Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.03.2014 15:15

Sjö strauma siglingin. 2.hluti: Örninn.


21. ágúst 2011.


 Fyrsta hluta frásagnar lauk við húsgrunninn í Ólafsey, þar sem fróðir menn upplýstu okkur hina og rifjuðu um leið upp minningar tengdar staðnum.  Meðal annars kom það fram að staðurinn var Einari Sigurðssyni frá Gvendareyjum sérlega hugleikinn, því í íbúðarhúsinu í Ólafsey var aðsetur farskóla sveitarinnar og þar naut Einar sinnar fyrstu skólagöngu.

 

Eins og fram kom var húsið í Ólafsey tekið niður og efni þess flutt út í Stykkishólm. Sigurður Bergsveinsson er hafsjór af fróðleik um ættir, tengsl og staðhætti í Breiðafirði og meðal þess sem hann gaukaði að mér er virðingargjörð hússins í Ólafsey. Kannski er eftirtektarvert að undir liðnum "Þægindi" er talin "Miðstöðvarupphitun". Skyldi upphitun húsa í dag vera talin "þægindi"?




Það gætti vart vinds í Ólafsey meðan við stöldruðum þar við, og Sturla hafði tekið að sér einsamall að halda bátunum kyrrum við steinhleðslu í vörinni. Þó Sturla væri vel að manni þótti honum sögustundin orðin nokkuð löng, þegar við hinir loks snerum til skipa, því það tekur í tvo þunga trébáta þó aðeins sé örlítil gola, þegar straumsúgur sjávarins bætist við.  Við hröðuðum okkur um borð og lögðum frá landi. Nú lá leiðin norður fyrir Ólafsey og þaðan til austurs inn milli eyjanna. Það er réttast að birta aftur kortaklippuna sem sýnir svæðið:

 



Siglingaleið okkar lá milli Ólafseyjar og Stórhólma, á þeim stað sem kallaður er Steinsund. Sundið er mjög þröngt, straumhart og í því miðju er stór steinn sem fellur yfir á flóði. Nú hagaði þannig til að þótt komið væri útfall úti á firðinum gerist allt miklu hægar í þrengslunum milli eyja og skerja, og á þessum stað var sjórinn enn að streyma inn á Hvammsfjörðinn. Það er þessi mismunur sem myndar hörðustu fallastraumana á svæðinu, því þegar "sían" milli hólma og skerja hefur loks hleypt öllum þeim sjó inn á Hvammsfjörðinn sem hún geymir í sér, er farið að falla út utan eyjanna. Á auðum sjó gerist allt hraðar og þess vegna "flýr" sjórinn vestan eyjanna miklu hraðar en sá sem geymdur er innan þeirra. Þegar sjórinn inni á Hvammsfirðinum leggur loks af stað út á milli eyjanna aftur er yfirborðshæðarmunurinn orðinn talsverður - mismikill þó eftir tunglstöðu- og því myndast hreinir beljandar milli eyjanna. Stundum hefur verið talað um allt að tveggja metra hæðarmun yfirborðs og straumhraða 16-18 hnúta í hörðustu röstunum!

Það vill stundum vera ".hægara um að tala en í að komast"  og þannig fór mér þegar við komum í Steinsundið.  Sigurður stýrði Gustinum, Sturla stóð afturí og bandaði hendi til félaganna á Bjargfýlingi til leiðsagnar um sundið. Þegar nær dró steininum í sundinu mátti sjá straumröst af honum og það gerði okkur auðveldara með staðsetningu. Ég tók hins vegar eftir því að straumurinn rann í öfuga átt - ég vissi að farið var að falla út úti á Breiðasundi fyrir góðri stundu en straumurinn sem snerist um steininn í sundinu var á innleið. Ég vakti máls á þessu og fékk ábendinguna strax frá Sturlu - ég eiginlega hálfskammaðist mín fyrir að hafa talað af mér því ég átti að vita þetta þó ég væri að sjá það með eigin augum í fyrsta skipti.

 



Við runnum Steinsundið og innan þess var lygna og hægari straumur. Það var komið fram yfir hádegi og tilvalið að grípa til nestisins á þokkalega auðum sjó. Ég hafði tekið með mér Árbók F.Í. frá 1989, sem er biblía áhugamannsins um Breiðafjarðareyjar og reyndi að átta mig á þeim eyjum og hólmum sem fyrir augu bar. Það var sannarlega ekki auðvelt og mér fannst hughreystandi að heyra að hinir voru ekki hundrað prósent vissir heldur. Sjókortið í GPS tækinu sýndi aðeins örfá eyjanöfn og lítið á því að byggja í þessu kraðaki eyja, hólma og skerja. Svo náðu menn áttum. 

