Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.08.2013 20:57

Snæfellsnes - enn einu sinni!

Líklega fyrsti hluti af þremur!



Í myndaalbúmi ferðarinnar stendur dagsetningin 23. júlí. Það var þriðjudagur og það var andskotans vindbelgingur þennan dag. Spáin var samt ágæt fyrir þá allra næstu og þess vegna var lagt af stað úr bænum með óljósa ferðaáætlun. Hugmyndin var þó að aka fyrir Snæfellsnes, nokkuð sem ég hef reynt að gera á hverju sumri síðan ég flutti suður haustið ´99 og stundum oftar en einu sinni sama sumarið. Ég fæ nefnilega aldrei leið á Nesinu, finn stöðugt eitthvað nýtt að skoða og ef ekki þá skoða ég bara það gamla aftur og aftur. Ég vissi að Elínu langaði líka upp á Nes þótt hún væri nýkomin úr Eyjum og bauð henni því bara að slást í förina - Bassi hafði aðspurður heldur ekkert á móti því. Við vorum því enn einu sinni svona næstum eins og alvöru fjölskylda.......

Það var talsvert liðið á þennan nefnda þriðjudag þegar lagt var af stað úr Höfðaborg. Ljósaskiltið á Esjumelum sem sýnir hita og vindstyrk á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli lýsti rauðu á hviðutölunum. Á Kjalarnesinu voru þær 23 mtr og undir Hafnarfjalli 25 mtr. Umferð var töluverð en fjöldi draghýsa aftur á móti hverfandi. Sjúkrabíllinn er þungur og fann ekkert fyrir hviðunum á Kjalarnesinu. Hann fann hins vegar fyrir einhverjum dratthölum sem þeyst höfðu framúr á flatlendinu en siluðust svo upp úr Hvalfjarðargöngunum norðanverðum og töfðu för heiðarlegs fólks á nærri þrjúhundruð dísilhestafla sjúkrabíl. Þessir sömu dratthalar voru því rassskelltir á uppleiðinni svo um munaði og eru þar með úr sögunni.

Olíssjoppan í Borgarnesi selur djúpsteiktan plokkfisk eins og oft hefur komið fram áður. Hún er eiginlega orðin fastur áningarstaður þegar leiðin liggur um Borgarnes nærri matmálstíma og svo var einmitt nú. Olíssjoppan er með lítinn sal á efri hæð, nokkurs konar vel varðveitt leyndarmál, ef marka má þá staðreynd að við veljum jafnan að sitja þar uppi og eigum salinn yfirleitt ein. Þar sátum við líka nú með okkar plokkfisk og spáðum í spilin. Hítardalur var nefnilega á ferðaáætluninni en það var hins vegar orðið of áliðið kvölds til að fara þangað frameftir nú, auk þess sem ekki var lengur auglýst tjaldsvæði þar. Þetta tjaldsvæði hafði áður verið inni á Útilegukortinu og Hítarvatnið á Veiðikortinu, en hvorugt var að finna þetta árið. Mig grunaði að vatnið hefði verið leigt veiðifélagi syðra og tjaldsvæðið hefði líklega verið látið fylgja í pakkanum. Hafandi enga vissu fyrir næturaðstöðu auk þess sem vindbelgingurinn gerði Mýrarnar ekki aðlaðandi var Hítardalurinn flautaður af í bili og förin ákveðin beint að Laugagerðisskóla, sem í sumar heitir Hótel Eldborg. Rétt ofan við Borgarnes ókum við inn í blindþoku sem stöðugt þéttist eftir því sem ofar dró. Við Barnaborgir var hún svo þétt að ég var sannfærður um að útlendingarnir á bílaleigujarisunum sem stöðugt skutust fram úr okkur vel á öðru hundraðinu hlytu að hafa komið til Íslands í sjálfsmorðstilgangi - eða í drápshug! Ofan við Kaldármela ókum við svo út úr þokunni eins og hendi væri veifað og það var sólarglampi á Laugagerðisskóla þegar við ókum þar í hlað um hálfellefuleytið. Fundum okkur náttstað, veifuðum útilegukortinu og nokkrum augnablikum síðar var þriðjudagurinn tuttugastiogþriðji genginn inn í eilífðina og við tvö gengin inn í land draumanna meðan rokið vaggaði sjúkrabílnum mjúklega en hristi og skók pappaílátin sem sumir kalla húsbíla og hjólhýsi annarsstaðar á svæðinu.

