Á
sölusíðunni "Haninn.is" undir
liðnum "Bátar og búnaður" er auglýstur Færeyingur. Ef einhvern langar að skoða auglýsinguna þá er bein leið að henni HÉR. Ég þurfti ekki að lesa lengi til að kannast við bátinn. Þarna er nefnilega klárlega verið að auglýsa hann SÓLÓ minn fyrrverandi. Að vísu er vélin sögð ´98 (eða það skil ég af auglýsingunni) og má svo sem vel vera að skipt hafi verið um vél frá því ég seldi, en allavega er sögð í honum 70 ha. Mermaid eins og ég setti í hann. Sú vél var raunar árgerð 1987 og kom úr Sólbjörtu KE, sem seinna hét Kofri ÍS og enn seinna Lea RE.
Ég veit ekki hvernig Sóló lítur út í dag. Ég sá hann fyrir tveimur árum eða svo, við bryggju í Vogunum og þá leit hann prýðilega út. Miðað við auglýsinguna á Hananum nú hefur hann fengið talsvert klapp og ætti því jafnvel að vera enn fínni.
Hins vegar hefur hann Sóló ekki alltaf verið fínn og það veit ég öðrum betur. Ástandið á honum var vægast sagt sorglegt þegar ég eignaðist hann á Suðureyri vorið 1997. Þá hét hann Sigurörn ÍS 36, hafði verið kvótabátur í togarakerfinu og þegar kvótinn hafði verið rýrður niður í einhver fimm tonn var enginn grundvöllur fyrir útgerðinni lengur. Sína síðustu róðra fór hann með ónýta vél, dreginn út á færaslóðina að morgni af línubátum og hirtur upp aftur á landleiðinni! Það haust var hann svo rúinn öllu, kvótarestinni, veiðiheimildinni og rúmmetrafjöldanum - semsagt úreltur sem fiskibátur. Hann var tekinn á land í vagninn sinn og fleygt til hliðar sem hverju öðru drasli á uppfyllingunni innst í þorpinu. Í illviðri fauk vagninn á hliðina með bátnum í og hvorttveggja skemmdist nokkuð. Á þessum tíma var ég að vinna talsvert á Suðureyri og ók nær daglega framhjá þessarri sorglegu fleytu. Einhvern veginn kom það til að ég fór að velta fyrir mér möguleikum á að eignast bátinn, eftir stuttar samningaviðræður gekk það eftir og ég gaf sjálfum mér Sigurörn í fyrirfram - fertugsafmælisgjöf.
Vélin ónýta hafði verið tekin úr bátnum og flutt á Suðurnesin, þar sem eigandinn var búsettur. Hún var send vestur í fiskikari og látin fylgja bátnum við söluna. Þetta reyndist vera 33ja hestafla Volkswagen Golf/Passat dísilvél, "marineruð" einhversstaðar í Evrópu og fékk eftir það nafnið PIRANHA. Ekki leist mér gripurinn traustvekjandi og á endanum var hún gefin Stefáni á Innari - Lambeyri í Tálknafirði. Einhverjir munu þekkja til Stefáns og vita að þar fer maður sem ekki hnýtir sína bagga sömu hnútum og aðrir og er þá varlega orðað! Aðrir minnast hans kannski af heimsókn Gísla Einarssonar í þættinum "Út og suður".
Ég á því miður ekki margar myndir af Sigurerni / Sóló, hvorki "fyrir né eftir". Þessar sem hér fylgja á eftir tók ég þegar kaupin höfðu verið gerð:
Að innan var aðkoman eins og búast mátti við. Þar var allt á tjá og tundri og öllu ægði saman, varahlutum og veiðarfærum og allur hrærigrautirinn var svo baðaður hráolíu úr Sóló-eldavélinni - eða það hélt ég allavega.
Um leið og ég hafði eignast Sóló var hann dreginn út að athvarfinu sem ég átti á Suðureyri og stillt upp undir vegg. Þar var allt lauslegt tekið úr honum og því ónýta hent. Annað var þrifið upp og sett í geymslu. Síðan var farið í "föstu" hlutina, talstöð, kompás og olíueldavélina. Ég hafði prófað að kveikja upp í henni með þeim árangri að litlu munaði að bæði bátur og nærstandandi hús yrðu eldi að bráð. Ég hét því að svona lífshættulegt apparat yrði ekki um borð í MÍNUM bát og seldi því eldavélina sumarbústaðseiganda inni í Djúpi. Sá sumarbústaður stendur enn...
