Auðvitað eru
öll áramót jafnstór, þannig séð. Þau sem standa á heilum tug - að ekki sé talað um heilt hundrað, eins og gerðist fyrir örstuttu - eru kannski flottari í tölulegu tilliti en það gildir svo sem einu. Öll ár eru merkileg fyrir einhverra hluta sakir og ungi maðurinn á myndinni hér neðar átti ekki mörg ár að baki þegar myndin var tekin, líklega aðeins fjögur eða fimm. Sá eldri -svo nam rétt rúmum 63 árum - átti sömuleiðis langa leið ófarna og margt óreynt áður en yfir lauk. Myndin er tekin á gamlárskvöld ´87 eða ´88 (á ekki ártalið en er nokkuð viss um daginn) á flötinni innan við litla húsið okkar Elínar Huldar að Króki eitt á Ísafirði.
....og það er snjór. Það má kannski birta aðra úr safninu, sem líka sýnir snjó á gamlárskvöld. Hún er tekin líklega ´74 eða 75 utan við foreldrahús að Urðarvegi 4 á Ísafirði. Á henni er "týndi" ættliðurinn, (ættlerinn) þ.e. sá sem vantar á efri myndina. Við hlið myndefnisins er kústskaft með ánegldu einhvers konar eldflauga-snúningsapparati. Pabbi var nefnilega alla tíð óskaplega hrifinn af flugeldadóti sem snerist og spann. Það var svo undir hælinn lagt hvort það virkaði!
Einnig má sjá á myndinni Fiat 125 Berlina, bíl sem Úlfar Önundarson frístundaskipasmiður á Flateyri átti og var vistaður hjá mér þessa hátíðardaga meðan Úlli dvaldi hjá fjölskyldunni á Flateyri - en þangað var engum fært nema fuglinum fljúgandi og svo snjóbílnum þeirra Önfirðinga. Svo sér í pallröndina á bláa MAN vörubílnum hans pabba.......
Þannig var nú það. Af því að nú er alveg að detta í áramót og ég á eftir að hafa mig til (eða gera mig til eins og dæturnar orða það) fyrir matarboð á eftir, ætla ég að hnýta einni -og aðeins einni - mynd aftanvið. Hún sýnir að það gat snjóað víðar en á Ísafirði. Myndin er tekin um 1955 í Aðalvík vestra, af veginum sem lá frá birgðastöð bandaríska hersins og Ísl. aðalverktaka á Látrum og upp að radarstöðinni á Skorum (Straumnesfjalli). Horft er vestur yfir víkina að Sæbóli og ég held mér sé óhætt að segja að svona logn og sjóleysa hafi frekar verið viðburður en regla að vetri til:
Óska öllum gleðilegra áramóta og þakka enn og aftur fyrir innlitin og lesturinn á árinu sem er að líða.
...........................