Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.06.2014 08:47

TOY?....


Til mín hringdi maður. Slíkt gerist öðru hverju og er yfirleitt bara skemmtilegt. Sum símtöl eru þó skemmtilegri en önnur og þetta var sannarlega eitt þeirra. Ég var spurður hvort mig langaði ekki til Ísafjarðar. Að sjálfsögðu sagði ég jú, enda langar mig oft til Ísafjarðar - ekki þó til að búa, svo það komi skýrt fram og enn síður til að vinna enda var allt slíkt fullreynt á sínum tíma. Það er hins vegar alltaf gaman að litast um, kíkja á kunningja (þá fáu sem ekki eru fluttir suður) og anda að sér hreinu lofti (sem vissulega er hreinna en hér í Höfðaborg)

Erindi þess sem hringdi var þó ekki að segja brandara þótt mikið hafi verið hlegið í símtalinu. Ég var spurður hvort - af því ég sagði jú - ég væri ekki til í að ferja nýjan sýningarbíl vestur fyrir hvítasunnuhelgina og suður aftur að henni lokinni. Það leist mér vel á. Þess vegna erum við Edilon B. Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp á leiðinni til Ísafjarðar nk. föstudag. Norsararnir spá fínu veðri, og það er sko miklu meira að marka þá en íslensku spárnar. (sem raunar virðast alltaf breytast í takt við þær norsku)

Ég hef einu sinni áður ferjað bíl á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur í þessum tilgangi. Í þeirri ferð varð dálítið óhapp sem kostaði nýtt TOY 7 - framnúmer og olli því að sláturtíðin hófst óvenju snemma það árið. Ég hef ekki fleiri orð um þann atburð en annaðhvort hafa stjórnendur fyrirtækisins sem sér um sýninguna fyrirgefið mér eða eru farnir að tapa minni........

Að öðru: Það kom fram í síðasta þætti að mikið stæði fyrir dyrum í Höfðaborg. Þar er engu logið. Það stendur sjúkrabíll fyrir dyrum og hann eigi alllítill!  Í tilefni ferðar sem framundan er, er verið að hægindisvæða sjúkrabílinn. Ég er að umbylta þeim litlu ferðainnréttingum  sem í hann voru komnar og byggja inn í hann náðhús af bestu gerð. Tækjabúnaðurinn er keyptur hjá Húsasmiðjunni, af gerðinni Shitmaster 2000 Pisswell og ætti botninn  ekki að vera suður í Borgarfirði með slíkum búnaði. Ennfremur er bætt í bílinn sérstakri geymslu fyrir regnföt, en mér hefur skilist að á þeim stað sem stefnt er til sé helst þörf á slíkum fatnaði. Öll leiða þessi umbrot til þess að stórskipið Stakkanes hefur verið sett í bið um hríð. Kannski muna einhverjir eftir línum sem ég skrifaði í maíbyrjun, um manninn sem sér um leigu á viðlegubásum í Bryggjuhverfinu. Ég hringdi í hann til að fá bryggjupláss fyrir Stakkanesið, það mun hafa verið um mánaðamót apríl-maí. Hann svaraði, sagðist vera upptekinn á fundi og myndi hringja eftir smástund. Þegar ég svo skrifaði áðurnefndar línur var liðin u.þ.b. vika frá símtalinu og maðurinn enn á fundi (væntanlega). Nú er semsagt liðið á annan mánuð frá því maðurinn lofaði að hringja, en Stakkanesið enn uppi á landi. Þetta hlýtur að vera einhver lengsti fundur sem sögur fara af!  

Nú stendur hins vegar ekki til lengur að sjósetja því Stakkanesinu verður hvort sem er ekkert sinnt fyrr en í júlíbyrjun. Á heilum mánuði getur svo margt breyst og hver veit nema í júlíbyrjun verði eitthvað allt annað uppi á teningnum?

Bassi er kominn úr morgungöngunni og við erum á leið suður að Kópavogshæli. Hvort við hefðum átt að fara þangað fyrir löngu læt ég öðrum eftir að dæma um.....

Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135172
Samtals gestir: 27911
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:26:25


Tenglar