Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


05.04.2014 10:40

Laugardagur...


Það er laugardagur og hún Rósa systir í Gamlabakaríinu á afmæli í dag. Maður nefnir ekki aldur kvenna - og allra síst þegar þær bera hann jafnvel og hún - en Rósa fæddist þann fimmta apríl árið 1954 og nú má hver reikna sem vill!

Höfðaborg hefur annars breyst í Flens(u)borg. Við erum helvíti lélegir, við Bassi - ég af flensu, hann af svona sýndar-samúðar- leti!

Ekki hefur þó verið setið auðum höndum í morgun heldur var skanninn tekinn fram og vænum skammti af pappírsljósmyndum breytt í tölvutækar myndir. Næsta skref er svo að hrúga þessum myndum inn í albúm hér á síðunni, en meðan verið er að vinna í myndunum verður albúmið lokað að venju. 

Svo þarf ég helst að ná sæmilegri heilsu fyrir hádegið, því nú nálgast óðum hið rauða strik stórskipsins Stakkaness. Rauða strikið er þau tímamörk sem mér eru sett varðandi vinnu við bátinn því páskarnir nálgast og fyrir páska á Stakkanesið að vera komið upp í Stykkishólm. Gangi það eftir - sem ég ætla rétt að vona - rætist loks margra ára gamall draumur. Hugmyndin á bakvið smíðina á Stakkanesinu, svo og smíðin sjálf hefur frá upphafi miðast við flutning uppeftir og siglingar um Breiðafjörðinn.

Það verður stórt augnablik þegar Stakkanesið leggur af stað upp í Hólm!

Til að skreyta þenna örstutta pistil ætla ég að setja inn eina þeirra mynda sem ég skannaði í morgun. Hún er tekin í Naustahvilft gegnt Ísafjarðarkaupstað, eins og kunnugir sjá (og hinir eflaust líka). Á myndinni er  Áróran mín, sem nú dvelur í Mexíkó og innir af hendi vanþakklátt sjálfboðastarf meðal innfæddra hrokagikkja og rusta. Hin stúlkan á myndinni - í rauðri peysu -  er Bára Bjarnadóttir (Guðmundssonar Ingibjartssonar). Myndin er líklega tekin sumarið 2000, þ.e. stuttu eftir að við fluttum frá Ísafirði til Kópavogs. Miðað við aðrar myndir í þessu umslagi höfum við verið stödd á Ísafirði til að mála íbúðarhúsið okkar að Engjavegi 17. Það var svo selt ári síðar.



....og nú einn kaffibolla og svo út að klappa Stakkanesinu!

Flettingar í dag: 758
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 157000
Samtals gestir: 32394
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 17:03:31


Tenglar