byggð á einum degi. Þessar smíðar tóku sinn tíma og þar sem það er heldur engum ætlandi að aka austur á Seyðisfjörð á einum degi var brottför ákveðin þann sautjánda júní. Við lögðum af stað um hádegisbil og þótt ótrúlegt sé var veðrið á þessum þjóðhátíðardegi enn prýðilega gott. Það átti svo eftir að breytast er leið á daginn og varð þá sannkallað "þjóðhátíðarveður".

Fyrsti viðkomustaður okkar var Olís á Selfossi. Þar var fyllt af dýrindis dísilolíu enda var vitað að næsta ÓB stöð væri ekki fyrr en á Höfn og þangað skyldi tankfyllin duga. Svo var komið við í bakaríinu uppá kaffi og snúð. Að síðustu var það Bónus og kyrfilega fyllt á allar forðageymslur - það var jú bara þriðjudagshádegi og við þurftum nesti fram til föstudagsmorguns - sem þá yrði í Færeyjum. 

Svo var sett á krúsið og stillt á níutíu. Umferðin var skapleg og veðrið enn þokkalegt en eftir því sem austar dró þyngdi í lofti og dropar birtust. Á Klaustri var orðið verulega þungbúið þegar við droppuðum þar inn á Enneinn í kaffisopa. Þar utanvið var maður að dæla eldsneyti á bíl og að því loknu kom hann til okkar og hóf spjall. Þar reyndist kominn eigandi "tvíburans" á Hörgslandi á Síðu, sem við litum á í fyrrasumar og lesa má um HÉR.....Við áttum ágætis spjall og komumst m.a. að því að báðir höfðum við sennilega gert betri kaup en hinn! Hvor gat því unað glaður við sitt og við kvöddumst sáttir. Loftið hélt áfram að þykkna og dropunum fjölgaði eftir því sem Suðurlandið seig afturfyrir og Suðausturlandið tók við. Við Skaftafell var samt enn sæmilegt og slæðingur af ferðamönnum hvarvetna. Við ókum viðstöðulaust allt að Fjallsárlóni en lögðum leið okkar þangað uppeftir og tókum stutta ökuhvíld. Elín Huld arkaði niður að lóninu með myndavélina:





Hún var enda betur skædd en ekillinn, sem hefur fyrir sið að aka annaðhvort á sokkunum eða sandölum. Fyrir þessa ferð höfðu verið dregnir fram strandskór, líklega keyptir í síðustu Danmerkurferð. Þeir reyndust ekki heppilegur fótabúnaður í grjóti þótt þægilegir væru í akstri:

 

Eftir þetta stopp við Fjallsárlón mátti heita að komin væri þoka. Af brúnni við Jökulsárlón sást aðeins stutt uppeftir sjálfu lóninu og austan við það þykknaði enn. Við höfðum ákveðið að skoða Þórbergssetur að Hala í Suðursveit ef þess væri kostur og svo varð. Húsið var raunar að fyllast af matargestum en safnið sjálft var mannlaust og við skoðuðum það í rólegheitum.



Það var afar gaman að skoða þetta safn, enda er það snilldarvel uppsett. Þar mátti m.a. sjá hluta af íbúð Þórbergs í Reykjavík endurgerðan með munum úr búi þeirra hjóna:



Frá Hala og austur um var rigning. Þoka og rigning! Dæmigert þjóðhátíðarveður! Það rigndi líka á Höfn þegar ég lagði við tankinn á Olísstöðinni og troðfyllti drekann af eldsneyti. Eyðslan frá Selfossi reyndist vel undir 15/100 og ekki til að kvarta undan. Þegar kom að því að borga hittist svo á að búðin fylltist af erlendum unglingum, sennilega heilli rútufylli. Svo kurteisir voru þessir unglingar að þegar þeir höfðu áttað sig á að ég var aðeins að bíða eftir að greiða olíuna og kaupa eina G-mjólk í kaffið fyrir Elínu, drógu þeir sig frá borðinu svo ég kæmist sem fyrst að með mitt erindi og tvær dömur sögðu um leið eitthvað í þá veruna: "We will be here all evening anyway". Svo fygdu skríkjur. Einn hring tókum við um bæinn í muggunni en héldum því næst rakleitt austur eftir með stefnu á Djúpavog. Það var komið talsvert fram yfir kvöldmatartíma þegar við renndum niður á lítið bílastæði neðan vegar frammi á sjávarhömrum. Ég veit ekki hvað þessi staður heitir en sýndist hann vera gerður fyrir fuglaskoðara. Þarna voru nokkrir bílar og helst var að sjá að þar færu eingöngu útlendingar. Undir bökkunum, í fjöruborðinu og spölkorn framan við það var einhver sá alstærsti skari af æðarblikum sem við höfðum augum litið. Engu var líkara en þarna stæði yfir einhvers konar Blikaþing, fuglarnir virtust skipta þúsundum - jafnvel tugþúsundum:



Þarna var tekið stutt nestisstopp en svo haldið áfram á fullri ferð austur á Djúpavog. Þegar við ókum inn í bæinn blasti við okkur appelsínurautt garðskraut af öllum mögulegum og ómögulegum gerðum - það var ljóst að bæjarbúar höfðu lagt sig alla fram um að skreyta bæinn á þjóðhátíðardaginn. Tjaldsvæðið var nær fullt og engan stað sáum við þar sem okkur leist á svo við fundum okkur blett rétt utan bæjarins og eyddum fyrstu nótt ferðalagsins þar. Þessa nótt hvessti svo að bíllinn lék á reiðiskjálfi og milli dúra varð manni hugsað til ferðalags morgundagsins, sem átti að innihalda svo margt skemmtilegt - það var ekki beint útlit fyrir mikla skemmtun að óbreyttu!

