Ég átti í
dálitlum vangaveltum við hann Tryggva Sig. í Eyjum í gær vegna skipsflaka við Snæfellsnes. Í framhaldinu var ég að grúska í myndum sem teknar voru sl. sumar á þeim slóðum. Mér fannst vanta myndir í skrána, myndir sem ég mundi eftir að hafa tekið en fann ekki þar sem þær áttu að vera. Eftir nokkra kaffibolla og smákökur datt ég svo niður á myndirnar þar sem þær áttu ekki að vera.
Hér rétt neðar á síðunni er færslan um kílómetrateljarana. Þar var þessu (kannski) undarlega áhugamáli lýst með nokkrum orðum en ég vissi að það vantaði myndir inní færsluna, myndir sem áttu að vera þar. Ókei, nú klárast dæmið þó allavega:
Þegar ég eignaðist sjúkrabílinn frá Selfossi hafði hann þjónað eigendum sínum dyggilega í rúman áratug. Sl. vor breyttist hann svo úr sjúkrabíl í ferðabíl en hélt þó útlitinu að mestu. Ég sagði frá furðusvipnum sem kom á litlu stúlkuna á Seljanesi við Berufjörð í sumar þegar við renndum heim á hlað, ég skrúfaði niður gluggann og spurði hvort ekki væri örugglega allt í lagi með alla á þessum bæ og hvort nokkurn þyrfti að flytja á spítala. Sumir komu til okkar gagngert í þeim tilgangi að spyrja hvort bíllinn væri ekki ekinn hálfa leið til helvítis og til baka. Jú, víst var hann kominn yfir ábyrgðartímann og aksturinn en það skipti svo sem ekki öllu máli. Þeir fengu yfirleitt sama svarið: "Topp viðhald og ástand, einn eigandi og alltaf geymdur inni" Geri aðrir betur!
Auðvitað gaf maður teljaranum í hraðamælinum auga. Tölurnar á honum voru mér ekki kunnuglegar, ég hef aldrei átt bíl með svona marga kílómetra að baki og maður fékk hálfgerðan sting þegar hvert nýtt hundrað bættist við. Svo kom auðvitað að því að teljarinn fór að sýna skemmtilegar tölur en því miður fóru flestar framhjá mér í byrjun. Svo var það í Snæfellsnesstúrnum að áliðnum júlí að hillti undir heila "þúsundveltu" Ég hafði því augun hjá mér til að missa ekki af viðburðinum.
Það var miðvikudagskvöld 24.júlí og við vorum að koma úr gönguferð um Beruvík. Klukkan var farin að nálgast ellefu, það var farið að bregða birtu enda talsvert þungbúið. Áfangastaðurinn var nýja tjaldsvæðið við Hellissand og sjúkrabíllinn malaði áfram á níutíu framhjá rústum eyðibýlsins Saxhóls. Ég leit á rústirnar út um bílstjóragluggann, svo á kílómetrateljarann af rælni og þá stóð helvítið í 305000 !!
Vegurinn var mjór, enginn útskot og rétt á eftir mér voru tvenn bílljós. Þessir örfáu tugir metra sem ég þurfti til að koma mér út í blákant og gefa "eftirförinni" merki um framhjáakstur dugðu til að teljarinn rúllaði um einn og sýndi nú 305001. Helvítis djöfull!
Eftirfararnir skutust framhjá og vegurinn fyrir aftan varð auður á ný. Ég tók myndavélina úr hulstrinu, mundaði hana á mælinn, setti í bakk og bakkaði nokkrar bíllengdir með annað augað í speglinum en hitt á teljaranum.
Það var þá sem ég kynntist því hvers konar vítisvél tölvutengdur digital-kílómetrateljari getur verið. Í stað þes að vinda ofan af sér eins og mér hefði fundist eðlilegt tryggði bölvaður sig í sessi með sína 305001. Hann hélt semsé áfram að telja upp þótt ég bakkaði!
Ég gat ekkert annað gert en að mynda mælinn í þeirri stöðu og vonast til að standa mig betur næst. Eins og sjá má er bíllinn í bakkgír þegar myndin er tekin og vélin malar lausagang. Það þarf ekki að kvarta undan olíuþrýstingi á 7,3 lítra International sleggjunni þó búið sé að snúa henni á fjórða hundrað þúsund kílómetra - og ekki alltaf á gönguhraða!
Þá er ég semsagt búinn að koma þessu frá mér og get hafist handa við að skrásetja síðustu ferð sumarsins á sjúkrabílnum. Sú var farin í septemberlok og er helst af henni að segja - og veðrinu - að ekki urðu mannskaðar á landinu og mun þó víða hafa staðið tæpt.........