Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


26.05.2014 08:26

Sæfari hinn gamli.




Til mín kom maður færandi hendi. Það sem hann færði mér bar hann raunar á báðum höndum og dugði vart til. Hann var að hætta útgerð, og búinn að selja síðustu fleytuna að eigin sögn. Ég hef nú heyrt svona fullyrðingar áður og er kannski skemmst að minnast hans Gulla í Hólminum þegar hann sendi Rúnu sína vestur á Ísafjörð og sagðist vera hættur. Ég trúði því mátulega enda kom á daginn að Gulli gat ekkert hætt þá. Hann er kannski hættur núna en það eru líka nokkur ár frá Rúnu.....

Þess vegna glotti ég pínulítið svona útí annað - og lét það ekki sjást - þegar þessi vinur minn sagðist hættur. Hvað er það þó menn í sjávarþorpi selji bát og geri ekki út? Menn sem eiga hálft sitt líf á bryggjunni kringum trillur og trillukarla - hverju eru þeir hættir? Þeir eru enn að leggja sitt af mörkunum í formi reynslu, ráða og tillagna. Þeir eru enn þátttakendur í daglegu lífi sjávarþorpsins vestur á fjörðum þótt þeir geri ekki beinlínis út sjálfir. Geiri á Guggunni stjórnar ekki skipi eins og er en hann verður alltaf skipstjóri og það er ekkert sem aftrar honum frá því að starfa við það ef hann bara vill. Hann er á kafi í öllu því sem snertir sjávarútveg enda til enda. Er hann þá hættur einhverju?

Allt ofanritað er aðeins inngangur og skal skoðast sem slíkt. Það kom nefnilega til mín maður sem sagðist vera hættur að eiga bát og vildi gefa mér dót sem hann átti en hafði aldrei notað. Sumt af þessu dóti var nýtt, enn í umbúðum og hafði eflaust verið keypt á einhverju bátleysistímabilinu í því augnamiði að nota það í næsta bát. Svo hefur sá bátur líklega verið með öllum búnaði og engin þörf fyrir þennan nýja í umbúðunum. 

Með tímanum varð svo nýi búnaðurinn ekki lengur nýr, tæknin eltist og afdankaðist. Ég man að gamli maðurinn pabbi geymdi um árabil sex volta háspennukefli, glænýtt í umbúðum. Þegar hann var að "taka til" eins og hann kallaði það en var í rauninni að framkvæma svona nokkurs konar eignakönnun á hálfgleymdu dóti, hampaði hann gjarnan þessu háspennukefli sem hlut " í fullu gildi" svo notuð séu hans eigin orð. Og víst var háspennukeflið " í fullu gildi " í þeirri merkingu að það var nýtt, ónotað og í fullkomnu lagi. Gallinn var bara sá að bílar með sex volta rafkerfi voru helst til á söfnum.

Þetta hugsaði ég þegar vinur minn bar inn dótið sitt, nýtt, ónotað og í upprunalegum umbúðum. Gamli koparkompásinn með tréspíranum  var reyndar ekki nýr og kannski ekki alveg " í fullu gildi " nema sem safngripur en norður er ennþá norður, suður ennþá suður og segulkompásar eru í eðli sínu alveg eins. Þess vegna var fíni, ónotaði og innpakkaði plast - hálfkúlukompásinn alveg í fullu gildi og hárréttur eftir því sem næst varð komist hér í Höfðaborg. Það var hins vegar hann Sæfari sem vakti mig til umhugsunar um manninn sem ég heyrði eitt sinn að væri að smíða skip suður með sjó. Hann hafði verið lengi að smíða og þegar komið var að því að kaupa siglingatæki var allt slíkt keypt af bestu gerð. Svo var haldið áfram að smíða mörg ár og á meðan fleygði tækni siglingatækja fram. Mér vitanlega er þetta skip enn uppi á landi og hefur aldrei verið sjósett, en sé sagan sönn er um borð dýrindis Loran-C sem líklega kemur seint að notum.......

Ég tók mynd af kassanum utan um Sæfara:




Engum skyldi blandast hugur um að þarna er á ferð hinn nýi, stórkostlegi Sæfari Mk.II, svo snarað sé beint úr "frummálinu" Allavega hefur framleiðandinn verið handviss í sinni sök, miðað við þennan breiða, gula og glaðlega borða á kassanum. Fátt er hins vegar nýtt að eilífu og við skulum athuga hvaða ár Sæfari var " great new ":



Jú, að vísu ógreinilegt en ég hef þá aðstöðu fram yfir lesandann að hafa kassann við hliðina á mér og geta rýnt í stimpilinn. Þarna stendur 31.maí 1972. Það stendur maí en ekki "may" sem þýðir að þetta er íslenskur póststimpill eða þá tollstimpill. Sæfari hinn stórkostlegi nýi var semsagt nýr árið sem ég fékk skellinöðrupróf og eflaust hefur hin stórkostlega nýjung hans verið fólgin í því að vera pappírslaus, því á þeim tíma notuðu flestir meiri háttar dýptarmælar ókjörin öll af pappír á rúllum. Sæfari hefur heldur ekki verið eins meiriháttar og pappírsmælarnir að því leytinu til að hann hefur varla getað sýnt fiskilóðningar. Hann hefur frekar verið svona dýpisteljari, ætlaður í skútur og skemmtibáta þar sem fiskur þykir ófínn og er nánast bannaður vegna óþrifa og ólyktar.

Ég tók Sæfara upp úr kassanum og skoðaði hann í krók og kring. Hann virðist aldrei hafa verið notaður en kannski verið prófaður því rafleiðslurnar eru afeinangraðar og trosnaðar í endann. 



Mín ágiskun er sú að mælirinn hafi ekki fengist til að virka og því farið aftur ofan í kassann til seinni tíma athugunar. Og á hverju skyldi sú ágiskun nú byggjast? Jú, á því að þegar ég lagðist í "gúggl" til að vita hvort alheimsnetið vissi eitthvað um svona "Great New Seafarer" þá fann ég það út að sendirinn/móttakarinn sem sendir og nemur hljóðbylgjur mælisins og á að vera fyrirkomið innanborðs en ekki gegnum bátsskrokkinn, skal liggja í olíubaði og það skal ekki vera nein smurolía - nei, alheimsnetið fullyrti að nota skyldi það sem þar hét "castor oil"



Með áframhaldandi gúggli fann ég út að "castor oil" er jurtaolía - semsagt matarolía. Sendirinn á The Great New Seafarer virðist aldrei hafa komist í snertingu við slíkan metal og því er ólíklegt að nokkuð vit hafi fengist í mælingar hans við prófun. Enginn leiðbeiningabæklingur var í kassanum og ég giska á að sá bæklingur hafi gengið milli manna í tilraunum til að fá Sæfara til að virka en að lokum endað á/í náttborði eigandans og dagað þar uppi. 

Það verður áreiðanlega ekki langt þar til Sæfari verður kominn um borð í stórskipið Stakkanes ásamt smáleka af matarolíu í passandi hylki......


.......og þótt hann sé að sönnu ekki lengur "NEW" þá skal sko allavega koma í ljós hvort hann er "GREAT" eður ei!

............................................................................

Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135206
Samtals gestir: 27929
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:47:58


Tenglar