Það fór svo
á endanum að á síðasta augnabliki kom kaupandi hlaupandi og keypti fyrrverandi póstbát Mjólkárvirkjunar, Bjartmar ÍS fyrir verð sem ég held að allir getir verið sáttir við. Öll fyrri skrif (síðustu daga) óskast því virt að vettugi og ekki orð um það meir!
Mánudaginn annan í páskum var hið skaplegasta veður á nesinu og þá var tilvalið að skella sér í bíltúr út í Grundarfjörð. Bærinn er enn að koma undan snjó en það styttist óðum í sumarið og gleggsta merkið um það eru strandveiðikallarnir sem eru að sjóbúa báta sína og búnað. Myndavélin var með í för og með henni var skotið ótt og títt í allar áttir.
Ég er hins vegar ekki með myndavélina í augnablikinu. Konan sem eldaði páskalambið mitt fékk hana með sér til að afrita páskamyndirnar. Ég ætla í staðinn að birta myndir sem teknar voru sl. sumar um borð í stórskipinu Stakkanesi. Það er ferðafélaginn Edilon B. E. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof ( af virðingu við hann sleppi ég viljandi Sandhaug Sóðalöpp) sem er fyrirsætan. Eins og sjá má væsir ekki um áhöfnina í yfirmannamessanum í Stakkanesinu:
Bassa finnst alveg ágætt að liggja á fótum manns, þegar tekin er kría í "messanum" Svo má velta því fyrir sér hvernig tveggja metra legubekkur rúmast í bát sem er fimm og sjötíu að lengd án þess að vélin lendi aftan við bátinn. Það er nefnilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Það má líka alveg skjóta inn einni staðreynd, vegna þess að ég hef einu sinni reynt að fá að sigla Stakkanesinu í hópsiglingu með súðbyrðingunum sem tengjast Bátasafni Breiðafjarðar. NEI - ið sem ég fékk var svo stórt að svarandanum lá við hjartaáfalli! Staðreyndin er sú að Bjartmar heitinn - sem var sannarlega súðbyrðingur - var smíðaður árið 1966 úr eik og furu í Hafnarfirði. Stórskipið Stakkanes er að öllum líkindum smíðað kringum 1960 - 62 í Noregi og er því mun eldra en Bjartmar.
Hér með legg ég til að yfirskrift næstu hópsiglingar verði einfaldlega "FORNBÁTASIGLING" og aldurstakmarkið verði fimmtíu ár!
...............................