Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


19.08.2013 19:56

Snæfellsnes - annar hluti.

Eins og áður var fram komið héldum við til bíls eftir að hafa gengið kyrrlátlega fram hjá GPS - háskólaapparatinu sem ekki mátti trufla. Svo var ekið sömu leið til baka í átt að Arnarstapa. Við höfðum nefnilega fregnir af dansk/íslenskum leiðangri sem var á ferð út norðanvert nesið og fyrir það, Okkur langaði að hitta leiðangursfólkið og reiknaðist til að líklegur mætingarstaður yrði milli Hellna og Djúpalóns. Næsti ákvörðunarstaður okkar var því Hellnar og næsta áning var tekin við kaffihúsið litla í fjörunni:



Þarna niðri í fjörunni við kaffihúsið og bryggjuna gömlu er hreint ævintýralega fallegt.



...og þar sem Elín var með myndavélina voru fjörusteinarnir myndaðir á listrænan máta, enda hver steinn náttúrulistaverk í öllum skilningi:



Við gengum um sandfjöruna ofan við bryggjuna hreinlega heilluð af fegurðinni, veðrinu, útsýninu, kaffinu í Fjöruhúsinu og makrílveiðibátunum útifyrir ströndinni:



Séð frá bryggjusporðinum upp til Stapafells og Snæfellsjökuls var veröldin hreinlega eins og málverk.



Við bryggjuhausinn uxu svo þessir myndarlegu þarabrúskar og með aðfallinu vatnaði yfir þá. Svo bærðist þarinn til og frá fyrir hægri undiröldunni......



Við klifruðum upp á klettana ofan við Baðstofuhelli og mynduðum niður. Í víkinni voru tvö stelpuskott að leika sér við ölduna, hlupu berfættar milli steina út í klettinn neðarlega hægra megin á myndinni. Þar sástu þær svo og tístu þegar kaldur sjórinn kitlaði iljarnar....



Við höfðum fregnir af vinum okkar í  dansk/íslenska leiðangrinum. Einhvern veginn hafði þeim tekist að fara á mis við Djúpalónssand og innan stundar birtist hópurinn á bökkunum ofan við kaffihúsið. Þar urðu fagnaðarfundir og þar sem margir koma saman - þar er gaman. Hópurinn var orðinn svangur eftir langt ferðalag og því var blásið til stórveislu. Sérréttur hússins, fiskisúpan, brást ekki.



Danski Íslendingurinn Elva Sofia Jónsdóttir hin nýskírða frá Skálholti lét lítið yfir fiskisúpunni en var annars hin brattasta þrátt fyrir dálitla ferðaþreytu.



Vegna þess að hópurinn hafði ekið framhjá vegamótunum niður að Djúpalónssandi var ekki um annað að ræða en snúa til baka eftir veisluna  - enda ekki um langan veg að fara - og ganga niður á sandinn. Ungviðið reyndi sig við steinatökin en hafði vart árangur sem erfiði, og var þó drjúgt erfiðað því ekki voru allir á því að láta sinn hlut fyrir dauðum steinum.  Svo var farið að skoða brotin úr togaranum Epine, sem þarna liggja um allt:



Hún Eva Lilja er ekki stór og þó er hún stóra systir hennar Elvu Sofiu. Henni fannst gaman að henda steinum, líka að hlaða steinum. Allt sem tengdist steinum var gaman og þarna var nóg af steinum.....



Af skuggunum á efri myndunum má sjá að degi var verulega tekið að halla, klukkan líklega orðin tíu eða meira. Djúpalónssandur var síðasti viðkomustaður leiðangursins, að frátöldu stuttu stoppi að Arnarstapa. Að því loknu óku þau alla leið suður í Biskupstungur í striklotu.
Elín tók þessa fallegu kvöldmynd af öldunni við Djúpalónssand um leið og við gengum til bíls.



