Frídagur
verslunarmanna árið 2013 var ekki frídagur dýranna. Í það minnsta ekki frídagur
dýranna í dýragarðinum að Slakka í
Laugarási, Biskupstungum. Eins og fram kom í síðasta pistli eyddum við EH
sjálfri helginni á stefnulitlu rápi um flatlendið austan fjalla en á meðan
tveir eldri afleggjararnir skemmtu sér á þjóðhátíð í Eyjum stóð sá yngsti sína
plikt í vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Bergrós Halla átti svo sitt frí á
mánudeginum líkt og margir aðrir og við EH höfðum ákveðið að gefa henni þann
dag - þ.e. gera eitthvað það með henni sem henni þætti skemmtilegt og óskaði
eftir. Við höfðum jafnframt ákveðið að leggja fram okkar tillögu, sem mótaðist
fyrst og fremst af veðurútliti dagsins og svo öðru (smá)atriði sem okkur grunaði
að hægt væri að stilla upp.
Bergrós Halla hafði aðspurð engan sérstakan viðburð
í huga, var aðallega þreytt eftir vinnutörn helgarinnar. Þegar við svo viðruðum
okkar hugmynd gleymdist henni öll þreyta á svipstundu og andlitið ljómaði eins
og á þeim sem gleðjast beint frá hjartanu. Okkar tillaga snerist nefnilega um
bíltúr austur í Slakka í Laugarási, þar sem vistuð eru dýr af flestum mögulegum
tegundum, jafnt láðs- sem lagar. Jú, og lofts auðvitað því ekki má gleyma
fuglunum (hvort eru hænsni annars dýr loftsins eða láðsins?)
Það voru
liðin allmörg ár síðan Bergrós Halla heimsótti Slakka síðast. Ef við giskum á
fjögur ár þá er mikill munur á því að vera fjórtán eða átján, ekki satt? Rósin
okkar var rétt að detta yfir átján ára markið langþráða en það var hreint ekki
að sjá á kiðlingalátunum þegar ferðin var undirbúin og lagt var af stað. Okkur
EH leiddist svo sem ekkert heldur enda fátt skemmtilegra en að sjá afkvæmin
gleðjast svo innilega. Aðeins einn lét sér fátt um finnast og hreiðraði um sig
upp við drifaskiptistöng sjúkrabílsins - ekki kannski notalegasti staðurinn en
þegar maður (hundur) veit af nammipoka í nágrenninu er vissara að halda sig
nærri...
Prinsessan fékk að sitja frammí og þar sem hún sat og föndraði við símann sinn var upplagt að hrinda í framkvæmd (smá) atriðinu sem fyrr var nefnt. Við vissum nefnilega að Áróra átti ferð frá Eyjum til Landeyjahafnar á svipuðum tíma og var ein á ferð á eigin bíl. Við höfðum því ákveðið að reyna að stilla hlutum svo upp að systurnar gætu hist í Slakka og átt þar góða stund með sínu uppáhaldsáhugamáli.
Allt gekk þetta eftir og innan skamms voru systurnar sameinaðar í kattakofanum. Ég segi það dagsatt að með kettina í höndunum höfðu þær ekki elst einn dag frá síðustu heimsókn og þetta velþekkta "Gvuð, má ég eig´ann?) hljómaði alveg jafn djúpt, heitt og innilega og áður fyrr:
Það þarf vart að taka fram að Edilon Bassi var geymdur úti í bíl á meðan. Hegðunarmunstur hans hæfir ekki slíkum samkomum og þótt hann sé gæðahundur að flestu leyti var óþarfi að taka áhættuna - enda bannað að koma með eigin dýr inn á svæðið.
Svo kom að því að fleiri -og yngri - vildu klappa kisunum. Okkar tvær voru ekki alveg á því að sleppa en létu sig þó á endanum. Næst var það hvolpahornið:
Það má svo vel giska á hvað hvolpurinn er að hugsa. Manni gæti dottið í hug: "Kræst, það eru enn þrír tímar til lokunar. Hvað þarf maður (hundur) eiginlega að þola þetta oft og lengi?"
Við foreldrarnir höfum svo sem ekkert á móti dýrum. Þessvegna máttum við alveg líka - svona aðeins........
Ég mátti til að mynda þennan fallega blending með raunalega andlitið. Hann var orðinn svo þreyttur á vafstrinu að hann stóð varla undir sjálfum sér. Starfsstúlkan sem heldur á honum sagði mér að búið væri að finna honum heimili og hann væri á leið þangað næstu daga. Vonandi hefur honum vegnað vel:
Svo fundu systurnar kanínubúrið. Þar festust þær algerlega og á tímabili héldum við að þær yrðu framvegis heimilisfastar í Slakka:
Meðan þær tvær sinntu sínu litum við aðeins á fiskabúrin. Þar gat að líta fisk sem ég kunni ekki að nefna og kann ekki enn, en hann er sannarlega með því ljótasta sem ég hef á ævinni séð:
...og svo voru allir hinir, sem alls ekki voru ljótir:
Ekki má gleyma þessum bölvaða hávaðasegg, sem rak upp hvert öskrið á fætur öðru svo menn og dýr hrukku við:
Þessi var öllu rólegri, sat á öxl eiganda síns og litaðist um:
Mér finnst mýs ekki skemmtileg dýr og vil helst ekkert af þeim vita. Þó man ég eftir skemmtilegu músabúri sem til var í Efri-Engidal uppúr 1960 og kúarektorinn Kristinn Sölvi safnaði músum í. Þær mýs voru ólíkt líflegri en þessi dauðyfli sem hrúguðu sér saman inn í alltof lítið hús:
Það leið að lokun dýragarðsins þennan daginn og Áróra, sem hafði tekið þjóðhátíðina með trompi vildi fara að nálgast bólið sitt í bænum. Hún lagði því af stað heimleiðis á undan okkur hinum, sem dóluðum í rólegheitum í átt til höfðuðborgarinnar og létum berast með straumi ferðafólks á heimleið eftir misvel heppnaða helgarútilegu. Sjálf höfðum við undan engu að kvarta. Við höfðum verið á ferðinni síðan á miðvikudagseftirmiðdag og spannað svæði allt frá ysta tanga Skálmarness í vestri til Þykkvabæjar í austri. Í okkar huga var þetta eins og mánaðarlöng reisa enda mun þetta vera áttundi pistillinn sem skrifaður er um þetta sex daga tímabil.
Ferðaáætlun sumarsins var þó hvergi nærri tæmd og á heimleiðinni voru rædd drög að næsta þvælingi. Þau plön áttu svo öll eftir að breytast................
..........................