Þetta er að
verða búið! Vikulöng páskadvöl í Stykkishólmi er senn á enda og leiðin liggur suður. Ekki verður þó staldrað í Reykjavík mikið lengur en viku því fyrir liggur önnur ferð upp í Hólm innan skamms. Þá verður farið með öðrum formerkjum, í vinnugalla á jeppa með kerru og verkfæri. Það á nefnilega að taka vélina úr honum Bjartmari og flytja hana suður til yfirferðar og gangsetningar. Báturinn sjálfur verður settur upp á kamb og búinn þar til geymslu.
Það hýrnaði yfir veðrinu á páskadag, svo úr varð sæmilegasta gönguveður. Það var auðvitað gripið um leið, enda hefur ekki viðrað fyrir göngutúra lengst af. Fyrsti áfangastaður "gönguhópsins" var klettabríkin við kirkjuna og þaðan var myndað ótt og títt. Á þeirri fyrstu er horft inn Hvammsfjörðinn og Skógarströndin sést til hægri. Í forgrunni er Flatahverfið:
Hvítabjarnarey með skarðið sitt og skessusteininn er fyrir miðju, t.h. Bauluhólmi og við hægri myndjaðar eru Skoreyjar. Horft til norðausturs:
Svo var myndað í hina áttina, til vesturs. Efst á myndinni er gamla skólahúsið og hægra megin við það dvalarheimilið þar sem þau Gulli og Lalla búa. Í forgrunni er hluti Skúlagötu og Maðkavíkin (sem á hátíðisdögum heitir Gullhólmavík). Þarna var um árabil eitt aðal uppsátur smábáta í Stykkishólmi og enn er víkin notuð sem slík. Það er sjálfur gullkálfurinn Bjartmar sem liggur þarna aftast og flýtur upp á hverju flóði:
Gulli var búinn að segja mér að Bjartmar læki ekki dropa. Ekki rengi ég það en þar sem ekki kemur vatn inn fer heldur ekkert vatn út! Það reyndist vera allmikið vatn í bátnum og í stað þess að gera eins og Gulli, sem röltir niður í vík á fjörunni og tekur negluna úr, klifraði ég um borð og tók mér stöðu við lensidæluna. Ég var nefnilega í spariúlpunni og ekki búinn til að skríða undir bátinn til að "hleypa af".
Svo þegar þurrausið var, fékk myndasmiðurinn eina mynd af sér með kirkjuskip og tréskip í baksýn. Þessi kirkja er annars ekki ólík geimskipi, svona frá þessu sjónarhorni:
Þau eru allmörg, húsin í Hólminum sem standa á alveg einstaklega fallegum stöðum. Þessi hús, sem standa á klettanefi fram í Maðkavíkina, eru þar engin undantekning. Það hlýtur að vera stórkostlegt að búa á svona stað:
Hér eru "sjávarlóðirnar við Skúlagötuna og fjárflutningabátur þeirra Öxneyinga við einkabryggju framan við aðsetur þeirra:
Það er ætlunin að draga Bjartmar upp á kambinn í félagsskap þeirra Þyts, Farsæls og Hrímnis (næst á mynd). Ál - fjárflutningabáturinn fjarst á myndinni hefur ekki nafn svo ég viti en telst auðvitað merkisbátur samt.
Eftir gönguna um víkina lá leiðin upp á Súgandisey en þar hafa verið teknar fleiri myndir en góðu hófi gegnir og því var myndatökum þar sleppt. Við litum aðeins á hafnarbætur sem verið er að gera í tilefni komu nýs "Baldurs", en sá mun vera helmingi stærri en sá sem nú er og er væntanlegur á næstu vikum. Hleðsludyrum á þeim nýja mun vera öðruvísi fyrir komið og því þarf að gera breytingar á bryggjumannvirkjum.
Eftir hafnargönguna skipti "hópurinn" liði og helmingur hans hélt heim á Borgarbrautina að steikja páskalambið. Hinn hlutinn arkaði í kaffi til Gulla og Löllu. Þar var svo setið fram eftir degi en þegar nálgast fór kvöldmat og veislan beið þeirra á dvalarheimilinu rölti "helmingurinn" inn á Borgarbraut til að taka út eldamennskuna. Þar stóð kokkurinn glaðbeittur yfir steikinni sem sveik ekki frekar en venjulega á þeim bæ.
.....................................................................