.....að ég
væri á leið til Vestmannaeyja á morgun, föstudag og allt fram til mánudagskvölds. Ekki virðist það nú alveg vera, a.m.k. ekki miðað við veðurspána. Ég hef fylgst nokkuð grannt með spám síðustu daga því ég er ekki búinn að gleyma hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í fyrrasumar þegar ég átti pantað far til Eyja fyrir bíl og fólk en veðurspáin hljóðaði uppá "fárviðri". Á síðustu mínútu var þá tekin ákvörðun um að fara og árangurinn var hálfur þokkalegur dagur af tveimur mögulegum. Nú í morgun sagði norska spáin að auk rigningar yrði vindurinn ýmist "near gale" eða þá alveg "gale" á laugardaginn. Norska veðurspáin mín talar ensku af því ég er skárri í ensku en norsku. Samt má alveg þýða þessa spá svo allir skilji örugglega hvað við er átt. Þeir norsku vilja semsagt meina að veðrið verði svona á bilinu "nærri galið" og til alveg "galið"!
Þess vegna hringdi ég í afgreiðslu Herjólfs í morgun og afpantaði túrinn. Það var hálffúlt því það stóð mikið til í Eyjum um sjómannadagshelgina, m.a. hjá mótorhjólamönnum. Það gerist hins vegar ekki mikið í gölnu veðri og kannski síst hjá þeim hópi enda mótorhjól best geymd inni í veðri líku því sem spáð er. Mér heyrðist einhvern veginn á dömunni í Herjólfsafgreiðslunni að ég væri ekki einn í þessarri stöðu svo líklega er töluvert um afpantanir vegna veðurspár. Það verður samt farið til Eyja en ekki alveg strax - nú eru aðrir hlutir framundan sem krefjast tíma og undirbúnings. Þeir hlutir tengjast Stakkanesinu hreint ekki neitt, nema þá helst að ýta því alveg út í horn um stundarsakir.
Það er nú svo.....
......................