Siglingaleiðin lá (og nú þarf að líta á kortið.) sunnan Ytri-og Innri Helgeyja og um sundið milli þeirra og þar sem heitir Hryggir. Síðan var beygt upp (norður) með Brokey austanverðri og, hafi mér ekki skjátlast, siglt um sundið milli Brokeyjar og Húseyjar. Vaðalseyjar voru næstar og um þær var siglt þegar þessi mynd var tekin til vesturs, í átt til Norðureyjar:

 



Áfram var haldið og ég reyndi allt hvað ég gat að halda þræðinum, lesa í árbókinni, skoða kort og greina eyjar frá skerjum. Ég var niðursokkinn í gruflið þegar einhver kallaði: ÖRN!

 



Og örn var það sannarlega. Hann hafði styggst við bátakomuna, flaug upp úr nærliggjandi eyju - mögulega var það ein Vaðalseyja - og hnitaði stóra hringa yfir bátunum. Myndavélin var munduð og einum tuttugu myndum hleypt af. Flestar urðu ónýtar en þessar lifðu:











Eftir nokkra hringi sannfærðist örninn um að engin hætta stafaði af okkur og settist aftur í hólmann sinn. Við sigldum áfram í hálfgerðum krákustigum vandrataða leið þar sem Sturla og Sigurður báru stöðugt saman bækur sínar.  Við kræktum fyrir Andey og vorum þar með komnir nokkurn veginn á auðan sjó inn á sundið milli Arnareyjar og Gagneyjar.

Fjárbóndinn Sturla hafði tekið með sér riffilinn ef ske kynni að tófa sæist í eyjunum. Engin sást tófan þó skimað væri víða, en skyttan var engu að síður veiðileg með riffilinn:

 



Einn af harðari straumum á þessu svæði er Gagneyingur, milli Gagneyjar og Galtareyjar. Á netsíðu kajakklúbbs  má sjá ágæta mynd af straumi í ham og  m.t.t. staðhátta er myndin líklega tekin við Brattastraum, austan við Gvendareyjar. Kannski má af myndinni ímynda sér Gagneying í góðu formi. Þegar við sigldum inn milli eyjanna tveggja, Arnareyjar og Gagneyjar og litum á strauminn virtist hann samt svona hálf utangátta - það var að vísu fall um hann en þar sem smástreymt var, var straumþunginn ekki nema svipur hjá sjón. Við runnum niður Gagneying á þriggja, fjögurra mílna hraða, muni ég rétt - en reyndar með frákúplað! 



  

Á næstu mynd er siglt meðfram Galtarey, sunnan hennar og til vesturs. Efst á eynni er trjálundur og fyrir miðri mynd má greinilega sjá tóftir, iðgrænar og skera sig úr. Ef gluggað er í Árbókina títtnefndu má lesa á bls. 98 að óvíst sé hvort föst búseta hafi verið í Galtarey eða aðeins selstaða frá Öxney, sem eyjan heyrði áður undir. Hvort sem er hefur verið þarna hús af einhverju tagi og búfé hefur gengið um, ef marka má græna litinn. Í trjálundinum er mér sagt að sé jarðsett  aska Guðrúnar Jónasdóttur úr Öxney, eiganda Galtareyjar. Enginn hvílustaður hæfði þeirri öldnu heiðurskonu betur en þessi, þar sem víðsýnið ríkti.

 


 

Vestarlega á Galtarey hafa eigendur, afkomendur Guðrúnar reist sumarhús við lítinn vog:

 


 

Frá Galtarey var siglt í suðvestur, vestan Akureyjar og til stjórnborða lágu Rifgirðingar. Á siglingunni sáum við þök húsa í Rifgirðingum bera yfir hólmana nær okkur.

 


 

 

Á bakborða blasti svo við reisulegt íbúðarhúsið í Brokey:




Eftir stutta siglingu var snúið til vesturs og stefnan sett á Geysandasund, milli Öxneyjar og Rifgirðinga. Á myndinni sér til húsa í Rifgirðingum:

 


Með því að horfa til vesturs yfir Breiðasund og snúa tökkum á myndavélinni mátti sjá sæmilega til húsa í Hrappsey:

 

 

..og væri horft aðeins lengra til suðurs blasti Bjarnarhafnarfjall við lengst til vinstri og í það bar Helgafell á Þórsnesi. Stykkishólmur er örlítið til vinstri við myndarmiðju:

 

 

 

 

Við höfðum Öxney á bakborða og sigldum meðfram þessu forna ættaróðali Sturlu bónda í Ólafsey. Út úr eynni til SV. gengur Mjóanes eins og fingur sem bendir á Ingeyjar, þar sem fé bóndans hefur vetursetu. Fyrir Mjóanes sigldum við inn á Bænhússtraum, sjöunda straum ferðarinnar. Innan við Mjóanes skerst Stofuvogur inn í Öxney, fyrir botni hans er íbúðarhúsið og má muna sinn fífil fegurri. Í Stofuvog var einnig mættur ræðaraklúbburinn úr Gvendareyjum og hafði reist sér búðir.

 

 

 

Hér ætla ég að láta staðar numið að sinni. Í þriðja og síðasta hluta verður gengið á land í Öxney og litast um við bæjarhúsin. Að því loknu heimsiglingin með krók við Skoreyjar.

 ......................................................................


Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135172
Samtals gestir: 27911
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:26:25


Tenglar