Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


24.12.2013 11:10

Hann er að bresta á með jól! ( og lítil saga af krukku)


Það koma líka jól í Höfðaborg. Eðlilega eru þau í einfaldari kantinum því við erum aðeins tveir í heimili,ég og Bassi. Áróra hefur lítið sést undanfarna mánuði vegna anna við vinnu og fleira skemmtilegt svo það hefur verið rólegt hjá okkur tveimur. Ekki svo að skilja að það fylgi einhver hamagangur henni Áróru - öðru nær, hún er ennþá sama rólegheitabarnið og síðustu tuttuguogtvö árin.  

Fyrir einhverju síðan - það hleypur á árum - var ákveðið að þegar Bergrós Halla útskrifaðist úr grunnskóla (af því nú "útskrifast" börn úr grunnskóla og þurfa helst að fara utanlandsferð í kjölfarið). Þetta var hvorki hugmynd né ákvörðun okkar foreldranna, við fylgdum aðeins straumnum og stefnunni sem mótuð hafði verið af börnum og foreldrum í Hjallaskóla. Þegar einhver ferðast til útlanda þá þarf eðlilega farareyri og hann var svo sem ekkert stórvandamál. Ég fékk samt söfnunarhugmynd, innblásna frá gömlum vini á Ísafirði sem safnaði sér fyrir rándýru reiðhjóli á þennan hátt - ég fékk mér gamla, risastóra rauðkálskrukku sem til var á háaloftinu sem erfðagóss frá tengdamömmu. Á krukkulokið gerði ég rifu, límdi það svo fast aftur með límbandi (sem ég gaf það hátíðlega nafn "innsigli") og hóf að safna öllu klinki sem til féll í krukkuna. Söfnunin gekk hægt því eins og flestir notaði ég mest kort í viðskiptum og það var sáralítið um lausa peninga. Eitthvað rataði þó í krukkuna en þegar kom að útskrift og utanlandsferð var það engan veginn nóg svo krukkan fékk að standa ósnert, farareyririnn var greiddur rafrænt eins og hjá öðrum.

Þegar ég flutti svo í Höfðaborg fluttist krukkan auðvitað með og þar sem í mér býr eðlislæg ótrú á plastpeningum hneigðist ég æ meira - eftir að ég var orðinn einráður - til notkunar á lausu fé. Þar með hækkaði hratt í krukkunni, fyrr en varði var hún orðin full og búið að byggja við, þ.e. taka í notkun aðra, þó öllu minni. Hér neðar á síðunni sagði ég frá ferð Bergrósar Höllu til Spánar í septemberlok sl. Mér þótti tilvalið, í ljósi þess hvernig til krukkunnar var stofnað í upphafi, að hún fengi innihald hennar sem farareyri til Spánarfararinnar. Svo varð og það munaði sannarlega um innihaldið.

(Ég hef raunar sagt frá þessu áður en það er í góðu lagi.)

Þannig atvikaðist það að undir lok september stóð krukkan góða tóm á eldhúsborðinu. Mér fannst tilvalið að safna í hana fyrir jólagjöfum og hófst handa með þriggja mánaða fyrirvara! Ég er passasamur á klink og allt sem til féll rann samviskusamlega í krukkuna - ég segi allt en undanskil þó krónupeninga. Krónupeningar eru verðlausir miðað við þyngd og fyrirferð en eru hinsvegar ágætir í skífur. Þeim er því safnað í sérstaka krukku í bílskúrnum og eru svo gripnir og gataðir þegar þannig stendur á. Sem dæmi má nefna að ein átta millimetra rústfrí brettaskífa kostar átta krónur í BYKO og má nærri geta hvort ég er ekki ágætlega settur með krónurnar því gatið í miðjunni kostar mig ekkert nema föndrið. Ég má því segja með sanni að ég eigi ekki krónu með gati nema þegar ég þarf.....

En semsagt, ég safnaði stíft í krukkuna og þegar dró að jólum og gjafainnkaup stóðu fyrir dyrum settumst við Bassi niður við eldhúsborðið, tæmdum krukkuna í bakka og flokkuðum innihaldið:






