Stundum er
ekkert grín að vera útgerðarmaður. Raunar skilst manni að útvegsmenn í dag séu einn samfelldur grátkór en það er önnur saga. Það getur hins vegar ekki verið neitt grín að vera útgerðarmaður á stað eins og þessum á myndinni hér fyrir neðan. Þetta er engin myndagáta enda þekkja flestir eða allir þennan stað.
Það er illmögulegt fyrir þann sem alist hefur upp vestur á fjörðum að skilja svona aðstæður. Ég vissi að útgerð frá þessum stað - eins og systurplássinu - hafði kostað mörg tjónin, bæði mannslíf og eignatjón en ég gerði mér samt enga grein fyrir því að aðstæðurnar hefðu getað orðið svona. Það fjarar jú tvisvar á sólarhring og á myndinni er líklega stórstraumsfjara en maður kemst ekki hjá því að hugsa um afleiðingarnar ef skyndilega hvessti nú af einhverri suðlægri átt. Þá hefur verið undir hælinn lagt hvort var á undan - menn út í bátana eða bátarnir upp í fjöru! Ekki hefur verið hættulaust að róa út í mótorbátana í vaxandi hviku - eins og bitur reynsla sýndi. Björninn var heldur ekki unninn þótt komist yrði um borð því það hefur ekki verið auðvelt að hemja mótorbátana á þessum pollum meðan beðið var eftir að nóg félli að til að flyti yfir skerin framanvið - en úti fyrir sívaxandi brim!
Þetta eru hreint ótrúlegar aðstæður og með ólíkindum hversu lengi menn þrjóskuðust við útgerð frá þessum tveimur þorpum við ströndina. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, myndin talar sínu máli og svo má hver og einn hugleiða fyrir sig......
.................................