Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.05.2014 07:49

Lundi færist um set


 Hann Lundi ST 11 lagði af stað í sína árlegu langferð nú í morgun. Lundi hefur nefnilega vetursetu á Höfðanum í Reykjavík og þiggur klapp eiganda síns og útgerðarmanns. Svo þegar líður að strandveiðitímabili leggur Lundi land undir kjöl (hjól) og ferðast um landveg norður til Hólmavíkur. Þaðan er honum svo siglt til Norðurfjarðar því í Norðurfirði á hann sína löndunarhöfn og þegar Lundi er hvorki á sjó né að landa afla hvílir eigandinn/útgerðarmaðurinn/skipstjórinn lúin bein í fjölskylduhöllinni á Gjögri. Strandveiðitímabilið 2014 hefst frá og með morgundeginum, mánudeginum 5.maí og ekki seinna vænna að drífa sig norður.



Það var æðar- og rekabóndinn Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði sem dró Lunda ST 11 úr vetrarhíði í morgunsárið og skilar honum norðureftir ekki seinna en um hádegi ef þokkalega gengur.







Það er ekki laust við að stórskipið Stakkanes minnki örlítið í samanburðinum. En kannski er það bara svona hnípið yfir að missa félagsskapinn. Lundi og Stakkanes hafa snúið stöfnum saman í vetur og hvað veit maður hvað gamlir bátar með sál hafa að spjalla? Hver veit nema handfærabáturinn Lundi ST 11 hafi getað sagt gamla síldarleitar - og þangdráttarbátnum Stakkanesi nokkrar góðar veiðisögur frá síðustu sumrum.



Stakkanesið þarf hins vegar ekki að híma lengi eitt niðri við Stálver. Nú líður senn að sjósetningu og allt er tilbúið nema bryggjan. Ég hringdi nefnilega í þá hjá Bátavör um daginn til að tryggja mér pláss. Sá sem sér um þau mál var upptekinn og lofaði að hringja "eftir augnablik"

Það augnablik er orðið rúmlega vikugamalt.....

...................................................................

Flettingar í dag: 44
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 77
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 135415
Samtals gestir: 27985
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 07:47:53


Tenglar