Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


27.08.2013 19:39

Skálmarnesmúli, annar hluti.

Staður, Staðarhöfn og dráttarvélar.

(Innskot: Ég setti hlekk í fyrsta hluta pistilsins, um Laugaland í Þorskafirði en gleymdi að tengja hann. Ég hef bætt úr því og hlekkurinn á nú að vera virkur)


Fimmtudagurinn rann upp, var bjartur og lofaði góðu. Við vorum mátulega snemma á fótum enda ferðaáætlun dagsins ekki fastmótuð enn. Okkur langaði að renna út að Stað og niður að Staðarhöfn, og gerðum það um leið og morgunverði var lokið. Ferðaveðrið var nokkurn veginn svona:



Rétt við vegamótin Reykhólar / Staður er býlið Grund. Þar er merkilegt dráttarvélasafn sem mig langaði að líta á en ákvað að geyma þar til í bakaleiðinni. Ennfremur ókum við framhjá tveimur umkomulausum plastbátum uppi á landi og ákváðum sömuleiðis að skoða þá í bakaleiðinni. Það er fallegt þarna úti á Reykjanesi og enn fallegra var að líta heim að býlinu Stað, þar sem flest gleður augað, ekki síst gamla kirkjan. Við ákváðum að líta á hana í bakaleiðinni.......

Í Staðarhöfn lágu þrír bátar. Einn þeirra var sýnu stærstur og þar var auðþekkt gamla "Kiddý" hans Hafsteins Ingólfssonar á Ísafirði, ferðabátur sem marga fjöruna hefur sopið og siglir nú með ferðamenn út í Skáleyjar, Sviðnur og fleiri staða. Báturinn var ljómandi vel útlítandi og snyrtilegur, enda voru tvær kynslóðir eigenda á fullu við að pússa og bóna. Það var sumsé ekki ferðadagur þennan dag, siglingadagar voru miðvikudagar og laugardagar svo nú fékk báturinn hvíld og klapp.







Við áttum ágætt spjall við eigendurnar og að því loknu var haldið heim að Stað og litið á kirkjuna. Á bæjarhlaðinu stóð þessi fyrirmyndar Ferguson og endurkastaði sólargeislum...





Kirkjan er mjög falleg en var nokkuð farin að láta á sjá, hafði þó verið endurbyggð einhvern tíma á síðustu áratugum. Ekkert er eilíft og það var greinilega kominn tími til að líta á eitt og annað aftur.









Það var kominn dálítill fúi í undirstöður turnsins og þær nokkuð farnar að skekkjast. Ég mátti til að kíkja aðeins upp í turninn og mynda:



Mátti til að mynda þessi fallegu, gömlu hús á bæjarhlaðinu. Svo fannst mér dálítið merkilegt að sjá tvenna tíma kallast á fyrir húshornið. Annars vegar var fótknúinn hverfisteinn, hins vegar fjórhjól...



Niðri á túnunum spölkorn frá bænum stóð kunnugleg tegund af bíl. Ég mátti til að finna slóð niðureftir og kanna gripinn:



Jú, þetta var gamall Læner, custom - sætabíll með framdrifi og öllu og á gegnumfúnum 38 tommu dekkjum. Mér flaug eitt augnablik í hug að aka aftur heim að bæ og falast eftir felgunum, en áttaði mig svo á að þær myndu of breiðar fyrir sjúkrabílinn. Enda á hann örugglega eftir að liggja þarna eitthvað enn, þessi dreki ef sjúkrabílsáætlunin skyldi breytast í vetur.
Svo voru það bátarnir sem átti að skoða í bakaleiðinni. Þeir lágu þarna ekki langt neðan við Miðjanes, annars vegar hún Dagga frá Skarðsstöð, 700 Víkingbátur sem augljóslega hafði lent í tjóni og var hálfviðgerð. Viðgerðinni hafði greinilega verið hætt og Dagga reri nú landróðra eftir túnfiski. Svipað var ástatt um norska síldveiðiskipadráttarbátinn sem lá hjartalaus á hliðinni rétt hjá Döggu. Þetta var öflugur bátur sem hefði getað gert stóra hluti við réttar aðstæður  - og í réttum höndum. Þarna voru bara engar hendur.....