Upp rann miðvikudagur, sólbjartur og lofaði góðu. Klukkan rúmlega átta vorum við mætt í morgunkaffi inn á hótel og tveimur bollum síðar vorum við komin ofan í heita pott sundlaugarinnar, í félagsskap útlendrar konu sem var ótalandi á öll guðiþóknanleg tungumál og innlendra hjóna sem höfðu marga fjöruna sopið á Patróljeppa með Alæner.

Svo lögðum við af stað út Nes, og útsýnið til jökulsins var nokkurn veginn svona:



Á vegskilti nærri Staðastað stendur "Ölkelda". Eftir kortum og bæklingum að dæma var þarna um merkilegan stað að ræða. Við beygðum af leið og reyndum að finna ölkelduna án árangurs. Við fundum borholu sem steypt hafði verið utanum og settur í krani, ekki gat það verið þessi merkilega ölkelda. Frá nálægu bílastæði lá troðinn stígur í grasi að þessarri uppsteyptu borholu og á bílastæðinu sjálfu var ógreinilegt upplýsingaskilti um kelduna. Ekki varð þó komist nærru um hvar hana væri að finna svo við snerum frá og ókum langleiðina heim að Slitvindastöðum. Við heimtröðina eru skilti þar sem frábeðinn er allur átroðningur og nær var því ekki farið. Kannski hafa landráðendur á eyðibýlinu og vegarendanum Slitvindastöðum verið þjakaðir af endalausum ferðamannastraumi og séð sig tilneydda til að banna óviðkomandi umferð um einkaland - veit það ekki. Kannski vilja þeir bara fá frið með fé sitt, bæði laust og lifandi.......

Oft hef ég ekið þessa leið og í hvert sinn lofað sjálfum mér að renna "næst" heim að Staðastað og skoða kirkjuna þar. Ég viðraði þennan áhuga við hana Elínu sem ákvað um leið að nú væri upp runnið þetta "næst".



Kirkjan er veglegasta hús og vel við haldið, þó mátti sjá talsvert á nýlegri utanhússklæðningu sem virtist annars vera Steni-krossviðarplötur.



Áfram héldum við og næsti viðkomustaður var Arnarstapi. Þar áðum við hjá ferðaþjónustunni Snjófelli, keyptum okkur kaffi og slökuðum á litla stund. Svo dró ég Elínu niður að einum af þessum sérstöku stöðum sem fáum virðast þykja merkilegir nema mér. Þarna er safnþró Vikurfélagsins sáluga, og í henni er enn talsvert af vikrinum sem fleytt var með vatni ofan úr brúnum Snæfellsjökuls fyrir áratugum. Vikurinn er ljósleitur og fisléttur, og hún Elín Huld fílaði það í botn að láta ljósa molana renna um greipar sér líkt og gull.



Frá safnþrónni var vikrinum fleytt í vatnsleiðslum um borð í flutningaskip sem sigldu með hann til Reykjavíkur. Þau flutningaskip voru, þó ekki væru kannski öll stór, eitthvað stærri en þessi trefjaplastbolli sem lá upp við nálægan húsvegg og er einungis fléttaður hér inn í frásögnina af því ég er hrifinn af litlum plasttrillum:








Svo þurfti ég auðvitað að gægjast niður í fjöruna til að athuga hvort ekki sæjust einhver ummerki um flutningsleiðina frá safnþrónni út í skipin - einhverjar leifar af búnaði eða eitthvað - bara eitthvað.......





Það var annars hægt að láta heillast af umhverfinu í svona veðri. Þarna innan við höfnina og með klettaströndinni er hreint ótrúlega fallegt - hrein paradís.



Svo klöngruðumst við niður fyrir safnþróna og fram á klappirnar ofan fjörunnar. Þarna voru alls konar myndanir í stuðlabergið, hellar, göt og skápar. Elín stillti sér upp fyrir myndatöku því ég hafði komið auga á stálhring í stuðlabergsklöpp niðri í fjörunni og sveif þangað niður með myndavélina.