Það þurfti á skrá bátinn á mitt nafn og það var gert hjá sýslumanni á Ísafirði og gjörningnum þinglýst eins og vera bar. Báturinn átti ekki að heita Sigurörn áfram, þó það væri í sjálfu sér ágætt nafn. Hann átti að heita Stakkanes en á einhverju tímabili ákvað ég að geyma það nafn til betri tíma. Þegar einhverjar frístundir gáfust frá brauðstriti og áhugamálum lá ég í bókum og á þessum tíma (og raunar enn) voru mínar helstu biblíur Grunnvíkingabók, Hornstrendingabók og Árbók F.Í. frá 1994, "Ystu strandir norðan Djúps". Ég hafði heillast af frásögnum um útgerð norðanmanna á árum áður og las mér talsvert til um þau mál. Það mun hafa verið á öðrum áratug nýliðinnar aldar að Eiríkur Benjamínsson frá Marðareyri í Veiðileysufirði gerði út bát frá Hesteyri sem hét Sóló. Ekki veit ég hvort á þeim tíma var farið að framleiða samnefndar olíueldavélar eða hvaðan Eiríkur Benjamínsson hafði þetta nafn. Mér fannst það gott, bæði vegna þess að það var stutt og skýrt, og eins vegna þess að ég stóð einn í öllu þessu brasi kringum Færeyinginn minn á Suðureyri - þar áttu aðrir engan hlut og komu ekki nærri. Færeyingurinn Sigurörn ÍS 36, áður Elín ÍS 2 fékk því nafnið Sóló ÍS - án tölustafa enda réttlaus með öllu og því skráður skemmtibátur.
Það er svosem óþarfi að tíunda hvert smáatriði sem gert var við bátinn. Það nægir að segja að hvergi var lófastór blettur látinn ósnertur. Samt má nefna að þó olíueldavélin væri fjarlægð þá hélst olíulyktin í bátnum enda kom á daginn að brennsluolíutankurinn lak. Hann var úr trefjaplasti, innsteyptur sem þröskuldur í stýrishúsið og vonlaust reyndist að finna lekann. Ég smíðaði því nýjan tank úr ryðfríu stáli, skar upp plasttankinn og kom þeim nýja fyrir innan í honum. Hann var eðlilega allmiklu minni en ég taldi það ekki koma að sök - ég ætlaði ekki að sigla til Grænlands á fyllingunni! Í stað olíueldavélarinnar kom svo glerfínn viðarskápur og ofan á hann tveggja hellu gaseldavél.
Vestur á Flateyri var Eggert Jónsson að skipta um vél í Fífunni sinni. Fífan var Færeyingur af eldri/minni gerð og úr honum kom 33 ha. Mitsubishi/Vetus vél. Mér var bent á þessa vél og það var auðsótt mál að fá hana. Mig minnir m.a.s. að Eggert hafi gefið mér hana - eða þá selt fyrir sáralítinn pening. Hann talaði um gangtruflun í henni, líklega vegna olíuverks eða óhreinna spíssa. Að öðru leyti var vélin ágæt. Hún var sótt til Flateyrar á kerru, drifin heim í athvarf og hreinsuð upp.
Þegar búið var að lagfæra bátsskrokkinn utan og innan var komið að því að mála. Það rigndi "dálítið" sumarið 1997 og ég fékk inni í Vélsmiðju Suðureyrar hjá Guðmundi Karvel, til að mála bátinn.
Þegar málverkinu var lokið var Sóló dreginn til baka út að athvarfinu og lagt í stæðið sitt. Þar var hafist handa við að koma Mitsubishi- vélinni hans Eggerts fyrir og mikil vinna lögð í hvert smáatriði. Þegar öllu var lokið sem ljúka þurfti kringum vélina var talsvert liðið á vorið 1998 og farið að hilla undir sjósetningu. Þegar "nýja" vélin var prófuð kom hins vegar í ljós að hún gekk mjög illa og greinilegt var að hun yrði ekki notuð án gagngerðrar yfirhalningar á olíukerfi. Til þess hafði ég hvorki tíma né afgangs peninga og sjósetningu var slegið á frest.
