Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.04.2014 23:10

Mánudagskvöld 7. apríl.


Það er logn í Reykjavík - ekki á hverjum degi sem það gerist núorðið!  Stakkanesið hefur fengið á sig forljótt skriðbretti sem á þó að gegna ákveðnu hlutverki. Vonandi tekst að ákvarða hvort nýr afturendi gerir eitthvað fyrir ganghraða bátsins. Ég hef nefnilega (og það hefur áður komið fram) engan áhuga á að fara í fokdýrar og tímafrekar breytingar á annars ágætum, norskum skrokki nema þær breytingar skili einhverju í ganghraða. Það skýrist á næstu dögum uppi í Stykkishólmi hvort skriðbrettið virkar ......

Næst ætla ég að birta myndir af trillu. Þetta er gömul trilla sem um árabil var vel þekkt á Ísafirði í eigu Guðmundar heitins Maríassonar fyrrum skipaafgreiðslumanns hjá Eimskipum. Þegar myndin var tekin var Guðmundur búinn að vera heilsulaus um árabil og báturinn hafi grotnað í reiðileysi á Sundauppfyllingunni við hlið kafbátsins hans Indriða í Þernuvík. Mér datt í hug að reyna að laga bátinn og talaði því við Guðmund. Við vorum vel kunnugir frá fyrri tíð þegar ég var tittur að vinna mér inn aura með kassaburði í freðfisksútskipunum. Við Guðmundur áttum ágætt spjall og að því loknu taldist ég eigandi bátsins. Ég flutti hann svo inn að steypustöð, þar sem ég var að vinna á þessum tíma og setti á skorður norðan hússins. Þar var húsrými með stórum dyrum sem ég átti að fá til afnota fyrir viðgerðina. Rýmið var reyndar fullt af drasli og rúmlega það en með sæmilegri tiltekt átti að vera hægt að mynda viðunandi vinnupláss.

Stuttu eftir að báturinn var kominn á skorðurnar settist ég inn í kaffi í Vélsmiðju Ísafjarðar hjá Braga Magg. Einhver kunningsskapur var milli Braga og Guðmundar, og Bragi spurði strax um bátinn og tilkomu hans við steypustöðina. Eftir stutt spjall var komið á hreint að Guðmundur mundi ekkert eftir okkar samskiptum og samningum um bátinn. Þótt hann hefði verið málhress og skrafhreifinn þegar við sátum að spjalli var heilsunni svona komið þrátt fyrir allt. Það var því dagsljóst að þarna þurfti einhvern milligöngumann og Bragi taldi sig sjálfkjörinn í það hlutverk. Það var búið að semja um verðið á bátnum og Bragi tók sömuleiðis að sér að taka við greiðslunni og gera þeim hluta skil. Í bátnum hafði verið fjörgömul ALBIN bensínvél, tveggja strokka og átti hún að fylgja - ef hún fyndist. Vandamálið var nefnilega það að að sögn Braga vissi enginn hvar vélin væri niðurkomin. Það gerði svo sem ekkert útslag - ég var nokkuð viss um að þessi vél yrði aldrei notuð, nema þá kannski í varahluti því ég átti aðra samskonar í ágætu lagi. Sú vél hafði komið frá Herði Bjarnasyni skipstjóra á Ísafirði og fylgdi lítilli trillu sem ég keypti af honum á sínum tíma (af bæði bát og vél er  svo allt önnur saga). 

Eftir að eignarhaldið á bátnum var komið á hreint gegnum Braga Magnússon var hafist handa við að taka til í rýminu sem hýsa átti bátinn. Það gekk frekar seint enda lá svo sem ekkert á - báturinn var búinn að grotna niður í mörg ár og einhverjir mánuðir til viðbótar áttu ekki að breyta neinu. Þeir gerðu það hins vegar svo sannarlega!!




Þannig var nú það. Þessar myndir eru teknar þann 22. september, eins og sjá má og það er ekki snjónum fyrir að fara á Ísafirði enda varla komið haust. Það kom hins vegar haust og á eftir því kom vetur. Komandi kynslóðir munu minnast þess vetrar sem mannskaðavetrarins í Súðavík. Það féllu  snjóflóð víðar á Vestfjörðum og a.m.k. tvö þeirra féllu á og við steypustöð Steiniðjunnar á Ísafirði. Annað flóðanna rauf efstu hæð hússins sem trillan stendur við og eyðilagði flest innan dyra. Verulegur hluti þess flóðs féll niður með norðurveggnum og fyllti kvosina á myndunum. Það leið nokkur tími þar til við sem störfuðum hjá fyrirtækinu fengum að fara inn á svæðið enda talin veruleg hætta á frekari flóðum. Það var þá fyrst sem við gátum athugað skemmdir á húsum og byrgt fyrir op. Trillan var ekki sjáanleg en ég vonaði í lengstu lög að hún væri þarna einhversstaðar undir farginu og hefði ekki færst úr stað. Þegar færi gafst mokaði ég svo holu niður í flóðið þar sem trillan átti að vera undir en án árangurs - hún var ekki þar. Þá mokaði ég slóð niður fyrir húshornið á efri myndinni að stóru malarfæribandi sem lá frá mulningsvél út yfir planið. Snjóflóðið var á að giska þrír til fjórir metrar á þykkt efst því aðeins sást rétt í efri brún dyraopsins á neðri myndinni. Við höfum líklega verið þrír að moka niður að færibandinu og búnir með drjúga holu þegar við komum niður á stjórnborðssíðu trillunnar. Ég mokaði alla síðuna upp enda til enda og sá að framstefnið var rifið úr niður að sjólínu. Vonaðist samt til að ekki væri meira skemmt en það og stefnið hefði hreinlega rifnað úr við að rekast á húshornið. Gróf því næst með hálfum huga niður með borðstokknum. Ekki hafði ég mokað nema svona 20 sentimetra þegar fyrir varð borðstokkur bakborðssíðunnar. Þá lá það fyrir að báturinn var lagður saman enda til enda og yrði ekki bjargað úr því. Brakið kom svo allt í ljós þegar við beittum hjólaskóflu á skaflinn - báturinn var svo gersamlega kurlaður bakborðsmegin að varla var óbrotin spýta. 

Hún endaði því á haugunum, trillan sem Guðmundur Maríasson hafði síðast dregið á óðan smokkfisk í Sundunum á Ísafirði haustið 1982.

 Það var svo alllöngu seinna að ég var að kaupa járn í smiðjunni hjá Braga Magg. Upp við vegg var slönguþrykkivél ásamt fleiri vélum og talsvert af drasli í kring. Drasl er oftast áhugavert og eitthvað hef ég verið að rýna í það þegar ég rak augun í litla, rauð-og grámálaða ALBIN trilluvél sem ég kannaðist við undir eins. Þar var komin "týnda" vélin úr trillunni hans Gumma Maríasar og ef marka mátti rykið á henni var hún ekki nýkomin á þennan stað! Ég lét kyrrt liggja enda engin þörf fyrir hana lengur.

Kannski er hún þarna enn........

 

..........................

Flettingar í dag: 722
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 156964
Samtals gestir: 32393
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 16:36:20


Tenglar