Þarna má sjá steypt stykki sem vikurleiðslurnar hafa legið í gegnum, kannski hefur þetta verið endastöð röranna og tenging við gúmmíslöngurnar sem lágu út í skipin hefur verið þarna. Mér finnst það líklegt því tengingin hlýtur að hafa verið ofan fjöruborðs og varla hafa járnrörin legið út í ruggandi bátana. Þarna í stuðlabergsklöppinni á miðri mynd er járnhringurinn sem ég var búinn að koma auga á, ryðgaður og sést greinilega. Ég rétti Elínu myndavélina og bað hana að mynda mig við hringinn. Klifraði svo niður að honum og Elín færði sig einnig neðar. Ég beygði mig niður, tók í hringinn báðum höndum og rétti mig upp nákvæmlega á því augnabliki sem steinn valt undan Elínu og ég horfði á hana hrynja niður í stórgrýtið við hægra horn steypustykkisins. Ég sá myndavélina fljúga og ég heyrði höggið þegar Elín sló höfðinu utan í einn af stærstu steinunum. Það var hroðalegt hljóð....



Neðan frá klöppinni sá ég hana hreyfa annan handlegginn. Dynkurinn sat í eyrunum á mér og mér fannst eins og þetta hlytu að vera síðustu hreyfingarnar - síðan myndi hún bara liggja kyrr og ekki standa upp aftur! Ég stökk upp að henni og þá fór hún að reyna að standa upp. Ég bjóst hreinlega ekki við öðru en hún væri stórslösuð eftir svona höfuðhögg en hún gat sest upp og virtist óbrotin. Ég skoðaði höfuðið og fyrir einhverja mildi virtist allt hafa hjálpast að: Steinninn var sæbarinn og eggsléttur á þeirri hlið sem höfuðið lenti á, höggið hafði komið ofan og aftan við hægra eyrað og mesti áverkinn á þeim stað var sár eftir gleraugnaspöngina ásamt risakúlu sem fór stækkandi. Ég studdi Elínu upp klappirnar, hún var talsvert vönkuð og reikul en stóð þó sæmilega. Uppi í bíl var ágætis sjúkrakassi, hann var dreginn fram og búið um hrufl á fæti, hendi, olnboga og öxl. Sárið á höfðinu var hreinsað og sem betur fer blæddi lítið úr því en kúlan var svakaleg og eymslin fóru vaxandi. Það var alveg dagsljóst að þarna hafði einhver haldið verndarhendi yfir henni Elínu svo um munaði því af minna tilefni hafa orðið stórslys og þarna hafði aðeins skeikað hársbreidd ....

Það var ekki alveg sama fjörið í andlitinu þegar búið var að "doktora" og sjúklingurinn var staðinn upp úr stólnum:



(Ég má eiginlega til að nefna, svona í ljósi núverandi aðstæðna að þessi ágæti sjúkrakassi sem nefndur var og kom þarna í góðar þarfir, er stór og mikill og kyrfilega merktur Mercedes Benz. Hann er kominn vel til ára sinna, ættaður úr gömlum bláum sendibíl sem Póllinn hf. á Ísafirði átti og varð síðar húsbíll í eigu Bjössa í Bílatanga. Þegar ævi húsbílsins lauk eiganðist ég leifar hans og eitt af því sem ég tók til handargagns var þessi forláta original Benz-sjúkrakassi. Ég lít svo á kaupverð húsbílsflaksins hafi skilað sér til baka í einni greiðslu þegar ég sótti kassann undir sæti sjúkrabílsins í þetta sinn og doktoraði Elínu með innihaldinu)

Svo var það myndavélin. Hún hafði flogið út í grjótið þegar Elín datt og þar fann ég hana milli steina. Hún virtist hafa fengið mýkri lendingu og var að sjá  óbrotin en linsan var skökk og vildi ekki virka. Með smámöndli virtist linsan smella í skorður og eftir að rafhlöðurnar höfðu verið teknar úr og settar í aftur, semsagt "rísettað" eins og það heitir víst, fór vélin í gang og það var hægt að ímynda sér að sá -eða sú - sem hafði haldið verndarhendi yfir Elínu hefði einnig gætt myndavélarinnar. Það gat varla bent til annars en að ætlast væri til að við héldum áfram að taka myndir eins og ekkert væri.