Það var farið að nálgast háttatíma og við höfðum ákveðið að nátta á nýju tjaldsvæði á Hellissandi. Þangað lá því leiðin en - með einni viðkomu þó. Ég kom niður í Beruvík fyrir meira en tíu árum, gekk þar um og skoðaði rústir húsa sem þar höfðu eitt sinn myndað vísi að þorpi. Mig hafði lengi langað að endurtaka gönguna en ekki orðið úr. Nú var ákveðið að nota síðustu sólargeisla dagsins til að rölta niðureftir. Þetta er stutt ganga, varla meira en 5-10 mínútur að rústum Nýjubúðar, sem eru heillegastar. Á göngu um fjöruna fann ég brak úr skipi og minntist þess að fyrir áratugum hafði Akranessbáturinn Böðvar  ( sjá HÉR og HÉR ) strandað þarna og eyðilagst. Svo fann ég meira brak og enn meira, og loks var orðið ljóst að þarna var brak úr miklu stærra skipi en hinum áttatíu lesta eikarbáti, Böðvari AK. Þarna voru mörg brot úr járnskipi og þykkt efnisins benti til að um stórt skip hefði verið að ræða. Ég hafði pata af að talsvert löngu fyrir aldamótin 1900 hefði strandað þarna allstórt skip en taldi víst það hefði verið tréskip, svo tæplega gat þetta járn verið úr skrokki þess.

(Skipið sem um ræðir er sagt hafa heitið Brilliant Star og á að hafa strandað við Beruvík 1882. Ég hef enga heimild fundið um þetta skip aðra en þá upphaflegu, sem finna má á korti yfir þjóðgarðinn útgefnu af Umhverfisstofnun - sjá HÉR )


Heimkomin lagðist ég svo í grufl og komst að því að líklega væri þarna um að ræða brot úr skrokki danska seglskipsins Africa, sem stundum var kallað "korkskipið" og má lesa nokkur orð um HÉR. Skrokk skipsins mun nefnilega hafa rekið upp í skerin fram af Beruvík og hann brotnað þar. Meðan ekki koma fram betri upplýsingar verð ég að halda mig við þessa skýringu.




Þar sem við gengum milli járnbrotanna og virtum fyrir okkur gríðarmikla hlaðna túngarða sáum við allt í einu hreyfingu milli steinanna. Fyrst sýndist þar vera köttur á ferð en svo sáum við hvers kyns var. Þarna var yrðlingur, og rétt á eftir sáum við annan. Þarna hlaut að vera greni nærri, þó ekki sæjum við tófuna sjálfa. Annar yrðlingurinn lét sig hvefa milli steina þegar við nálguðumst með myndavélina en hinn lá sem fastast, jafnforvitinn um okkur og við um hann. Hann sést vel á myndinni hér að neðan, þar sem hann liggur á maganum og horfir í átt til okkar. Hann er móbrúnn að lit og liggur í hægri jaðri grasbrúsksins í miðri mynd.



Eftir að hafa fylgst með yrðlingnum góða stund og reynt að ná "sambandi" við hann án árangurs snerum við frá og gengum að rústum Nýjubúðar. Þarna hefur staðið hið reisulegasta steinhús en særokið, frostið og stormurinn vinna sitt verk - þegar ég kom þarna fyrir meira en áratug stóð mun meira uppi af húsinu en nú, og það sem enn stendur, stendur tæpt......



Þarna á veggjum Nýjubúðar má sjá síðustu sólargeisla kvöldsins, nokkrum mínútum síðar voru ljósin slökkt. Við gengum til bílsins í hratt kólnandi vindgjólu og ókum rakleitt á Hellissand.



Á Hellissandi er eins og áður segir, nýtt tjaldsvæði, snyrtilegt og vel búið. Þar settum við okkur niður enda svæðið hluti af neti Útilegukortsins okkar. Enn einum frábærum ferðadegi var að ljúka og að morgni tæki annar við.

.......en hann bíður þriðja og síðasta hluta......

Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135240
Samtals gestir: 27944
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:09:53


Tenglar