Kannski kveikja myndirnar áhuga hjá einhverjum, sem vill setja sig í samband við eigandann. Mér skilst hann búi á Miðjanesi.
..............................................................................................................................





Ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um Porsche. Jújú, þetta eru eflaust vandaðir vagnar og allt það, en ég set þá samt alltaf á sama bekk og Fólksvagen, og mér líkar ekki Fólksvagen. Það var samt ekkert Fólksvagenlegt við Porsche dráttarvélina frá 1955, sem fóstruð er að Grund á Reykjanesi. Hún var algerlega "Júnik" eins og maður má alveg segja. Við höfðum ætlað að líta aðeins á dráttarvélasafnið að Grund "í bakaleiðinni" en það lá við að ferðalagið yrði hreint ekki lengra, svo gaman var að skoða vélarnar og spjalla við karlana sem eiga þær og sinna.



Við hlið Porsce er eldrauð Hanomag R12, líka árgerð 1955 og minnti mikið á þá gömlu sem ég átti eitt sinn og gerði þokkalega upp. Sú vél endaði norður í Furufirði á Ströndum, eins og ég hef áður skrifað um m.a. HÉR . Ég nefndi hana við karlana og úr varð spjall sem hefði þess vegna getað staðið allan daginn. Ég var hins vegar gerður kjaftstopp þegar þeir buðu mér að prófa Porsce-inn!!  Enginn heilvita maður slær hendinni móti þvílíku boði og Porsche var startað í gang. Það var upplifun útaf fyrir sig að heyra vélina taka við sér því það mátti telja slögin í þessarri eins strokks loftkældu dísilvél og þurfti ekki að vera neitt sérlega snöggur að telja.....donk.......donk.....donk, svo nokkur donk í viðbót og ég var ekki alveg viss um hvort hún hefði það í gang eða stoppaði aftur. Svo styttist tíminn milli donk-anna, styttist enn meira og loks var ljóst að hún myndi hafa það af og haldast í gangi. Þá fór sko fyrir alvöru að verða gaman!









Svo var bakkað aftur í stæðið og þá kom enn ein snilldin í ljós. Þessi vél er með fjóra gíra áfram en engan afturábak. Hún er nefnilega með vendigír aftan við gírkassann, svo það er sama í hvaða gír hún er, aðeins er fært eitt lítið handafang og þá bakkar vélin í "áframgírnum". Auðvitað vita flestir hvað vendigír er, en mér fannst það magnað að ´55 árgerð af dráttarvél skyldi hafa verið búin slíkum búnaði.



Svo voru þarna tveir "gránar", annar nýuppgerður og afar fallegur, hinn óuppgerður og satt að segja var grái liturinn eiginlega horfinn með öllu. Vélin var samt gangfær og í prýðilegu lagi - vantaði aðeins útlitsklappið.





Allt gott tekur enda, og svo var einnig um þessa heimsókn. Við kvöddum þessa skemmtilegu karla og héldum okkar leið í átt að Bjarkalundi. Þar skyldi fyllt af fokdýrri hráolíu áður en haldið yrði á vit torfæranna út í Skálmarnes.



Við Bjarkalund stóð "Læðan" landsfræga og hefur heldur sett ofan, hafi það á annað borð verið hægt:





Hér ætla ég að ljúka öðrum hluta. Þriðji hluti er handan við hornið......




llllllllllllllllllllllll
Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 217
Flettingar í gær: 1205
Gestir í gær: 620
Samtals flettingar: 139373
Samtals gestir: 29414
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:13:26


Tenglar