Hún Bergrós
Halla er í Versló, eins og áður hefur komið fram. Síðastliðið vor var ákveðin skiptiheimsókn
nema úr spænskum viðskiptaskóla og skyldi hún standa fyrstu daga
septembermánaðar. Að mánuði liðnum skyldu svo íslensku verslingarnir
endurgjalda heimsóknina. Í upphafi skólaárs nú í haust var gríðarlegur
spenningur meðal þeirra þriðjaársnema sem áttu von á Spánverja í heimsókn, því
spænsku nemarnir skyldu jú gista heima hjá þeim íslensku og síðan öfugt. Með
góðum fyrirvara voru bæði nöfn og myndir komin á netið og margir unglinganna
komnir í hálfgert "vinasamband" þegar leið að komu Spánverjanna. Sumir höfðu
"pantað" sér gest, öðrum var úthlutað gestum af skipuleggjendum. Í hlut
Bergrósar Höllu kom Davíð frá Barcelóna og eitthvað höfðu þau haft netsamband sín
á milli er að heimsókn kom. Stór hluti
undirbúnings kom í hlut mömmunnar, Bergrós Halla býr jú enn í heimahúsum og
Elín Huld sá um að allt yrði tilbúið þegar stóri dagurinn rynni upp.
Á
fimmtudagssíðkvöldi þann 30. ágúst lenti svo hópurinn á Sandgerðisflugvelli og
hver sótti sinn gest. Dagskrá heimsóknarinnar var nokkuð stíf, hófst snemma á
föstudagsmorgni og stóð allan daginn. Þann sama dag lauk minni
Ísafjarðarheimsókn og ég ók suður heiðar á sjúkrabílnum í blíðskaparveðri alla
leið - þrátt fyrir hroðalega veðurspá! Þegar ég nálgaðist suðvesturhornið var
ég símleiðis boðaður í gala-kvöldmat í Ástúninu og þáði að sjálfsögðu.
Ætlast var
til að gestgjafar sæju um afþreyingu fyrir gesti sína laugardag og sunnudag.
Við spænskan undirbúning fararinnar hafði legið fyrir listi yfir áhugaverða
staði í seilingarfjarlægð frá Rvk-svæðinu og einnig utan þess. Innan seilingar
voru hefðbundnir ferðamannastaðir, s.s. Þingvellir, Gullfoss og Geysir en
einnig Reykjanesskaginn í heild. Spænsku
nemarnir áttu að merkja við þá staði sem þeir óskuðu helst að sjá og skoða.
Langflestir
nemanna völdu Jökulsárlón sem óskastað og því var einn dagur heimsóknarinnar
lagður undir ferð þangað. Ekki var hægt
að gera ráð fyrir að hver fjölskylda æki austur með "sinn" nema og því var
ákveðið að leggja einn dag heimsóknarinnar undir rútuferð austur að lóninu.
Fyrir utan Jökulsárlón höfðu nemarnir helst valið heðbundnu staðina, enda eru
þeir líklega einhverjir best kynntu staðir á Íslandi, svona heilt yfir..
Við Bassi
náðum ágætis nætursvefni eftir aksturinn suður og kvöldverðinn, og vorum snemma
á fótum á gullfallegum laugardagsmorgni - eins og venjulega. Við hefðum hins
vegar getað sagt okkur sjálfir að íslensku verslingarnir myndu vilja sýna þeim
spænsku íslenskt "næturlíf" á föstudagskvöldinu og fram á nóttina. Þótt allrar
reglu væri gætt sváfu þessi blessuð lömb því eðlilega fram undir laugardagshádegi.
Það var ekki fyrr en undir miðjan dag sem ekið var af stað í austurátt beint
upp að Geysi. Þar hittum við fyrir þónokkra krakka/foreldra í sömu erindum.
Þeim spænsku þótti mikið til þess koma að sjá Strokk spýta úr sér og mynduðu
allt í gríð og erg. Frá Geysi var haldið
að Gullfossi og þaðan til baka um Lyngdalsheiði til Þingvalla. Það var farið að
halla degi þegar við lögðum af stað heim og nokkuð farið að kólna. Davíð hinn
spænski var farinn að skjálfa úr kulda enda hitastigið í Katalóníu talsvert
frábrugðið íslensku síðsumri. Hann mátti þó harka af sér því enn var talsverð
dagskrá eftir hjá verslingunum og skyldi standa fram á rauða nótt.
Það var ekki
fyrr en heim kom sem við foreldrar og fararstjórar áttuðum okkur á því að við
höfðum ekki tekið eina einustu mynd í dagsferðinni! Við lofuðum sjálfum okkur
að standa okkur betur daginn eftir, á sunnudeginum. Þá höfðum við ákveðið að
renna á Reykjanesið og sýna Davíð m.a. Krýsuvík, Strandarkirkju og
Raufarhólshelli. Bláa lónið var inni á
sameiginlegri ferðaáætlun hópsins og skyldi heimsótt í vikunni.