Eftir stutta hvíld á Arnarstapa var Elín búin að jafna sig nægilega til að vilja halda förinni áfram. Við ókum því áleiðis upp á Jökulháls með viðkomu í gömlu vikurvinnslunni í hvömmunum neðan við Sönghelli. Eftir stutta gönguferð um Efri - og Neðrihvamm var haldið upp að Sönghelli og farið inn í hann. Við vorum með gott ljós og gátum áttað okkur þokkalega á umfangi hellisins. Hann er ekki stór að flatarmáli en töluvert hár til lofts og hljómburðurinn er ótrúlegur.



Ekki mynduðum við í Sönghelli sjálfum en ofan hans eru aðrir smærri og opnari. Þessi afar listræna mynd er tekin af Elínu Huld út um hellisopið:



Við fetuðum okkur upp hálsinn og er upp kom var talsvert af fólki að njóta útsýnis og veðurblíðu. Hvíti bíllinn sem stendur vinstra megin við sjúkrabílinn (á myndinni) er nýr Peugeot, trúlega bílaleigubíll. Hann kom norðan frá og þegar ökumaðurinn beygði inn á bílastæðið barði hann bílnum niður á grjót svo söng í. Bíllinn var þunglestaður og hefði varla farið klakklaust yfir venjulega hraðahindrun. Samt var hann kominn upp á Jökulháls! Mikið óskaplega held ég sá verði heppinn sem næst eignast þennan bíl......



Við bjuggum okkur til göngu, með kex og drykkjarföng í bakpoka. lögðum svo á vikurkúlurnar, því mig langaði að sýna Elínu leifarnar af skála Ferðafélagsins þarna uppi undir jökulrótum. Ég skoðaði þessar skálaleifar sumarið 2011 og það má sjá afraksturinn HÉR

Þetta er ekki tiltakanlega löng ganga né brött, en í svona veðri getur hún tekið sinn tíma því stöðugt er verið að stöðva til að virða fyrir sér stórkostlegt útsýnið. Hér að neðan er horft til austurs, í átt inn nesið yfir nær endalausar vikurbreiður:



....og hér til suðurs og það er Stapafell ofan Arnarstapa sem beinir fingri til himins á miðri mynd. Til hægri við Stapafell sést niður að Hellnum:



Þarna uppi í vikurbingjunum voru talsverðar fannir, því sumarið hefur kannski ekki verið það allra heitasta og svo er þarna hver gígurinn af öðrum og skuggamegin í þeim bráðnar seinna en ella. Þessi skafl var svo harður að vart markaði för og konan sem svo stuttu áður hafði snúið á dauðann niðri við Arnarstapa varð eins og barn við að komast í snertingu við snjóinn - svo gaman fannst henni að ég fór að hafa af því áhyggjur að höfuðhöggið hefði kannski haft afleiðingar eftir allt saman.....


Svo birtist hún uppi á einni vikuröxlinni með staf í hendi, líkt og förukerlingar fyrri tíma.



Hún virtist samt ágætlega gangfær og almennt séð ekki meira rugl á henni en vanalega, svo ég lét þessar áhyggjur lönd og leið. Augnablikum síðar vorum við komin upp að skálarústunum og allar aðrar vangaveltur látnar lönd og leið. Toppur Snæfellsjökuls var skafheiður:



Bakpokinn var opnaðaur og nestið tekið upp. Í baksýn er inn - nesið, Breiðavík og Búðahraun.



Ég veit það sést illa á myndinni, en rétt hægra megin og neðan við hábungur jökulsins er slóð. Í henni er lítill, svartur depill. Þar er á ferðinni snjóbíll sem ók með farþega frá endastöð rétt norðan há - hálsins og upp á jökultoppinn. Hraðinn var lítill en vissulega hafa þeir -væntanlega útlendingar - sem keyptu slíka ferð upplifað ævintýri lífs síns...



Við gengum aðra leið niður af hólunum í átt til bílsins og rákumst á þetta mælitæki eitt í auðninni:



Fram kom á miðanum að um væri að ræða einhvers konar landmælingaapparat á vegum Háskóla Íslands. Við gerðum eins og beðið var um, tókum á okkur góðan sveig og töluðum saman í lágum hljóðum til að trufla ekki. Það styttist til bílsins og von bráðar vorum við komin niður.



Læt þetta duga að sinni. Líklega verður pistillinn í þremur hlutum eins og fram kemur í fyrstu línu.
Flettingar í dag: 297
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135264
Samtals gestir: 27952
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:45:28


Tenglar