Svo gerðist það að ég sat einu sinni sem oftar í kaffi hjá Viðari tannlækni á Ísafirði. Þar var einnig Sverrir Pétursson í Súðavík, þá trilluútgerðarmaður á Kofra ÍS sem var fimm tonna 700-Viking bátur. Eitthvað bárust vélarvandræðin í tal og Sverrir, snöggur upp á lagið eins og venjulega, spurði: "Vantar þig vél? Þú getur fengið vél. Bara sækja hana sem fyrst"
Þannig var að Kofri ÍS lá við bryggju í Súðavík eftir vetrarvertíð á línuveiðum og fyrir dyrum stóðu miklar breytingar á bátnum, m.a. lenging, útsláttur og vélarskipti. Allt átti þetta að vinnast suður á Akranesi, muni ég rétt og báturinn átti að fara suður landleiðina. Skv. verksamningi átti Sverrir að vera búinn að fjarlægja gamla vélbúnaðinn úr bátnum áður og þarna var komin leið til að losna við allt batteríið í einu. Auðvitað þáði ég gott boð því í Kofra var sjötíu hestafla Ford Mermaid vél og vökvagír - í raun alltof öflugur búnaður fyrir Færeying eins og Sóló sem átti einungis að verða skemmtibátur en það var nóg pláss og nægur burður í bátnum. Okkur Sverri talaðist til um ákveðinn dag til að taka vélina úr Kofra inni í Súðavík og á þeim degi mætti ég inneftir með verkfæri og kerru í eftirdragi. Þegar ég kom á bryggjuna var Kofri í gangi og tekinn var einn hringur út á fjörð á fullri ferð. Síðan var lagt að og ráðist til atlögu við vélina. Verkið vannst vel og innan stundar dinglaði vélin í löndunarkrananum. Þegar hún var lögð á bretti á kerrunni var hún enn snarpheit!!
Ég dró svo Sóló inn á bryggju á Suðureyri og notaði löndunarkrana þar til að hífa Mitsubishivélina frá borði. Næst lá leiðin inn í hús Bátasmiðju Vestfjarða við Suðureyrarhöfn þar sem Friggi Jó. (Grunnvíkingur m.m.) steypti nýjar og endurbættar undirstöður undir Mermaid vélina. Í leiðinni var sett skriðbretti á bátinn.
Að þessu loknu var Mermaid vélin, nýþrifin og máluð, sótt á kerru og hífð um borð með löndunarkrananum. Báturinn var svo enn einu sinni dreginn út að athvarfinu og lagt þar undir vegg.
Mitsubishi vélina fór ég með niður í smiðju til Guðmundar Karvels því á þessum tíma var Óli heitinn Olsen með bát sinn HARRY HF-86 á handfærum vestra og í þeim bát var samskonar vél, reyndar undir merkjum SABB. Mér fannst sjálfsagt að Óli eða einhver annar fengi að nýta vélina í varahluti ef þyrfti.
Veturinn ´98-99 var notaður til að ganga frá Ford Mermaid vélinni í Sóló og þegar leið að vori var allt að verða tilbúið. Ég var nokkuð sáttur við verkið, og það voru aðeins þrjú atriði sem ég hafði þurft að fá aðstoð við á smíðatímanum. Fyrst skal nefna Frigga og hans hjálp, sem var ómetanleg við vélarundirstöður og skriðbrettið. Þá hafði Eyjólfur Tryggvason rafvirki frá Lambavatni á Rauðasandi smíðað fyrir mig hleðslustýringu milli rafgeymanna. Að síðustu fékk ég rafvirkja á staðnum til að yfirfara fyrir mig startarann.
Loks var allt tilbúið og um mánaðamótin apríl-maí 1999 var Sóló sjósettur í fyrsta sinn eftir tveggja ára gagngera yfirhalningu í vörinni á Suðureyri. Þegar báturinn flaut átti að setja í gang en þá virkaði startarinn nýyfirfarni, alls ekki. Þetta var fyrsta startið frá því vélin var tekin úr Kofra í Súðavík árið áður og endilega skyldi það bregðast! Báturinn var dreginn að bryggju, ég tók startarann úr og fór með hann út í athvarf. Tók hann sundur og þá blasti við að það hafði hreinlega ekkert verið litið á hann! Það varð því lítið úr þeirri hjálpinni og ég mátti taka startarann sjálfur í gegn með varahlutum frá Pólnum hf. á Ísafirði. Eftir það vann allt eins og skyldi, endum var sleppt og Sóló sigldi reynsluhring út á Súgandafjörðinn. Allt reyndist í lagi og báturinn var bundinn við bryggju að nýju. Nú var ekkert að vanbúnaði og snemma næsta morgun tók ég með mér gamlan björgunarbát yfir á Suðureyri, setti í gang og þar með kvaddi gamli Sigurörninn hans Morten Holm Suðureyri í síðasta sinn.