Svo rann
sunnudagurinn upp. Veðrið, sem hafði leikið við okkur daginn áður hafði
algerlega snúist við og nú var þoka með húðarrigningu á köflum. Eftir að hafa
ræst ungmennin undir hádegið og haldið fund um málið var ákveðið að setja undir
sig hausinn að víkingasið og æða út í votviðrið. Fyrsti viðkomustaður okkar var Kleifarvatn, þar sem ekið var niður að vatni og skoðaðar móbergsmyndir, bæði manngerðar og náttúrlegar. Á meðan rigndi svo ofboðslega að ég er sannfærður um að ef bíllinn hefði verið s.s. hundrað metrum lengra í burtu hefðum við hreinlega orðið úti á göngunni!
Þá var það Seltún. Ég þuldi upp söguna um hverinn sem sprakk og sýndi Davíð ummerkin, þ.e. þau sem enn sjást. Ég er ekki viss um að hann hafi haft mikinn áhuga fyrir leirslettunum, áhuginn snerist meira um að lifa veðráttuna af......
Vestfirskir víkingar þurftu hins vegar hvorki úlpu né húfu enda kallast það ekkert veður sem ekki fylgir snjókoma.....
Bergrós Halla var hins vegar aðeins tæpra fjögurra ára þegar hún flutti af Vestfjörðunum og vill gjarnan álíta svona veður "skítaveður":
Ég veit ekki hvort myndavélin hans Davíðs komst heil úr hildarleiknum, en blaut var hún orðin. Eftir þessa heimsókn í Seltún bætti heldur í veðrið og frekari myndatökur lögðust af. Ferðin hélt hins vegar áfram þótt lítið sæist út, bæði vegna þoku og eins vegna móðu á bílrúðunum. Við skoðuðum leifarnar af Krýsuvíkurkirkju og upplýsingaskilti um hana, renndum svo austur í Selvog, meðfram Hlíðarvatni og að Strandarkirkju. Eftir stutta skoðun þar var haldið að T-bæ, litla veitingahúsinu í Selvogi. Þar var að ljúka skírnarveislu í hliðarsal en samt var kaffisalan opin almenningi. Í afgreiðslunni voru tvær fullorðnar konur og við tókum spjall yfir kaffi og kökusneið. Einhvern veginn barst Ísafjörður í tal og uppruninn þar. Önnur konan sagðist þá vera að vestan og hefði m.a.s. alist upp á Ísafirði - hefði búið í Aðalstræti átta. Ég fór að telja upp þá sem ég mundi eftir í "hennar" enda hússins, Bjarna sem þar bjó, Binna Bjarna, son hans sem líklega býr enn fyrir vestan og Jónu Bjarna. "Ég er Jóna Bjarna" sagði þá konan og skemmti sér vel yfir mínum viðbrögðum, því sú Jóna Bjarna sem ég mundi eftir var gjörólík konunni sem ég var að tala við - enda trúlega þrjátíu ár liðin frá því ég sá henni síðast bregða fyrir!
Þannig var nú það. Við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum þessar indælu konur í T-bæ. Okkar leið lá til Þorlákshafnar og veðrið var orðið þannig að vart var hundi út sigandi.
Við snerum á þessu útsýnisplani sem gert hefur verið niðri við vitann á Hafnarnesi. Ég reyndi að segja Davíð frá "dólossunum" steinsteyptu sem notaðir voru í eina tíð til að gera hafnargarðinn í Þorlákshöfn en er ekki viss um að hann hafi skilið mig - eða kannski þóttu honum þessi steyptu "tvö-T" -stykki bara ekkert merkileg.
Við höfðum talað um að reyna að líta á Raufarhólshelli í heimleiðinni en veðrið kom í veg fyrir langa göngu þar. Grjótið í hellinum var flughált og eftir svo sem 3-400 metra var ákveðið að snúa við og reyna frekar að komast heil heim. Það tókst og eftir alfataskipti hélt stíf dagskrá unglinganna áfram.
Á mánudagsmorgni tóku skipuleggjendur heimsóknarinnar í Versló við taumnum og sáu með prýði um sinn þátt. Það kom svo í minn hlut að aka Davíð út í Leifsstöð á fimmtudeginum. Þar með lauk vikulangri, velheppnaðri heimsókn spænsku verslinganna (ef frá er talið sunnudagsveðrið) og fyrir lá undirbúningur þeirra íslensku sem endurgjalda skyldu heimsóknina að tæpum mánuði liðnum. Sú ferð tókst líka með miklum ágætum en ég sem foreldri hafði fátt af henni að segja.
......ég veit bara að það var sól á Spáni.......alla dagana!
.............................