En það breyttist svo sannarlega. Að morgni var komið besta veður þegar við héldum til bæjar og keyptum okkur kaffi og kökusneið. Meðan við drukkum kaffi renndi í bæinn lítill hópur mótorhjólafólks. Sá hópur átti eftir að koma meira við sögu....

Við gáfum okkur líka tíma til að litast um í bænum og skoða skreytingarnar:





Þessit höfðu líklega tekið heldur betur á því kvöldið áður:



....og þessi hafmeyja hafði líklega tapað áttum í gleðskapnum og ekki ratað til sjávar aftur:



Svo birtist þessi gamli Rolls Royce (eða svo hafði ég fyrir satt). Mér var sagt að þarna væru Bretar á landsyfirreið:



Á skilti við eina götu bæjarins stendur "Eggin í Gleðivík". Þessi egg eru úr graníti og eru verk listamannsins Sigurðar Guðmundssonar. Það fer best á því að tengja beint yfir á síðu Djúpavogs þar sem finna má kynningu á verkinu....HÉR.





Svo var þessi snyrtilegi og vinalegi bær Djúpivogur, kvaddur, haldið inn eftir Berufirðinum og fyrir hann. 



Handan fjarðar rákumst við á þessa hornprúðu félaga. Þeir virtust ákaflega spakir enda var heitt í veðri og þá er betra að slaka á. Þeir höfðu allavega ekki allt á hornum sér.....



Inn fjörð, út fjörð, fyrir nes.....dálítið eins og Ísafjarðardjúpið, ekki satt? Þetta var samt ekki Djúpið og samlíkingin átti engan rétt á sér. Norðan við þetta nes beið okkar Breiðdalsvík:



Við komum síðast til Breiðdalsvíkur sumarið 2004 og höfðum þá næturdvöl. Við vorum sammála um að staðurinn hefði talsvert breytt um svip síðan þá og að öllu leyti til hins betra. Húsin voru betur hirt, bátunum hafði fjölgað umtalsvert og yfirbragðið allt var einhvernveginn  - glaðlegra. Má ekki segja það?



Þetta hús heitir Hamar og á því var ákaflega áhugaverður skjöldur:





Já, stríðið.....stríðið! Það kom víða við, jafnvel í friðsælu smáþorpi austur á fjörðum. Enn eitt nes, enn einn fjörður. Nú Stöðvarfjörður:



Við áttum leið um Stöðvarfjörð sumarið 1986. Þá gáfum við okkur ekki tíma til að skoða steinasafnið hennar Petru - og kannski spjalla við Petru sjálfa. Næst áttum við leið hjá sumarið 2004 og aftur vorum við á hraðferð, eða það héldum við. Nú, tíu árum síðar kom ekkert annað til greina en að skoða safnið. Við vorum hins vegar of sein að hitta Petru - nema þá sem höggmynd:







Þetta safn er hreint ótrúleg perla og því hefur verið sá stakkur búinn að unun er að ganga um og skoða:



Það má líka finna eitt og annað en bara steina, eins og t.d. þetta pennasafn. Í þessu húsi er svo ævisaga Petru rakin í myndum og máli - og þá um leið saga safnsins.






Meðan við skoðuðum safnið ók mótorhjólahópurinn frá morgninum á Djúpavogi hjá, án viðstöðu.

Þegar við ókum frá steinasafninu sáum við hvar hún Þóra Björk stóð utan við við húsið sitt, Vinaminni. Þau stóðu þar raunar bæði, hún og Björgvin og það varð ekki ekið hjá. Okkur var tekið eins og höfðingjum - allavega voru móttökurnar höfðinglegar eins og búast mátti við. Að heimsókn lokinni var rennt einn hring um höfnina og þar lá kunnuglegur bátur úr Snarfarahöfninni syðra. Skemmtibáturinn Sólfaxi hafði forframast í fiskibát - ef það er þá forfrömun - og var kominn með rúllur og tilbehör. Fallega skorsteinslíkið á stýrishúsinu var hins vegar horfið fyrir einhverjum kassa.......



Hér læt ég staðar numið að sinni. Ég er aðeins á öðrum degi tólf daga ferðalags en þessi annar dagur var svo viðburðaríkur að honum verða ekki gerð skil í einum pistli. Gott í bili.
..................................................................

Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 156281
Samtals gestir: 32389
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 11:18:11


Tenglar