Eins og sjá má er töluvert af "gullpeningum" í safninu og ég sá í hendi mér (og vissi raunar af fyrri viðskiptum við krukkuna) að innihaldið myndi nema allnokkurri fjárhæð. Það kom enda á daginn og við Bassi vorum bara þónokkuð hróðugir þegar við settum klinkið aftur í krukkuna og fengum okkur smákökur úr boxinu bak við sérvíettustandinn! Síðan var marserað í Landsbankann í Mjódd en svona fyrir siðasakir hafði ég krukkuna í nettum bréfpoka merktum einhverri tískuverslun. Í bankanum tók ég númer hjá gjaldkera og beið af mér eina fimmtán viðskiptavini áður en kom að mér. Allan tímann sat ég með fargið í fanginu og ekki yrði ég hissa þótt einhver hefði haft vakandi auga á grunsamlegum manni með eitthvað blýþungt í poka. Að síðustu kom að mér og ég ætla ekki að lýsa furðusvipnum á gjaldkeranum (eða gjaldkerunni) þegar ég spurði hvort hún væri handsterk og rétti svo krukkuna yfir glerið á stúkunni!  Því miður var þetta fullorðin kona og lífsreynd, ég hafði vonast eftir að hitta á eitthvert gjaldkeratrippi sem væntanlega hefði verið slegið illa út af laginu. Fullorðna konan benti mér - með örlitlu brosi sem var ótrúlega vel stjórnað - á talningarvél í einu horni útibúsins. Ég var þarna að tæma krukkuna sjálfur í fyrsta skipti og vissi ekkert hvernig svona hlutir gengju fyrir sig - fimmtán kúnna biðin hafði þá eftir allt verið óþörf! Ég klóraði mig fram úr talningarvélinni og lagði niðurstöðuna, að frádregnum 150 krónum sem vélin vildi ekki meðtaka, inn á reikning. Innihald krukkunnar reyndist rétt tæpar þrjátíuogfimm þúsund krónur og það er ekki slæm búbót í jólagjafainnkaupum!

Í gærmorgun, á Þorláksmessu var nokkrum utanhúss-jólaerindum ólokið. Í þau var gengið og er kom fram á miðjan dag, síðasta erindinu lauk og við vorum á heimleið sagð ég við Bassa: "Jæja Bassi minn. Nú er allt klárt til jólanna, nú getum við farið heim og þurfum ekki út úr húsi fyrr en annað kvöld"

.............og þannig hefur það verið. Það er aðfangadagshádegi, veðrið er þolanlegt þrátt fyrir spár, hér er sæmilega bjart, úrkomulaust en vindstrekkingur nokkur. Bassi hefur ekki nennt út í morgun enda tók hann hálfsannarstíma gönguferð í gærkvöldi. Eftir slíkt ráp er hann latur og vill helst liggja í körfunni sinni við ofninn. Við eigum ófrágenginn rauðan Vitarajeppa hér niðri og óinnpakkaðar jólagjafir. Hvorttveggja þarf að vinnast í dag. Ekki seinna vænna að hefjast handa! 
Aðeins eitt enn:

--------------------------------------------------------------------------------------------------

Á fyrsta degi desembermánaðar var Stakkanesið tekið á land. Svo lengi frameftir hefur það aldrei verið á floti og Viðeyjarsiglingin, sem var sú síðasta þetta árið toppaði haustið að fullu. Eftir þá ferð gerði varla almennilegan dag og það var ákveðinn léttir að koma bátnum í naust og ganga frá honum til vetrarins. Einhvern tíma í haust þegar kvöld voru orðin dimm setti ég slönguseríu á stög mastranna og sigldi með hana minnst einu sinni um Sundin. Ég hugsa að það hafi verið sjón úr landi að sjá siglandi bát skreyttan eins og hvalaskoðunarskip en að stærð til eins og björgunarbát þeirra! 
Það var svo á hörðu frostkvöldi fyrir nokkru síðan að ég tók með mér framlengingarsnúru að bátnum, fann mér rafmagnstengil í nálægum geymslugám og stakk seríunni í samband. Dró svo upp myndavélina og tók nokkrar myndir til að nota við nákvæmlega þetta tækifæri - jólakveðju okkar Bassa úr Höfðaborg. Vegna frostsins urðu myndirnar dálítið einkennilegar, líkt og á þeim sé móða. Ég get ekki gert að því, svona varð þetta bara og betra tækifæri gafst ekki. Stb. síðan á Stakkanesinu virðist nudduð. Hún er það alls ekki, þetta er aðeins einhverskonar ljósbrot vegna frostsins. Sama gildir um gluggana - þeir eru ekki hélaðir:







Við svo búið viljum við Bassi óska öllum sem lesa sig alla leið hingað niður, gleðilegrar jólahátíðar og þökkum lesturinn og kveðjurnar á árinu. Við sendum sérstakar kveðjur vestur á Ísafjörð, þar sem leiðindaveður spillir færð og rafmagnið flöktir. Fátt í þeim efnum kemur þó Ísfirðingum á óvart og þar á bæ ganga jólin sinn vanagang sama hvað á dynur - enda koma jólin innanfrá!

...............alveg eins og hér í Höfðaborg.........

GLEÐILEG JÓLemoticon

..................................................

Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 217
Flettingar í gær: 1205
Gestir í gær: 620
Samtals flettingar: 139373
Samtals gestir: 29414
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:13:26


Tenglar