Ég hef
ákveðið að hafa efnið í öfugri röð við fyrisögnina og byrja á Justin Timberlake. Ég vil taka fram að það eina sem ég veit um þennan Justin er að hann er tónlistarmaður á leið til Íslands og mun halda hér tónleika. Af því tilefni skilst mér að einhver útvarpsstöð (trúlega ein þeirra sem ekki er svona "öldungamiðuð" eins og Saga og Retro...) hafi efnt til samkeppni þar sem hlustendur áttu að skila inn sinni útgáfu af einhverju JT-lagi. Í vinning var svo upptökutími, geisladiskur og - ef ég fer rétt með - miðar á tónleikana.
Verslódaman mín, hún Bergrós Halla er JT aðdáandi nr. eitt - að eigin sögn - og hún settist niður með gítarinn og röddina sína. Með aðstoð vinkonu og gsm-síma tók hún upp lag sem mér skilst (það er margt í þessu sambandi sem ég verð að láta mér "skiljast") að sé vel þekkt. Upptökuna sendi hún svo inn á viðkomandi útvarpsstöð - og vann!
Ef tæknin bregst mér ekki má finna þessa upptöku "HÉR".
...............................................................................................
"Ekki verður bókvitið í askana látið"
Ég var örugglega ekki gamall þegar ég las þetta máltæki í fyrsta sinn. Mörgum sinnum síðan hef ég séð það og heyrt en með árunum hefur mér sýnst að skilningurinn sem lagður er í máltækið sé nokkuð á reiki.
Þó nokkrum sinnum hef ég rekist á þá útleggingu að menntun sé varanlegri en matur og sé því að öllu leyti betri. Það verði aldrei hægt að éta góða menntun. Matur hverfi en menntun ekki. Ég hef ekki séð þessa útleggingu máltækisins útskýrða beinlínis á þann hátt heldur hef ég skilið hana af samhenginu - og það er ekki flókið að skilja samhengi jafn einfaldra hluta.
Sá skilningur sem ég hafði á þessu einfalda - og þó ekki - máltæki er sá að menntun, þ.e. bókvit, sé eitthvað sem enginn geti lifað á og því sé meira virði að leggja sig fram um öflun lífsviðurværis en að liggja í bókum. M.ö.o.: Þeir sem láta bækur lönd og leið en beita sér fyrir mataröflun, þeir muni lifa. Þeir sem liggi í bókum en gleymi hinu líkamlega fóðri muni þá væntanlega veslast upp og deyja drottni sínum - því ekki verði bókvitið étið til viðurværis.
Íslensk þjóð hefur lifað marga hörmungartíma. Það má nefna jarðelda, hafísár, jarðbönn af snjó og frosti, gæfta-og fiskleysi og þessutan allar sjúkdómaplágurnar sem gengið hafa yfir. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvað þeir sem börðust fyrir lífi sínu á þessum tímum settu í fyrsta sæti. Það var sannarlega ekki bóklestur!!
Ég er að ljúka lestri "Skútualdarinnar" eftir Gils Guðmundsson. Efst á bls. 202 í fimmta og síðasta bindi má lesa eftirfarandi:
"Aðaláherzlan var lögð á það, strax og börnin fóru að skríða á legg, að þau lærðu að vinna. Þau voru látin ganga að störfum með fullorðna fólkinu, strax og þau voru fær um að halda á áhöldunum, stúlkubörn jafnt og drengir; þær lærðu að slá sem þeir, og yfirleitt að ganga að hvaða verki sem var. Skóla heyrðu börnin ekki nefndan, og lærdómur var ekki að jafnaði gylltur fyrir þeim; en viðkvæðið hjá gamla fólkinu: "Bókvitið verður ekki látið í askana", heyrðu þau því oftar. Yfirleitt var þó börnum kennt að lesa; skrift og reikning var minna hirt um; kverið, altarisgöngubænir og nokkra sálma urðu öll börn að læra, ef þau áttu að ná fermingu. Eftir að börnin höfðu lært að lesa, var ábyrgðin þeirra að standa sig við ferminguna. Kverið gátu þau lært í hjásetunni á sumrin og við gegningar á vetrum" (tilv.l.)
Þessi texti hér að ofan er skrifaður upp veturinn 1943 eftir Sigurði Hrólfssyni skipstjóra frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Sigurður var fæddur árið 1866, sama ár og Ísafjörður fékk kaupstaðarréttindi. Síðan er liðin hálf önnur öld og það má efalítið treysta því að sá skilningur sem Sigurður Hrólfsson lýsir á máltækinu sé sá upphaflegi og rétti.
......enda ætla ég að halda mig við hann, leggja frá mér Skútuöldina og nýta daginn í eitthvað skynsamlegt!
Hún Áróra mín hefur skráð nýja kveðju frá Mexíkó. Ef einhver vill heimsækja hana á síðuna þá er slóð bæði HÉR og svo í dálknum hægra megin undir neðsta liðnum: "Úrvals skrifarar"
....yfir og út!