Það var fallegt veður þennan vordag en þótt myndavélin væri með í för tók ég aðeins eina mynd. Ég var með hugann við vélina og allt henni tengt, hvort allt myndi nú virka eins og til stóð því prufusiglingin hafði verið stutt. Bátnum miðaði vel áfram og eftir stutta stund var beygt fyrir Göltinn:
Allt gekk vel og það var eggsléttur sjór fyrir Keflavíkina, Öskubak, Skálavík og Deildina. Nú var ekkert sýnilegt lengur af flaki Hafrúnar ÍS - áður Eldborgar GK, fyrsta íslensksmíðaða tveggja þilfara skipsins sem strandaði innan til við Deildina í vetrarlok 1983. Sóló rann inn með Stigahlíðinni og það var ekkert sjáanlegt framundan sem gat orsakað það risahögg sem allt í einu kom á bátinn! Hann hreinlega kastaðist til og hentist úr stólnum niður á gólf. Frammi í lúkar hentust sessur úr bekkjum, dýptarmælirinn skekktist í festingunni og nýja gaseldavélin hoppaði úr skorðum sínum. Það fyrsta sem mér datt í hug var flúð, að ég hefði farið of nærri landi og lent á flötum kletti. Ekkert benti þó til þess en ég stýrði bátnum samt beint út til öryggis, kúplaði þar frá og fór afturí til að athuga vélina. Enginn leki var sjáanlegur og ekkert rask nema plitti framan við vél hafði aflagast. Hann var settur á sinn stað og sigldur einn hringur um svæðið til að leita að mögulegu rekaldi. Ekkert var að sjá en samt fannst mér líklegast að ég hefði lent á trjábol marandi í sjóskorpunni þó ekkert sæist í fljótu bragði.
(Ég spurði menn sem kunnugir eru á þessum slóðum um mögulegar grynningar útaf radarstöðinni á Bolafjalli en enginn kannaðist við neitt slíkt þar. Ég hef allar götur síðan haldið mig við trjábolinn.....)
Þegar siglt var inn með Óshlíð fór að bera á gangtruflunum í vélinni. Hún fór að "regulera" öðru hverju, fyrst með talsvert löngu millibili en síðar örar. Ég fór aftur í, leit á vélina og sá litlar loftbólur í gruggkúlu hráolíunnar. Við því var ekkert að gera annað en að handdæla öðru hverju og vona að vélin gengi alla leið til Ísafjarðar. Út af Hnífsdalsbryggjunni var gangurinn orðinn verulega slæmur og það stóðst á endum að um leið og ég renndi fyrir olíumúlann í Sundahöfninni á Ísafirði drap vélin á sér og Sóló rann síðustu metrana að bryggju.
Loftlekinn reyndist vera í bakrennslislögn vélarinnar en hún var frá framleiðanda lögð inn á aðallögnina. Það þurfti því að leggja nýja bakrennslislögn og útbúa aukastút á olíutankinn fyrir hana. Þetta tók dálítinn tíma með öðrum verkum en hafðist á nokkrum kvöldum. Eftir það var Sóló í toppformi. Um leið og olíulögnin var komin í lag var báturinn tekinn í vagn og botninn skoðaður ef vera kynni að eitthvað sæi á honum eftir höggið. Þar var ekkert að sjá utan smáskráma á kjöljárni og ljóst að höggið hafði eingöngu komið beint undir stefnið eða kjölinn framanverðan.
Mér fannst gangurinn á bátnum mega vera mýkri, stillti honum því upp framan við Vélsmiðju Ísafjarðar og fékk Jóa heitinn Þorsteins til að renna á hann nýja fjögurra blaða skrúfu sem áður hafði verið við 130 ha. Mermaid vél í Berta G. ÍS. Einhverju munaði en engu þó afgerandi.
