Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.03.2014 09:15

Höfðaborg að morgni áttunda mars 2014.


Það er strekkingsvindur úti, heyrist mér. Hitastigið er rétt um núllið og það hefur ekki fallið snjór í nótt. Gintaras í næsta húsi er í hefðbundnum barningi við bílinn sinn, sem vegna eldsneytisins lyktar eins og Hamborgarabúllan þegar hann loks fer í gang.

Það er verið að sjóbúa Stakkanesið, og að þessu sinni er það búið undir stórátök. Eftir u.þ.b. mánuð verður það nefnilega sett á vagn og flutt út á land. Ég geri ráð fyrir að það verði komið á áfangastað vel fyrir páska ef veður leyfir. Ég ætla mér nefnilega að eyða páskunum úti á landi og tek Stakkanesið með mér. Þangað til þarf að dytta að einu og öðru. Strákarnir hjá GG-Sjósporti pöntuðu fyrir mig nýjan björgunarhring því sá gamli var kominn til ára sinna og orðinn ljótur. Nýr hringur kallar á nýjar festingar og þær þarf að smíða. Svo varð ég fyrir því óhappi að í fyrravetur lak vatn inn með framglugga stýrishúss og skemmdi beykihillu undir gluggunum. Hana þarf að skipta um nú þegar lekinn hefur veið lagfærður. Frammi í lúkar er 220 v. inverter sem ég hef notað til að hlaða síma og keyra fartölvu. Nú er ætlunin að vera með fartölvuna aftur í stýrishúsi og nota kortagrunninn í henni á siglingu ásamt gps-tækinu. Það kallar á 220 v. lögn frá lúkar aftur í stýrishús og aukahillu fyrir fartölvuna. Þessutan er ég búinn að smíða festingar á afturstefnið og ætlunin er að smíða skriðbretti. Þetta bretti verður stillanlegt á meðan ég er að finna út hvaða halli á því hentar best. Ef þessi tilraun gefur góða raun má af henni áætla sköpulagið á nýjum skut - þ.e.a.s. ef ég fer út í þessháttar stórframkvæmdir. Allar slíkar smíðahugmyndir grundvallast á því að verkið skili tilætluðum árangri í gangi og stöðugleika.

Nú fyrir síðustu jól lokuðu 365 Miðlar tveimur bloggkerfum sem ég hef notað gegnum tíðina, þ.e. Blog-central og Blogg.visir.is.  Þetta var gert án nokkurrar viðvörunar eða ábendingar og olli því að mestallt efni áranna 2005 til hausts 2011 varð óaðgengilegt. Ég hafði samband við starfsfólk hjá 365 sem var allt af vilja gert til að hjálpa mér um efnið og hefur, þegar þetta er ritað útvegað mér allan texta af Blog-central kerfinu á geisladiski. Myndirnar skiluðu sér ekki en þær á ég að eiga til eða get útvegað aftur.  Eitthvað dýpra er á texta og myndum af Vísisblogginu og af því hef ég ekkert fengið frá 365. 

Svo var það í fyrradag (miðvikudag) að ég var snemma morguns að grufla á netinu í leit að ákveðinni mynd. Þá "poppaði upp" mynd úr gamalli bloggfærslu frá mér, sem skrifuð var í Blog-central kerfinu. Ég prófaði því kerfið og viti menn: Það var opið!  Ég ræsti soninn og tölvumeistarann Arnar Þór samstundis út og saman lágum við einhverja klukkutíma yfir því að afrita allt efni af kerfinu, bæði texta og myndir, og færa það yfir á minnislykil. Að því loknu ræsti Arnar eitthvað netapparat sem mér skislt að heiti "Waybackmachine" og geymir afrit af netinu " i det hele.." Eftir augnabliksleit í apparatinu kom fram nokkurskonar bakaðgangur að Vísisblogginu þar sem mátti finna flesta færslur sem skráðar voru í það frá upphafi til enda. Þær færslur voru samstundis afritaðar líka og færðar á kubb. Nú hefur því tekist að endurheimta um 80% af efni þessarra ára sem nefnd voru ofar og nú myndi einhver unglingurinn klykkja út með "Hjúkkit...."

Breiðfirðingurinn / Skáleyingurinn Sigurður Bergsveinsson hringdi til mín á dögunum og spurði hverju það sætti að ekki sæist lengur færsla sem ég skrifaði síðsumars 2011 um siglingu milli suðureyja Breiðafjarðar, þ.e. Hvammsfjarðareyjanna. Á þessa færslu var nefnilega tengt af þekktri bátasíðu en tengillinn var óvirkur. Ég útskýrði fyrir Sigurði þennan óleik sem 365 Miðlar höfðu gert mér og lét fylgja að unnið væri að endurheimt skrifanna.  Meðal þess efnis sem okkur Arnari tókst að ná gegnum "Waybackmachine" var einmitt þessi ferðapistill og það sem næst verður gert er að setja hann hingað inn með haus og hala - en vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að allir nenni að lesa þennan pistil alla leið hingað niður þá set ég stutta skýringu í haus ferðapistilsins þegar hann birtist. 

....og nú ætla ég að fara að gera eitthvað af viti...........

(E.S: Hún Sigurbjörg, stóra systir mín sem stödd er á Ísafirði þessa helgina, á afmæli í dag. Ég veit hún fær köku.....) 

Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135172
Samtals gestir: 27911
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:26:25


Tenglar