Það skyggði kannski dálítið á hamingjuna að sumarið ´97, ekki löngu eftir að Sóló var keyptur, hafði verið tekin ákvörðun um að flytja búferlum suður á við, enda áttum við ágæta íbúð í Kópavogi. Sú ákvörðun stóð óhögguð og það var ekki alveg ljóst hvað yrði um Sóló eftir alla vinnuna. Ekki stóð þó til að selja hann en framtíðin var mjög óljós......
Vegna anna við vinnu og undirbúning flutninganna var ekki mikill tími til að nota bátinn um sumarið. Lengst af lá hann við bryggju en ein helgarferð var þó farin á honum norður í Jökulfirði. Ekki fór ég hana sjálfur heldur vinafólk, þau Guðmundur og Kolbrún, sem áður höfðu verið vitaverðir á Galtarvita en voru nú búsett á Ísafirði. Ágústmánuður fór allur í flutningana og á meðan var Sóló tekinn á land. Þegar öllu hafði verið fyrirkomið syðra og börnin komin í skóla fór ég aftur vestur, leigði húskrílið Amsterdam af Frigga Jó, félaga mínum og vann af mér tveggja mánaða uppsagnarfrest auk uppsafnaðra loforða vestur á Suðureyri. Sóló var settur aftur á flot og ég fór a.m.k. eina ferð norður í Grunnavík auk nokkurra veiðiferða þar sem aflinn var hengdur upp í hjall úti á Hnífsdalsvegi. Siginn fiskur varð svo mín aðalfæða þá tvo mánuði sem ég átti enn eftir að búa á Ísafirði. September leið og það saxaðist á október. Ég lofaði krílinu Bergrós Höllu að vera kominn suður á fjögurra ára afmælinu hennar þann 27. október og viku áður var Sóló tekinn á land og búið um hann á vagninum. Umbúnaðurinn tók mið af því að engan veginn var ljóst hvort báturinn yrði eitt ár á landi, tvö ár eða tíu. Framtíðin var algerlega óráðin. Áður en báturinn var tekinn upp sigldi ég honum nokkra "myndavélarhringi" í Sundunum og það var Sigurbjörn Karlsson, Bjössi í Bílatanga sem myndaði:
Ég má til að setja hér á eftir þessum siglingamyndum, tvær sem teknar voru við bryggju sumarið ´99. Þar liggur Sóló við hlið Bússa, eldri gerðar af Færeyingi í eigu Erlings Tryggvasonar. Á þessum myndum kemur glögglega fram stærðarmunurinn á eldri og yngri Færeyingunum og sést vel hve Sóló er miklu þróttmeiri skrokkur en Bússi, sá hvíti:
---------------------------------------------------------------------------------------------
Hálft annað ár lá Sóló innpakkaður í vagninum vestra. Þá loks gafst mér sjóflutningur á hagstæðu verði og bátnum var snarað um borð í flutningaskip. Til Reykjavíkur kom hann vorið 2001 og var þá dreginn suður í Hafnarfjörð að húsnæði gömlu bæjarútgerðarinnar á Norðurgarði sem nú er horfið. Þar hafði Kjartan Hauksson kafari frá Ísafirði bækistöðvar og hjá honum fékk ég aðstöðu til að sjóbúa Sóló að nýju. Að því loknu var hann sjósettur við Fornubúðir og lagt við bryggju. Tvisvar sinnum gerði ég tilraun til að fara á sjó en sneri við í bæði skiptin rétt utan við skipa-flotkvíarnar. Ég fann enga löngun til að fara út á sjó þar sem ekkert var fyrir stafni nema Grænland í fjarska - ekki Grænahlíð! Skömmu síðar auglýsti maður í blöðum eftir bát. Ég hringdi, bauð Sóló og samdægurs voru kaup gerð.
Þannig fór nú með bátinn sem mig hafði dreymt um árum saman, eytt tveimur árum í að endurbyggja, haft fjóra og hálfan mánuð á floti eftir það og notað sáralítið......
Næsta árið lá Sóló neðan við Kaffivagninn í Reykjavík og drabbaðist niður. Síðan fór hann upp á Akranes og var þar í allmörg ár. Þaðan fór hann í Vogana og var þar, eins og í upphafi segir, í ágætri hirðu. Nú er hann semsagt í Garðinum og enn til sölu........
Það er alveg
í góðu lagi. Ég á nefnilega Stakkanesið............
................................................................